Vegurinn og lífið eftir Lao Tse


VEGURINN  OG  LÍFIÐ


eftir Lao Tse


í þýðingu Agnars W. Agnarssonar (byggt á þýðingu Richard Wilhelm)





Vegurinn


1.

Sá skilningur sem mælanlegur er, er eigi eilífur skilningur.
Nafnið sem nefnanlegt er, er ekki eilífa nafnið.
"Tilvistarleysi" nefni ég upphaf himins og jarðar.
"Tilvist" nefni ég móður einstaklinganna.
Því stefnir áttin á tilvistarleysi til skynjunar undarlegu verunnar,
áttin til tilvistar, til skynjunar takmörkunar rúmsins.
Hvorttveggja er aðeins í upphafinu, aðgreint gegnum nafnið.
Í einingu sinni heitir það leyndarmálið.
Leyndarmál dýpra leyndarmáls er hliðið sem öll undur ganga úr.


2.

Er allir á jörðu skynja fegurð sem fegurð,
þá er ljótt jafnframt myndað.
Því tilvist og tilvistarleysi skapa hvert annað.
Þungt og létt fullkomna hvert annað.
Langt og stutt móta hvert annað.
Hátt og lágt snúa hvort öðru.
Rödd og tónn mala hvort annað.
Fyrir og eftir fylgja hvort öðru.

Einnig svo hinn kallaði:
Hann gagnar án gerðar.
Hann kennir án orða.
Allar verur ganga hér fram,
og hann neitar þeim ekki.
Hann framleiðir og á ekki.
Hann virkar og hirðir ekki.
Þegar verkið er fullgert,
hættir hann eigi þar.
Þar sem hann hættir eigi,
verður hann ei yfirgefinn.


3.

Að hygla eigi þeim duglegu,
gerir maður til þess að fólk rífist ekki.
Að telja ei gersemar til verðmæta,
gerir maður til þess að fólk steli ekki.
Að sýna ekkert eftirsóknarvert,
gerir maður til þess að hjarta fólks firrist ekki.
Því stjórnar sá kallaði þannig:
Hann tæmir hjörtu þeirra og fyllir líkama þeirra.
Hann mýkir vilja þeirra og styrkir bein þeirra,
og sér til þess að fólk sé án visku og án óska,
og sér til þess að þeir sem vita, vogi sér ekki að framkvæma.
Hann framkvæmir framkvæmdaleysið, þannig verður allt í lagi.


4.

Skilningurinn flæðir ávallt.
En flæðir í virkni sinnir aldrei útfyrir.
Hyldýpi er hann eins og forfaðir allra hluta.
Hann mildar skerpu þeirra.
Hann leysir úr flækjum þeirra.
Hann jafnar glans þeirra.
Hann sameinast ryki þeirra.
Djúpur er hann og þó eins og verulegur.
Ég veit ei hvers son hann er.
Hann virðist fyrr en guð.


5.

Himinn og jörð eru eigi góðlát.
Þeim eru menn eins og fórnarlömb.
Hinn kallaði er eigi góðlátur.
Honum eru mennirnir sem fórnarlömb.
Bilið milli himins og jarðar,
er eins og flauta,
tómt, en fellur þó ekki saman;
sé það hreyft, kemur ávallt meira úr því.
En mörg orð verða að þrotum komin á því.
Betra er að varðveita hið innra.


6.

Andi dalsins deyr ekki,
það heitir hin dökka kona.
Hlið dökku konunnar,
heitir rót himins og jarðar.
Stöðugt og varanlegt
starfar það án strits.


7.

Himininn er eilífur og jörðin varanleg.
Þau eru varanleg og eilíf,
því þau lifa ei sjálfu sér.
Því geta þau lifað eilíflega.
Einnig svo hinn kallaði:
Hann setur sjálf sitt aftast
og sjálf hans kemur fremst.
Hann hirðir ekki sjálf sitt,
og sjálf hans varðveitist.
Er það ekki jafnframt:
Því hann krefst einskis eigins,
verður hans eigið fullkomnað?


8.

Æðsta dyggð er sem vatnið.
Gæska vatnsins er,
að nýtast öllum verum án deilna.
Það varir á stöðum sem allt fólk fyrirlítur.
Því stendur það nærri skilningnum.
Við bústað sýnir sig gæskan á staðnum.
Við að hugsa sýnir sig gæskan í djúpinu.
Við að gefa birtir sig gæskan í kærleikanum.
Við að tala birtir sig gæskan í sannleikanum.
Við að stjórna birtir sig gæskan í reglunni.
Við að virka birtir sig gæskan í getunni.
Við að hreyfa sýnir sig gæskan í réttum tíma.
Sá sem tranar sjálfum sér eigi fram,
er einmitt við það, laus við ádeilur.


9.

Að halda í eitthvað og ofgera því þar með:
svarar eigi fyrirhöfninni.
Að vilja handfjatla eitthvað og halda því þannig ávallt skörpu:
það er ei lengi hægt að varðveita.
Salur sem er fullur af gulli og gimsteinum
getur enginn gætt.
Að vera ríkur og virðulegur og þar að auki hátt yfir aðra hafinn
dregur af sjálfu sér ógæfuna að.
Sé verkið fullgert, draga sig síðan til baka:
það er skilningur himinsins.


10.

Getur þú mótað sál þína svo að hún umlyki það eina,
án þess að tvístrast?
Getur þú gert afl þitt sameinað
og öðlast mýktina,
þannig að þú verðir sem barn?
Getur þú hreinsað þína leyndu skoðun,
svo að hún sé án bletta?
Getur þú elskað fólkið og stýrt ríkinu,
þannig að þú sért án vitneskju?
Getur þú, þegar hlið himins
opnast og lokast,
verið sem hæna?
Getur þú með innri tærð og hreinleika
farið í gegnum allt án þess að framkvæma?
Skapa og næra,
skapa og eiga ekki,
virka og safna ekki,
fjölga og stjórna ekki:
það er dulið líf.


11.

Þrjátíu teinar umlykja nafinn:
Í tómi þess varir gagnsemi vagnsins,
Maður holar leir og mótar leirker:
Í holi þess fellst gagnsemi leirkerjanna.
Maður býr til dyr og glugga svo að herbergið sé:
Í tómi þess fellst gagnsemi herbergisins.
Því: Það sem er, þjónar því að vera átt.
Það sem ei er, þjónar verkinu.


12.

Litirnir fimm blinda augu mannverunnar.
Tónarnir fimm deyfa eyru mannverunnar.
Brögðin fimm deyfa bragðlauka mannverunnar.
Hlaup og veiðar æsa hjörtu mannverunnar.
Sjaldgæfir hlutir rugla mannveruna.
Því virkar sá kallaði fyrir líkamann en eigi augað.
Hann fjarlægir hitt og tekur þetta.


13.

Náð er skammarleg sem óttinn.
Heiður er stór galli eins og persónan.
Hvað táknar: "Náð er skammarleg sem óttinn"?
Náð er eitthvað lítils gildis.
Maður öðlast hana og er brugðið við.
Maður glatar henni og er brugðið við.
Það táknar: "Náð er skammarleg sem óttinn".
Hvað merkir: "Heiður er stór galli eins og persónan"?
Ástæðan fyrir því að ég verð var við stóran galla,
er að ég hef persónu.
Hafi ég enga persónu,
hvaða stóra galla gæti ég þá orðið var við?
Því: Sá sem í sinni persónu heiðrar heiminn,
þeim getur maður væntanlega treyst fyrir heiminum.
Sá sem í persónu sinni elskar heiminn,
þeim getur maður væntanlega gefið heiminn.


14.

Maður leitar hans og sér ei:
Nafn hans er kím.
Maður hlustar eftir honum og heyrir ei:
Nafn hans er fínt.
Maður grípur eftir honum og finnur ei:
Nafn hans er lítill.
Þessa þrjá er ekki hægt að aðgreina,
því mynda þeir blandað eitt.
Hans efra er ekki ljóst,
hans neðra ekki myrkt.
Sprettandi óstöðvandi,
er ei hægt að nefna það.
Hann snýr aftur í eiverund.
Það heitir formlausa formið,
hlutlausa myndin.
Það heitir hið myrkva óreglulega.
Við að ganga til móts við það sér maður ei andlit hans,
fylgi maður honum sér maður eigi bakhliðina.
Ef maður varðveitir skilning þess forna,
til að stjórna skilningi nútímans,
svo getur maður vitað fornt upphafið.
Það nefnist gegnumgangandi þráður skilningsins.


15.

Þeir er til forna voru sem meistarar,
voru á laun í einingu við ósýnilegu kraftana.
Djúpir voru þeir, svo að maður getur ei þekkt þá.
Af því að maður getur ei þekkt þá,
því getur maður aðeins með fyrirhöfn útskýrt þess ytra.
Hikandi, eins og sá sem fer yfir fljót að vetri,
varkár, eins og sá er óttast nágranna sinna úr öllum áttum,
hógvær eins og gestir,
farandi eins og ís sem bráðnar,
einfalt, eins og óunnið efni,
breiðir voru þeir eins og dalurinn,
ósýnilegir eins og hið grugguga.
Hver getur (eins og þeir) tært það grugguga með kyrrðinni?
Hver getur (eins og þeir) myndað ró með varanleika?
Sá sem varðveitir þennan skilning,
þráir eigi ofgnótt.
Því aðeins vegna þess að hann hefur ei ofgnótt,
getur hann verið lítils háttar,
forðast hið nýja
og öðlast fullnun.


16.

Gjörið tóm til þess hæsta!
Viðhaldið kyrrðinni til þess fyllsta!
Allir hlutir gætu lyft sér þá.
Ég sé hvernig þeir snúast.
Hlutirnir í mergð sinni,
sérhver snýr aftur til uppruna síns.
Að snúa aftur til upprunans nefnist kyrrð.
Kyrrð nefnist að snúa aftur til örlaganna.
Að snúa aftur til örlaganna nefnist eilífð.
Meðvitund um eilífðina nefnist tærð.
Sé maður eigi meðvitaður um eilífðina,
lendir maður í firringu og synd.
Sé maður meðvitaður um eilífðina,
verður maður umburðalyndur.
Umburðalyndi leiðir til réttlætis.
Réttlæti leiðir til drottnunar.
Drottnun leiðir til himins.
Himininn leiðir til skilnings.
Skilningur leiðir til varanleika.
Lífið langt lendir maður eigi í hættu.


17.

Drottni mjög mikill,
veit fólk varla að hann sé þar.
Lægri eru elskaðir og lofaðir,
enn lægri borinn ótti fyrir,
enn lægri eru fyrirlitnir.
Hve yfirvegaður þarf maður að vera í orðum sínum!
Gjörðirnar eru framkvæmdar, viðskiptin ganga sinn gang,
og fólkið allt hugsar:
"Við erum frjáls."


18.

Fari skilningurinn mikli forgörðum,
verður siðsemi og skylda.
Komi til skynsemi og viska,
koma til stóru lygarnar.
Verði ættmenni sundurþykk,
verða til skyldur barns og kærleikur.
Firrist ríkin,
verða til tryggir embættismenn.


19.

Hættið heilagleikanum, kastið brott viskunni,
þannig mun fólkið sigra hundraðfalt.
Hættið siðseminni, kastið brott skyldunni,
þannig mun fólkið snúa aftur til skyldna barna og kærleikans.
Hættið hæfninni, kastið brott hagnaðinum,
þannig munu þjófar og ræningjar hætta að vera til.
Í þessum þrem hlutum
nægir fallegur svipurinn ei til.
Sjáið því til þess að menn geti haldið sig við eitthvað.
Sýnið einfeldni, haldið fast hreinleikanum!
Minnkið sjálfselsku, takmarkið þrárnar!
Hættið kennslunni!
Þannig verðið þið laus við sorgir.


20.

Milli "vissulega" og "já gjarnan":
hver er munurinn?
Milli "góðs" og "ills":
hver er munurinn?
Það sem mennirnir virða, verður að virða.
Ó, einsemd, hversu lengi varir þú?
Allir menn eru svo ljómandi,
sem liðið væri í hina miklu fórn,
sem gengu þeir að vori upp í turnana.
Aðeins ég er hikandi, ég hafði ei upplifað teikn,
eins og hvítvoðungur sem getur enn ekki hlegið,
órólegur, þvælist um, sem hefði ég hvergi heima.
Allir menn hafa gnægð;
aðeins ég er sem gleymdur.
Ég hef hjarta fífls, svo ruglað og myrkt.
Heimsmennirnir eru bjartir, ó svo bjartir;
aðeins ég er sem gruggugur.
Heimsmennirnir eru skynsamir, ó svo skynsamir;
aðeins ég er sem lokaður í mér,
órólegur, ó, eins og hafið,
þyrlandi, ó, án grunns.
Allir menn hafa sinn tilgang;
aðeins ég er nægjusamur eins og betlari.
Aðeins ég er öðruvísi en mennirnir:
Ég tel það til gildis,
að leita næringar hjá móðurinni.


21.

Innihald lífsins mikla
fylgir algjörlega skilningnum.
Skilningurinn er áhrifavaldur hlutanna
svo óreglulegt, svo myrkt.
Óreglulegar, myrkar
eru í honum myndir.
Óendanlega djúpt
er í því sæðið.
Þetta sæði er algjörlega satt.
Í því fellst áreiðanleiki.
Frá fornu fari til dagsins í dag
er eigi hægt að vera án nafnanna,
til að geta séð yfir alla hluti.
Hvaðan veit ég eigind allra hluta?
Einmitt gegnum þá.


22.

Það sem hálft er, verður heilt.
Það sem bogið er, verður beint.
Það sem tómt er, verður fullt.
Það sem gamalt er, verður nýtt.
Sá sem lítið hefur, mun fá.
Sá sem mikið hefur, mun missa.
Einnig svo sá kallaði:
Hann umlykur hið eina
og er heiminum fyrirmynd.
Hann mun ekki sjálfur birtast,
því verður hann hugljómaður.
Hann vill eigi vera neitt sjálfur,
því verður hann stórkostlegur.
Hann hrósar ei sjálfum sér,
því fullgerir hann verk.
Hann tranar sér ei fram,
því verður hann virtur.
Því sá sem deilir ekki,
við hann getur enginn í heiminum deilt.
Það sem hinir fornu sögðu: "Það sem hálft er,
verður fullt", eru vissulega ekki orðin tóm.
Öll sönn fullkomnun fellst í því.


23.

Mælið sjaldan orðin,
þá gengur allt af sjálfu sér.
Hvirfilvindur varir ekki einn morgunn.
Hellirigning varir ekki daginn.
Og hvað veldur því?
Himinn og jörð.
Það sem sjálfur himinn og jörð megna ekki varanlega,
hversu síður getur það mannveran?
Því: Ef þú ferð í verk þitt með skilningi,
þá munt þú með þeim, hafa svo skilningin, einingu í skilningnum,
með þeim, hafa lífið svo, einingu í lífinu,
með þeim, sem fátækir eru, einingu í fátækt þeirra.
Sért þú með þeim eitt í skilningnum,
þá koma þeir, er hafa skilninginn svo,
einnig glaðlega til móts við þig.
Sértu eitt með þeim í lífinu,
þá koma þeir, er hafa lífið þannig,
einnig glaðlega til móts við þig.
Sértu eitt með þeim í fátækt þeirra,
þá koma þeir er eru fátækir,
einnig glaðlega til móts við þig.
En þar sem trúin er ekki nógu sterk,
þar finnur maður enga trú.


24.

Sá sem á tánum stendur,
stendur eigi stöðugur.
Sá sem gengur með fætur útglennta,
kemst ekki áfram.
Sá sem sjálfur vill skína,
verður ekki hugljómaður.
Sá sem vill vera eitthvað sjálfur,
verður eigi stórkostlegur.
Sá sem hrósar sjálfum sér,
fullgerir eigi verk.
Sá sem tranar sér fram,
verður ekki upphafinn.
Hann er gagnvart skilningnum sem eldhússorp og vessakýli.
Og allt skapað hatar hann.
Því: Sá er hefur skilningin,
dvelur ei við það.


25.

Það er hlutur, sem er óaðgreinanlega fullgert.
Áður en himinn og jörð urðu, var það þegar,
svo kyrrt, svo einmana.
Það stendur einsamalt og breytist ei.
Það hleypur í hringi og hættir sér eigi.
Það má nefna það móður heimsins.
Ég veit ei nafn þess.
Ég nefni það skilninginn.
Ef ég gef því nafn með fyrirhöfn,
nefni ég það: stórt.
Stórt, þýðir ávallt á hreyfingu.
Ávallt á hreyfingu, þýðir það fjarlægð.
Fjarlægð, þýðir að það snýr aftur.
Svo er skilningurinn stór, himininn stór, jörðin stór,
og mannveran einnig stór.
Fjórir stórir eru í rúminu,
og mannveran er einnig eitt þeirra.
Maðurinn fer eftir jörðinni.
Jörðin fer eftir himninum.
Himininn fer eftir skilningnum.
Skilningurinn fer eftir sjálfu sér.


26.

Þyngdin er rót þess létta.
Kyrrðin er herra hreyfingarinnar.
Einnig svo hinn kallaði:
Hann gengur allan daginn,
án þess að skilja sig við þungar byrðar.
Þó hann hafi allt stórkostlegt fyrir augum:
Varir hann ánægður í einsemd sinni.
Hversu minna má herra ríkisins fyrst,
taka jarðarkringluna í persónu sinni léttvægt!
Með því að taka léttvægt á, glatar maður rótinni.
Með óró glatar maður stjórninni.


27.

Góður göngumaður skilur eigi eftir sig spor.
Góður ræðumaður þarf ekki að endurtaka neitt.
Góður stærðfræðingur þarf eigi reiknitöflu.
Góður lokari þarf hvorki lás né lykil,
og þó getur enginn opnað.
Sá er bindur vel, þarf hvorki reipi né bönd,
og þó getur enginn leyst.
Sá kallaði kann það ávallt vel að bjarga mönnum;
því er fyrir honum engar glataðar mannverur.
Hann skilur ávallt vel að bjarga hlutunum;
því er fyrir honum engir glataðir hlutir.
Það heitir að erfa skýrleikann.
Þannig er gott fólk kennarar þeirra ógóðu,
og ógóðu mannverurnar efni þeirra góðu.
Sá sem virðir eigi kennara sína
og elskar eigi efni sitt,
honum skjátlast mjög þrátt fyrir alla visku.
Það er stóra leyndarmálið.


28.

Sá er þekkir karlmennsku sína
og varðveitir kvenleika sinn,
sá er gjá heimsins.
Sé hann gjá heimsins,
þá yfirgefur eilíft líf hann ekki,
og hann verður aftur sem barn.

Sá sem þekkir hreinleika sinn
og varðveitir veikleika sína,
er heiminum fyrirmynd.
Sé hann heiminum fyrirmynd,
þá víkur ekki frá honum eilíft líf,
og hann snýr aftur til þess sem hefur ei orðið.

Sá er þekkir virðingu sína,
og varðveitir smán sína,
er dalur heimsins.
Sé hann dalur heimsins,
hefur hann gnægð eilífs lífs,
og snýr aftur til einfaldleikans.

Sé einfaldleikinn dreifður, eru til "nothæfar" mannverur.
Iðki sá kallaði það, verður hann herra embættismannanna.
Því: stórkostlegt form þarf ei að skera af.


29.

Að vilja sigra heiminn og fara með,
ég hef upplifað að það mistekst.
Heimurinn er andlegur hlutur,
sem má ekki fara með.
Sá sem fer með það, spillir því,
sá sem vill halda í, glatar því.
Hlutirnir ganga stundum á undan, stundum eftir,
stundum anda þeir heitt, stundum blása þeir kalt,
stundum eru þeir sterkir, stundum eru þeir þunnir,
stundum synda þeir, stundum falla þeir.
Því forðast sá kallaði
það sem er of gjarnan, of mikið, of stórt.


30.

Sá sem aðstoðar með réttum skilningi stjórnanda manna,
nauðgar ei heiminum með vopnum,
því gjörðir koma til baka á eigið höfuð.
Þar sem herir hafa dvalið, vaxa þyrnar.
Eftir stríð koma ávallt ár hungurs.
Því leitir sá duglegi aðeins ákvarðana;
hann vogar ei að sigra með valdi.
Ákvörðun án þess að sýna mátt sinn,
ákvörðun, án þess að hrósa sér,
ákvörðun, án þess að vera stoltur,
ákvörðun, af því að það gengur ei öðru vísi,
ákvörðun, fjarri ofbeldi.


31.

Vopn eru ógóð tól,
allar verur hata þau væntanlega.
Því vill sá er hefur rétta skilninginn,
ekkert af þeim vita.
Öðlingurinn í venjulegu lífi sínu
lítur á heiðurssætið til vinstri handar.
Við vopnbeitingu er heiðurssætið til hægri handar.
Vopn eru ógóð tól,
ekki tól fyrir öðlinginn.
Aðeins ef hann getur ei annað, notar hann þau.
Ró og friður eru honum það hæsta.
Hann sigrar, en gleðst ekki yfir því.
Sá sem myndi gleðjast yfir því,
myndi gleðjast yfir mannsmorðum.
Sá er vill gleðjast yfir mannsmorðum,
getur eigi öðlast takmark sitt í heiminum.
Við tilfelli hamingju er heiðurssætið á vinstri hönd.
Við tilfelli óhamingju er heiðurssætið á hægri hönd.
Undirforinginn er á vinstri hönd,
yfirforinginn er á hægri hönd.
Það táknar að hann staðsetur sig sem við jarðarfarir.
Mannverur drepa marga,
það ætti að syrgja með tárum samúðar.
Sá sem sigrar í stríði,
ætti að vera eins og í jarðarför.


32.

Skilningurinn sem er eilífur er nafnlaus einfelldni.
Þó lítill sé,
vogar heimurinn sér ekki að gera hann að þjóni.
Ef furstar og konungar gætu varðveitt hann þannig,
myndu allir hlutir haga sér sem gestir.
Himinn og jörð myndu sameinast,
til að mynda sæta dögg.
Fólk myndi án skipana
vera í jafnvægi af sjálfu sér.
Þegar formgerðin hefst,
þá fyrst koma til nöfn.
Nöfnin ná einnig til skilningsins,
og maður veit jafnframt hvar á að stöðva.
Ef maður veit hvar á að stöðva,
lendir maður eigi í hættu.
Maður getur líkt tengslum skilningsins við heiminn,
með lækjum og ám,
sem renna í fljót og höf.


33.

Sá er aðra þekkir, er hygginn.
Sá er þekkir sjálfan sig, er vitur.
Sá er aðra sigrar, hefur kraft.
Sá er sigrar sjálfan sig, er sterkur.
Sá er kemur sínu fram, hefur vilja.
Sá sem er nægjusamur, er ríkur.
Sá er glatar eigi sínum stað, hefur varanleika.
Sá er hnígur einnig eigi í dauðanum, lifir.


34.

Skilningurinn mikli flæðir um allt;
hann getur verið til hægri og til vinstri.
Allir hlutir eiga tilvist sína honum að þakka,
og hann neitar þeim einskis.
Sé verkið fullgert,
þá nefnir hann það eigi í sinni eign.
Hann klæðir og nærir alla hluti
og þykist ei vera drottinn þeirra.
Svo framarlega sem hann er ei eilíflega þráður,
má nefna hann lítinn.
Svo framarlega sem allir hlutir eru háðir honum,
án þess að þekkja hann sem drottnara,
má nefna hann stórann.
Einnig svo sá kallaði:
Aldrei gerir hann sig stórann;
því kemur hann stóru verki sínu í framkvæmd.


35.

Sá er varðveitir stóru frummyndina,
til hans kemur heimurinn.
Hann kemur og slasast eigi,
í ró, jafnvægi og sælu.
Tónlist og beita:
geta gjarnan stöðvað gangandann á leið sinni.
Skilningurinn kemur fram úr munninum,
milt og án bragðs.
Þú horfir eftir honum og sérð ekkert sérstakt.
Þú hlustar eftir honum og heyrir ekkert sérstakt.
Þú framkvæmir samkvæmt honum og finnur engan endi.


36.

Því sem þú vilt þrýsta saman,
verður fyrst að láta þenjast mikið út.
Það sem þú vilt rýra,
verður fyrst að láta verða mjög sterkt.
Það sem þú vilt tortíma,
verður þú fyrst að láta blómstra vel.
Þann sem þú vilt taka,
þeim verður þú fyrst að gefa vel.
Það heitir skýrt gagnvart því ósýnilega.
Hið mjúka sigrar það harða.
Hið máttlitla sigrar það sterka.
Fiskinn má ekki taka úr djúpinu.
Hvata ríkisins
má ekki sýna fólkinu.


37.

Skilningurinn er eilífur án gjörðar,
og ekkert er ógert.
Ef furstar og konungar skilja að varðveita hann,
þá munu allir hlutir móta sig af sjálfu sér.
Móti þeir sig, þá lyfta sér þrárnar,
svo ég myndi stöðva þær með nafnlausri einfeldni.
Nafnlaus einfeldni veldur óskaleysi.
Óskaleysi veitir kyrrð,
og heimurinn verður sjálfkrafa réttur.


Lífið


38.

Sá sem metur lífið mikils, veit ekkert um lífið;
því hefur hann líf.
Sá sem metur lífið ekki mikils, leitast við að glata því ekki;
því hefur hann eigi líf.
Sé sem metur lífið mikils,
framkvæmir ei og hefur engar fyrirætlanir.
Sá sem metur lífið lítils,
framkvæmir og hefur fyrirætlanir.
Sá sem metur kærleikann mikils,
framkvæmir, en hefur engar fyrirætlanir.
Sá sem metur réttlætið mikils,
framkvæmir og hefur fyrirætlanir.
Sá sem metur siði mikils, framkvæmir,
og ef einhver svarar honum ekki,
þá fórnar hann höndum og sækir hann til sín.
Því: Sé skilningurinn glataður, þá einnig lífið.
Sé lífið glatað, þá einnig kærleikurinn.
Sé kærleikurinn glataður, þá einnig réttlætið.
Sé réttætið glatað, þá einnig siðirnir.
Siðir eru nauðsyn tryggðar og trúar
og upphaf firringar.
Að vita fyrirfram er það sem skilningurinn virðist
og upphaf heimskunnar.
Því varir rétti maðurinn með heilum
og eigi hjá þurfandi.
Hann býr í verund og ekki í því sem virðist.
Hann fjarlægir eitt og heldur sig við þetta.


39.

Þeir sem áður öðluðust hið eina:

Himininn öðlaðist hið eina og varð hreinn.
Jörðin öðlaðist hið eina og varð föst.
Guðirnir öðluðust hið eina og urðu máttugir.
Dalurinn öðlaðist hið eina og uppfyllti sig.
Allir hlutir öðluðust hið eina og mynduðust.
Konungar og furstar öðluðust hið eina
og urðu heiminum fyrirmynd.
Tilurð alls þessa er gegnum hið eina.
Ef himininn væri ei hreinn þessvegna, myndi hann bresta.
Væri jörðin ei föst þessvegna, myndi hún sundrast.
Væru guðirnir ei máttugir þessvegna,
myndu þeir stirðna.
Væri dalurinn ei uppfylltur þessvegna,
yrði hann máttvana.
Væru allir hlutir ei myndaðir þessvegna,
þá yrðu þeir að hverfa.
Væru konungar og furstar ei æðri þessvegna,
yrðu þeir að falla.

Því: Það sem eðalt er hefur hið rýra sem rót.
Háa hefur hið lága sem grundvöll.

Einnig svo furstar og konungar:
Þeir nefna sig "einsemd", "munaðarleysi", "lítið".
Svo tilgreina þeir hið rýra sem rót sína.
Eða er það ekki svo?

Því: Án stakra hluta vagnsins
er enginn vagn.
Óskið ekki glitrandi ljóma eðalsteinsins,
heldur hrárrar hrjósku steinsins.


40.

Að snúa til baka er hreyfing skilningsins.
Máttleysi eru áhrif skilningsins.
Allir hlutir undir himni myndast í verund.
Verund myndast í eiverund.


41.

Ef vitringur heyrir hæstu list skilningsins,
þá er hann iðinn og breytir eftir því.
Ef vitringur heyrir miðlungs list skilningsins,
þá trúir hann til hálfs, efast til hálfs.
Ef vitringur heyrir lága list skilningsins,
þá hlær hann hátt að því.
Ef hann hlær eigi hátt,
þá var það ekki enn eiginlegur skilningur.

Því hefur spakmælasmiður orðin:
"Tær skilningur birtist myrkur.
Skilningur framfara birtist sem afturför.
Sléttur skilningur birtist hrár.
Hæsta lífið birtist sem dalur.
Hæsti hreinleiki birtist sem smán.
Breitt líf birtist sem ónóg.
Sterkt líf birtist óáberandi.
Sönn vera birtist breytileg.
Stóra fernan hefur enginn horn.
Stóra tækið er seint fullgert.
Stóri tónninn hefur óheyrilegt hljóð.
Stóra myndin hefur ekkert form."

Skilningurinn í leynd sinni er án nafns.
Og þó er einmitt skilningurinn góður
í að veita og fullgera.


42.

Skilningurinn skapar eitt.
Eitt skapar tvennt.
Tvenndin skapar þrjá.
Þrenndin skapar alla hluti.
Allir hlutir hafa hið myrka að baki
og stefna til ljóssins,
streymandi krafturinn gefur því samræmi.

Það sem mennirnir hata,
er að vera yfirgefinn, einsemd, skortur.
Og þó velja furstar og konungar
það til að tákna sjálfa sig.
Því hlutirnir verða
annaðhvort auknir með takmörkun
eða takmarkaðir með aukningu.
Það sem aðrir kenna, kenni ég einnig:
"Þeir sterku deyja ekki náttúrulegum dauða".
Það vil ég gera að útgangspunkti kenninga minna.


43.

Hið mýksta á jörðu
yfirgnæfir það harðasta á jörðu.
Það eiverandi þrýstir sér einnig inn í það,
sem ekkert bil hefur.
Á því greinir maður gildi þess að gera ei.
Kenning án orða, gildi þess að gera ei
öðlast aðeins fáir á jörðu.


44.

Nafnið eða persónan:
hvað stendur nær?
Persónan eða eignin:
hvort er meira?
Sigur eða tap:
hvort er verra?

Nú samt:
Sá sem hengir hjarta sitt á annað,
notar nauðsynlega mikið.
Sá sem safnar miklu,
glatar nauðsynlega mikilvægu.
Sá sem er nægjusamur,
verður sér eigi til skammar.
Sá sem kann að iðka aðhaldssemi,
lendir ekki í hættu
og getur þannig varað eilíflega.


45.

Mikil fullkomnun verður að birtast sem ógerleg,
svo verður hún óendanleg í virkni sinni.
Mikil gnægð verður að birtast sem streymandi,
þannig er hún óþrjótandi í virkni sinni.
Mikil bein stefna verður að birtast sem bogin.
Mikil hæfni verður að birtast sem heimska.
Mikil ræðni verður að birtast sem þögn.
Hreyfing yfirbugar kuldann.
Kyrrðin yfirbugar hitann.
Hreinleiki og kyrrð eru leiðarvísar heimsins.


46.

Er skilningurinn ríkir á jörðu,
beitir maður kappreiðahestunum til að bera áburð.
Þegar skilningurinn er fjarri á jörðu,
eru stríðshestar aldir á þorpsenginu.
Eigi er til meiri synd en margar óskir.
Eigi er til neitt verra en þekkja aldrei að nóg er.
Eigi er til meiri mistök en að vilja fá.

Þessvegna: Að nægja nægjuseminni er varalega nóg.


47.

Án þess að ganga út fyrir dyr,
þekkir maður heiminn.
Án þess að líta út um gluggann,
sér maður skilning himinsins.
Því fjær sem maður fer út,
því takmarkaðri verður þekking hans.

Því þarf hinn kallaði ekki að fara
og veit þó allt.
Hann þarf ekki að sjá
og er þó ljóst.
Hann þarf ekki að gera
og fullgerir þó.


48.

Sá er iðkar námið, auðgar daglega.
Sá er iðkar skilningin, rýrir daglega.
Hann rýrir og rýrir,
þar til hann loks kemur að því að gera ekki neitt.
Við að gera ekki neitt verður ekkert ógert.
Ríkið getur maður aðeins öðlast,
ef maður er ávallt frjáls við að vera upptekinn.
Þeir sem eru of uppteknir eru eigi hæfir,
til þess að öðlast ríkið.


49.

Hinn kallaði hefur ekki eigið hjarta.
Hann gerir hjarta fólksins að sínu hjarta.
Við þá góðu er ég góður,
við þá ógóðu er ég einnig góður;
því að lífið er gæskan.
Við þá tryggu er ég tryggur,
við þá ótryggu er ég einnig tryggur;
því lífið er tryggðin.
Sá kallaði lifir mjög kyrrt í heiminum
og gerir hjarta sitt breitt fyrir heiminn.
Allt fólkið horfir og hlustar á hann.
Og hinn kallaði tekur þeim öllum sem börnum sínum.


50.

Að fara út er lífið, að fara inn dauðinn.
Félagar lífsins eru þrír undir tíu.
Félagar dauðans eru þrír undir tíu.
Mannverur sem lifa og hreyfa sig við það í átt til dauðans,
eru einnig þrjár undir tíu.
Hver er ástæða þess?
Því þeir vilja auka vöxt síns lífs.
Ég hef vissulega heyrt, að sá er kann að sinna lífinu vel,
sá gengur yfir landið
og hittir hvorki á nashyrning né tígur.
Hann gengur í gegnum her
og forðast hvorki brynjur né vopn.
Nashyrningurinn finnur ekkert, sem hann getur borað horni sínu í.
Tígurinn finnur ekkert, sem hann getur slegið með klóm sínum.
Vopnið finnur ekkert, sem getur tekið við biti þess.
Hversvegna svo?
Af því að hann hefur engan dauðlegan stað.


51.

Skilningurinn skapar,
Lífið nærir.
Umhverfið mótar.
Áhrifin fullgera.
Þessvegna virða allar verur skilningin
og meta lífið.
Skilningurinn er virtur,
lífið er metið
án ytri nefningar, algjörlega af sjálfu sér.

Svo: skilningurinn skapar, lífið nærir,
lætur vaxa, hirðir, fullgerir,
heldur, þekur og hlífir.


52.

Heimurinn hefur upphaf,
það er móðir heimsins.
Sá sem finnur móðurina,
til að kynnast sonum hennar,
sá sem þekkir syni hennar
og snýr sér aftur til móðurinnar,
hann lendir lífið langt ekki í hættu.
Sá sem lokar munni sínum
og hliðum sínum,
hann lendir lífið langt ekki í fyrirhöfn.
Sá sem opnar munn sinn
og ætlar að koma viðskiptum sínum í lag,
honum er ekki hægt að hjálpa lífið langt.
Að sjá hið smæsta nefnist að vera skýr.
Að varðveita viskuna nefnist að vera sterkur.
Ef maður notar ljósið sitt,
til að snúa aftur til þess skýrleika,
þá setur maður persónu sína eigi í hættu.
Það nefnast umbúðir eilífðarinnar.


53.

Ef ég raunverulega veit, hvað það nefnist,
að lifa í stóra skilningnum,
þá er það fyrst og fremst að vera upptekinn,
sem ég óttast.
Þar sem stórar göturnar eru fallegar og jafnar,
en fólkið elskar hliðargöturnar;
þar sem hirðsiðirnir eru strangir,
en akrarnir fullir af illgresi;
þar sem hlöðurnar eru tómar,
en klæðnaðurinn fallegur og glæsilegur;
Þar sem sérhver hefur beitt sverð í slíðri;
þar sem óhóf er í mat og drykk
og vörur í óhófi:
þar ríkir firring, eigi stjórn.


54.

Því sem vel er gróðursett, verður eigi rifið upp.
Því sem er haldið vel föstu, mun ekki hverfa.
Sá sem skilur í minni sínu syni og barnabörn, hættir ekki.
Sá sem mótar persónu sína, gerir líf sitt satt.
Sá sem mótar fjölskyldu sína, fyllir líf sitt.
Sá sem mótar samfélag sitt, lætur líf sitt vaxa.
Sá sem mótar land sitt, gerir líf sitt ríkulegt.
Sá sem mótar heiminn, gerir líf sitt breitt.

Því: Úrskurðaðu persónu annars eftir eiginn persónu.
Úrskurðaðu fjölskyldu annarra eftir eigin fjölskyldu.
Úrskurðaðu samfélag annarra eftir eigin samfélagi.
Úrskurðaðu land annarra eftir eigin landi.
Úrskurðaðu heim annarra eftir eigin heimi.
Hvernig veit ég hvað gerist í heiminum?
Einmitt gegnum þetta.


55.

Sá sem varðveitir fyllingu lífsins,
er eins og nýfætt barn:
Eitraðar slöngur stinga það ei.
Óargadýr ráðast ei á það.
Ránfuglar krækja ei í það.
Bein þess eru lin og sinar mjúkar,
og þó getur það gripið fast.
Það veit enn ekkert um karl og konu,
þó hreyfist blóð þess,
því það hefur fyllingu sæðisins.

Það getur æpt allan daginn,
og þó verður rödd þess ekki hás,
því það hefur fyllingu friðarins.
Að greina friðinn nefnist að vera eilífur.
Að greina eilífðina nefnist að vera skýr.
Að auka lífið nefnist hamingja.
Að þrá að beita krafti sínum nefnir maður styrk.
Séu hlutirnir orðnir sterkir, breytast þeir.
Því það er andstæður skilningur.
Og andstæður skilningur er nálægur endinum.


56.

Sá vitri talar ekki.
Sá talandi veit ekki.
Maður þarf að loka munni sínum
og loka hliðum sínum,
skera af skerpu sinni,
leysa upp firrtar hugsanir sínar,
takmarka ljós sitt,
gera sitt jarðneska saman.
Það nefnist dulinn samhygð (með skilningnum).
Sá sem hefur hana, getur maður ei haft áhrif á með kærleika
og eigi haft áhrif á með kulda.
Það er eigi hægt að hafa áhrif á hann með arði
og ei haft áhrif á hann með tjóni.
Það er ekki hægt að hafa áhrif á hann með ríkidæmi
og ekki hægt að hafa áhrif á með niðurlægingu.
Því er hann stórkostlegastur á jörðu.


57.

Til að stjóra ríki þarf stjórnlist,
til vopnasmíði þarf óvenjulega hæfni.
En til að sigra heiminn,
þarf maður að vera frjáls við að vera upptekinn.
Hvaðan veit ég, að svona gengur með heiminn?
Því fleiri hlutir sem eru til í heiminum, sem maður má ei gera,
því fátækara verður fólkið.
Því fleiri beitt tól sem fólkið hefur,
því meiri hrörnun húss og ríkis.
Því meir sem fólk iðkar list og kænsku,
því meir ber á illum fyrirboðum.
Því fleiri lög og reglugerðir,
því meir um þjófa og ræningja.

Því mælir kallaður:
Ef við gerum ekkert,
þá breytir fólk af sjálfu sér.
Ef við elskum kyrrðina,
þá verður fólk af sjálfu sér rétt.
Ef við gerum ekkert,
verður fólk af sjálfu sér ríkt.
Ef við erum laus við þrár,
þá verður fólk af sjálfu sér einfeldið.


58.

Hvers stjórn er kyrr og ekki uppáþrengjandi,
þess fólk er upprétt og heiðarlegt.
Hvers stjórn er stíf og ákveðinn,
þess fólk er lævíst og óáreiðanlegt.
Hamingjan hvílir á óhamingju;
hamingjan er það sem óhamingjan liggur fyrir.
Hver greinir, að það er það hæsta,
ef ekki er skipulagt?
Því annars breytist skipulagið í furðulegheit,
og það góða breytist í hjátrú.
Og dagarnir þar sem fólkið er blindað
vara vissulega lengi.
Svo einnig sá kallaði:
Hann er fyrirmynd án þess að skerða nokkuð,
hann er samviskusamur, án þess að særa,
hann er ekta, án uppáþrenginga,
hann er ljós, án þess að blinda.


59.

Við að stjórna fólki og þjóna himninum
er ekkert betra en takmarkanir.
Því aðeins með takmörkunum
getur maður afgreitt hlutina í tæka tíð.
Með því að afgreiða hlutina nógu snemma
safnar maður kröftum lífsins tvöfalt.
Með þessum tvöföldu kröftum lífsins
er maður hæfur til að ráða við sérhverjar aðstæður.
Sé maður hæfur til að ráða við sérhverjar aðstæður,
þekkir enginn takmarkanir okkar.
Ef enginn þekkir takmarkanir okkar,
getum við átt heiminn.
Á maður móður heimsins,
þá vinnur maður eilífan varanleika.
Þetta er skilningur djúpu rótarinnar,
fasts grundvallar,
eilífrar tilvistar
og varanlegrar skoðunar.


60.

Stóru landi þarf að stjórna,
eins og maður steikir litla fiska.
Ef maður stjórnar heiminum samkvæmt skilningnum,
þá dvelja þeir liðnu eigi sem andar.
Ekki svo að þeir liðnu séu eigi andar,
heldur að andarnir skaða ekki mennina.
Eigi aðeins skaða andarnir ekki mennina:
hinn kallaði skaðar þau ei heldur.
Ef nú báðir þessir kraftar skaða ei hvorn annan,
þá sameinast þeirra lífskraftur í áhrifum þeirra.


61.

Hagi stórt ríki sér sem neðan við strauminn,
verður það sameining heimsins.
Það er kveneiginleiki heimsins.
Hið kvenlega sigrar ávalt
með kyrrð sinni yfir því karllega.
Með kyrrð sinni heldur það sér niðri.
Ef stóra ríkið setur sig þannig undir því litla,
þá sigrar það þannig litla ríkið.
Ef litla ríkið setur sig undir það stóra,
þá er það sigrað þessvegna af því stóra.
Þannig mun það eina sigra, með því að halda sér neðar,
og hitt með því að halda sér niðri, sigrað.
Stóra ríkið vill ekkert annað
en að sameina mennina og næra.
Litla ríkið vill ekkert annað
en að taka þátt í því að þjóna mönnunum.
Svo öðlast sérhvert það sem það vill;
en það stóra verður að vera niðri.


62.

Skilningurinn er heimur allra hluta,
fjársjóður góðra mannvera,
og vörn ógóðra mannvera.
Með fallegum orðum getur maður farið til markaðarins.
Með virðulegri hegðun
getur maður gengið fram úr öðrum.
En þeir ógóðu meðal mannanna,
hví ætti að varpa þeim brott?
Því er stjórnandi settur til valda,
og furstarnir hafa sér embætti.
Þó maður hafi veldissprota úr eðalsteinum,
til að senda þá yfir í tignarlegri fjórröð,
kemur ekkert þeirri hæfni til jafns,
ef maður setur þennan skilning
krjúpandi til stjórnandans.
Hversvegna töldu þeir forna þennan skilning svo mikils virði?
Er það ekki vegna þess, að sagt er um hann:
"Sá sem biður, fær;
sá sem syndir hefur, þeim verða þær fyrirgefnar"?
Því er hann það kostuglegasta á jörðu.


63.

Sá sem iðkar að gera eigi,
sinnir því að sinna ekki,
finnur bragð á því, sem bragðlaust er:
hann sér það stóra í því smáa og margt í fáu.
Hann geldur rangindi með lífi.
Skipulegðu það erfiða þar sem það er enn auðvelt!
Gerðu það stóra þar sem það er enn lítið!
Allt þungt á jörðu hefst ætíð létt.
Allt stórt á jörðu hefst ætíð lítið.

Því: Geri sá kallaði aldrei stórt,
getur hann fullgert stórar gerðir sínar.
Sá er lofar auðveldlega,
stendur áreiðanlega sjaldan við það.
Sá er tekur mörgu létt,
hefur áreiðanlega marga erfiðleika.
Því: Hugleiði sá kallaði vandamálin,
hefur hann aldrei vandamál.


64.

Það sem er enn rólegt, er auðvelt að grípa.
Það sem kemur enn ei fram, er auðvelt að hugleiða.
Það sem er enn fíngert, er auðvelt að brjóta.
Það sem er enn lítið, er auðvelt að dreifa.
Maður verður að hafa áhrif á það, sem er ekki enn til staðar.
Maður verður að laga það sem er enn ekki firrt.
Stórt tré er myndað úr hárfínum stilkum.
Níu þrepa hár turn myndast úr moldarhrúgu.
Þúsund mílna langt ferðalag hefst fyrir framan fætur þína.
Sá sem gerir, spillir því.
Sá sem heldur, glatar því.

Einnig svo sá kallaði:
Hann gerir ekki og spillir því engu.
Hann heldur ekki föstu og glatar því engu.
Fólkið sinnir sínum málum,
og ávallt þegar það er næstum því búið,
spillir það því.
Endirinn skal jafnt skoða eins og upphafið,
þá eru aldrei spillt mál.

Einnig svo hinn kallaði:
Hann óskar óskaleysis.
Hann metur ei vörur sem erfitt er að öðlast.
Hann kennir að læra eigi.
Hann snýr sér aftur til þess, sem fjöldinn gengur framhjá.
Þannig örvar hann náttúrulegan gang hlutanna
og vogar ekki að framkvæma.


65.

Þeir sem voru til forna iðnir
í að stjórna samkvæmt skilningnum,
gerður það ei með því að upplýsa fólkið,
heldur með því að halda fólki heimsku.
Að erfitt sé að stjórna fólki,
er tilkomið vegna þess að það veit of mikið.

Því: Sá sem stjórnar ríkinu með visku,
er ræningi ríkisins.
Sá sem stjórnar ríkinu eigi með visku,
er hamingja ríkisins.
Sá sem veit hvorttveggja, hefur það sem er best.
Að þekkja ávallt það besta, er hulið líf.
Hulið líf er djúpt, víðtækt,
öðruvísi en allir hlutir;
en í lokinn veldur það stóra framganginum.


66.

Að fljót og höf eru konungar allra lækja,
er vegna þess að þau halda sér vel niðri.
Því eru þau konungar allra lækja.

Einnig svo sá kallaði:
Ef hann vill standa ofar sínu fólki,
þá staðsetur hann sig í orði undir því.
Ef hann vill vera framar sínu fólki,
þá staðsetur hann persónu sína aftar því.
Svo einnig:
Hann dvelur í hæðinni,
og fólk verður ekki fyrir álagi vegna hans.
Hann dvelur á fyrsta stað,
og fólkið slasast ekki vegna hans.
Svo einnig:
Allur heimurinn er viljugur að koma honum áfram,
og verður ei ófús.
Því hann deilir ekki,
getur enginn í heiminum deilt við hann.


67.

Allur heimurinn segir að skilningur minn sé vissulega stór,
en svo að segja ónothæfur.
Einmitt vegna þess að hann er stór,
þessvegna er hann svo að segja ónothæfur.
Ef hann væri nothæfur,
væri hann löngu orðinn lítill.
Ég hef þrjá fjársjóði,
sem ég met og varðveiti.
Einn heitir kærleikur;
annar heitir nægjusemi;
þriðji heitir: voga ei að trana sér fram fyrir heiminn.
Með kærleika er hægt að vera hugrakkur,
með nægjusemi er hægt að vera örlátur.
Vogi maður sér ei að trana sér fram fyrir heiminn,
getur maður verið aðall fullgerðra mannvera.
Ætli maður að vera hugrakkur án kærleika,
Ætli maður sér örlæti án nægjusemi,
Ætli maður að koma sér áfram án þess að standa að baki:
það er dauðinn.
Hafi maður kærleika í baráttu, þá sigrar maður.
Hafi maður hann í vörn, er maður ósigrandi.
Þeim sem himininn vill bjarga,
þann ver hann með kærleika.


68.

Sá sem er góður að stjórna,
er ekki ófriðsamur.
Sá sem er góður að berjast,
er ekki reiður.
Sá sem er góður að sigra óvinina,
berst ekki við þá.
Sá sem er góður að nota fólk,
heldur sér niðri.
Það er lífið, sem deilir ei;
það er krafturinn, að nota fólkið;
það er póllinn, sem nær til himinsins.


69.

Meðal hermanna er til orð:
Ég voga ei að haga mér sem herrann,
heldur frekar gesturinn.
Ég voga ei að sækja fram þumlung,
heldur hopa frekar skrefi aftur.
Það nefnist að ganga án fóta,
skylmast án handleggja,
kasta án þess að ráðast á,
halda, án þess að beita vopnum.

Það er ekki til meira ólán,
en að vanmeta andstæðinginn.
Ef ég vanmet andstæðinginn,
er ég í hættu á að glata fjársjóðum mínum.
Þar sem tveir stríðandi herir rekast á,
þar sigrar sá er harmar það.


70.

Það er mjög auðvelt að skilja orð mín,
mjög auðvelt að framkvæma þau.
En enginn á jörðu getur skilið þau,
framkvæmt þau.
Orðin eiga sér forföður.
Gerðirnar eiga sér herra.
Því að maður skilur þær ekki,
skilur maður mig eigi.
Einmitt það að ég er svo sjaldan skilinn,
í því fellst gildi mitt.
Því gengur sá kallaði rýrt klæddur:
en í brjósti ber hann gimstein.


71.

Að vita það að vita ekki, er það hæsta.
Að vita ei hvað það er að vita,
er þjáning.
Aðeins ef maður þjáist af því,
verður maður laus við þjáninguna.
Að sá kallaði þjáist ekki,
kemur til, að hann þjáist þeirri þjáningu;
því þjáist hann ekki.


72.

Ef fólkið óttast eigi það hræðilega,
þá kemur það mikla hræðilega.
Gerið ekki íbúð ykkar þrönga
og lífið eigi sinnulaust.
Því aðeins með því að lifa ei þröngt,
verður lífið ekki sinnulaust.

Einnig svo hinn kallaði:
Hann þekkir sjálfan sig, en vill ei virðast.
Hann elskar sjálfan sig, en leitar ei heiðursins sín vegna.
Hann fjarlægir eitt og tekur þetta.


73.

Sá sem er hugrakkur í áhættum,
glatar lífinu.
Sá sem er hugrakkur án þess að voga sér,
helst á lífi.
Af báðu hefur ein gerðin ágóða, hin skaða.
Hver veit ástæðu þess,
að himininn hatar?

Einnig svo sá kallaði:
Hann sér erfiðleikana.
Skilningur himins deilir ei
og er þó góður í að sigra.
Hann talar ekki
og finnur þó góð svör.
Hann veifar ekki,
og allt kemur þó af sjálfu sér.
Hann er afslappaður
og er þó góður í skipulagningu.
Net himinsins er mjög stórmöskvað,
en glatar þó engu.


74.

Ef fólkið óttast ekki dauðann,
hvernig á þá að hafa áhrif á það með dauðanum?
En ef ég held fólkinu
í stöðugum ótta við dauðann,
og ef einn framkvæmir undarlegt,
á ég að handsama hann og deyða?
Hver treystir sér til þess?
Það er ætíð til dauðaafl sem drepur.
Áð deyða í stað þess dauðaafls, það er,
sem í stað trésmiðs að vilja beita öxinni.
Sá er vill beita öxinni í stað trésmiðsins,
sleppur sjaldan, án þess að slasa hendi sína.


75.

Að fólk svelti,
kemur til,
vegna þess að þeir efri éta of mikið af sköttum;
því sveltur það.
Það að erfitt er að stjórna fólki,
er vegna þess að þeir efri gera of mikið;
því er erfitt að stjórna því.
Það að fólk tekur dauðanum léttilega,
kemur til,
að þeir efri leiti fyllingar lífsins of ríkulega;
því tekur það dauðanum léttilega.
Sá sem framkvæmir ekki með lífið að veði,
er betri en sá, sem lífið er of dýrmætt.


76.

Maðurinn, þegar hann kemur út í lífið,
er mjúkur og máttvana,
og þegar hann deyr,
er hann harður og sterkur.
Jurtirnar, er þær koma út í lífið,
eru mjúkar og brothættar,
og þegar þær deyja,
eru þurrar og stífar.
Því eru þeir hörðu og sterku
félagar dauðans,
mjúku og máttvana
félagar lífsins.

Þessvegna:
Séu vopnin sterk, sigra þau eigi.
Séu trén sterk, þá verða þau felld.
Það sterka og stóra er niðri.
Það mjúka og máttvana uppi.


77.

Skilningur himinsins er sem sá er spennir bogann!
Því háa þrýstir hann niður,
því djúpa hækkar hann.
Því sem hefur of mikið, rýrir hann,
því sem hefur ei nóg, bætir hann.
Skilningur himinsins er,
að rýra það sem hefur of mikið, að bæta það sem hefur of lítið.
Skilningur mannsins er eigi svo.
Hann rýrir það sem hefur ekki nóg,
og eykur það sem hefur of mikið.
Hver er fær um,
að koma til heimsins því sem hann hefur of mikið af?
Aðeins sá, sem hefur skilningin svo.

Einnig svo hinn kallaði:
Hann virkar og safnar ekki.
Sé verkið fullgert, dvelur hann ei við það.
Hann óskar eigi að sýna öðrum gildi sitt.


78.

Í öllum heiminum
er ekkert mýkra né minni máttar en vatnið.
Og þó á þann hátt, eins og það vinnur á því harða,
er ekkert jafningi þess.
Það er ekki hægt að breyta því á neinn hátt.
Að hið máttlitla sigri það sterka
og mjúka sigri það harða,
vita allir menn á jörðu,
en enginn hagar sér samkvæmt því.

Einnig svo hefur kallaður sagt:
"Sá sem tekur á sig óþrif ríkisins,
er herrann við jarðarfórnir.
Sá sem tekur á sig óhamingju ríkisins,
er konungur heimsins."
Sönn orð eru eins og ranghverfur.


79.

Sætti maður stóra illsku,
og illska eimir eftir,
hvernig væri það gott?
Því heldur sá kallaði sig að skyldum sínum
og krefst einskis af öðrum.

Þessvegna: Sá sem hefur líf,
heldur sig við skyldur sínar,
sá sem ekkert líf hefur,
heldur sig við sinn rétt.


80.

Land getur verið lítið og fáir íbúar.
Tæki sem fjölfalda afl mannanna,
beiti maður eigi.
Maður lætur fólkið taka dauðann alvarlega
og ferðast eigi í fjarska.
Þó skip og vagnar séu til staðar,
sé enginn sem noti þau.
Þó brynjur og vopn séu til staðar,
sé enginn sem beiti þeim.
Maður láti fólkið hnýta aftur bönd
og nota það í stað skriftar.
Gera mat sinn sætan og falleg klæði sín,
friðsamlega íbúðina og gleðilega siði.
Nágrannalönd séu í sjónmáli,
svo að maður heyri köll hana og hunda gagnkvæmt:

og þó á fólkið að deyja í hárri elli,
án þess að ferðast fram og aftur.


81.

Sönn orð eru ekki falleg,
falleg orð eru ekki sönn.
Iðjusemi sannfærir ekki,
sannfæring er ekki iðjusöm.
Sá vitri er ekki lærður,
sá lærði er ekki vitur.
Sá kallaði safnar engum eignum.
Því meir sem hann gerir fyrir aðra,
því meir á hann.
Því meir sem hann gefur öðrum,
því meir hefur hann.
Skilningur himinsins er að örva, án tjóns.
Skilningur hins kallaða er að virka, án deilna.


Athugasemdir og umsagnir eru vel þegnar og má senda þær á agnarius@isholf.is. Orðskýringar Richards Wilhelm eru í þýðingarvinnslu og koma væntanlega síðar. Höfundarréttur er á þýðingu, þér er heimilt að prenta út og gefa en ber að láta þetta vera með.



Netutgáfan - ágúst 1999