Á bæ einum bjuggu einu sinni hjón; er ekki að sinni getið um hvað bóndinn hét, en konan nefndist Vala. Hún var fögur ásýndum, en ekkert góðkvendi. Hjón þessi eignuðust eina dóttur er kölluð var Vilfríður og vegna þess hún þótti fríðari en móðir hennar var hún auknefnd Völufegri. Þetta sveið móðurinni sárlega og lagði því hatur á dóttur sína.Fór hún nú að hugsa upp ráð hvernig hún fengi henni í hel komið. Í því skyni leggur hún með hana út á skóg; var hún þá hér um bil fjórtán vetra gömul, og ætlast hún til að villudýr skuli rífa hana í sundur.
Aumingja stúlkan ráfar nú ráðalaus um skóginn allan daginn. En þegar kvöld var komið sest hún þreytt og mædd undir stein nokkurn. Þegar hún hafði verið þar litla stund koma þangað dvergar tveir og spyrja hvers vegna hún sé þangað komin. Hún segir allt hið sanna og þeir segjast þá líka vita það. Síðan segja þeir henni að steinninn sé híbýli sitt og bjóða henni inn með sér. Verður hún sárfegin og þiggur boð þeirra. Þeir gera henni það gott er þeir geta.
Þegar þeir ætla að taka á sig náðir gera þeir ráð fyrir því að þá kunni ekki að dreyma vel svo þeir kunni að láta illa í svefni. Biðja þeir hana þess þá lengstra orða að vekja sig ekki hvað sem á gangi, og heitir hún því. Þeir láta nú illa í svefninum um nóttina og hún gætir þess að vekja þá ekki. Að morgni þegar þeir vöknuðu þakka þeir henni fyrir það að hún hefði ekki vakið þá og þeir hefðu því fengið að njóta draums síns.
Segja þeir henni að hún megi búast við því að einhver muni koma að steininum um daginn og biðja hana að ljúka upp, en hver sem það svo verði og hvað fagurlega sem hann tali þá skuli hún ekki upp ljúka; því það geti orðið ef til vill bani þeirra allra. Hún lofar þessu og síðan leggja dvergar af stað á dýraveiðar.
Nú víkur sögunni aftur til Völu. Hún átti gler sem fræddi hana um það er hún spurði. Þenna morgun finnur hún glerið sitt og segir:
- "Segðu mér nú glerið mitt gullinu búna:
- hvernig líður Vilfríði Völufegri núna?"
Glerið svarar:
- "Ekki er henni margt að meini,
- ala hana dvergar tveir í steini."
Þá varð kvendið öldungis frá sér numið af heift og bræði því hún vildi fyrir hvern mun dóttur sína dauða. Býr hún sig nú út og leggur af stað til steinsins þar sem dvergarnir áttu heima.
Þegar hún kemur er steinninn lokaður. En af því hún vissi af Vilfríði inni og af því hún aðeins gat litið hana gegnum ofurlitla smugu þá heilsar hún blíðlega dóttur sinni og biður hana með mörgum fögrum orðum að ljúka upp, segist vera með hring sem amma hennar hafi átt og vilji hún fyrir hvern mun að hún fái hann. Vilfríður kom auga á hringinn gegnum smuguna, þykir hann fagur og réttir út einn fingur sinn.
Vala lætur þegar hringinn upp á fingurinn og segir svo: "Mæli ég um og legg ég á að hringurinn kreppi að þér fastar og fastar svo hann verði þér að bana, nema samkynja gull finnist sem seint mun verða."
Undireins og hringurinn var kominn á höndina tók hún að blása upp og Vilfríður fékk óþolandi kvöl í líkama sinn. Þegar undir kvöld var komið komu dvergarnir heim og segja hún hafi illa gert að víkja af boðum sínum. Fara þeir fljótt að leita í gulli sínu og finna loksins gull samkynja því sem var í hringnum, og þegar það var lagt við sprakk hann í sundur og Vilfríði fór að batna.
Næstu nótt dreymir dvergana illa, en hún gætir þess að vekja þá ekki og þykir þeim vænt um það. En að morgni biðja þeir hana að muna sig um það að ljúka ekki upp þó móðir hennar komi og hvað sem hún hafi meðferðis að bjóða henni. Síðan leggja þeir af stað eins og áður.
Ennþá kemur Vala til glers síns og segir:
- "Segðu mér glerið mitt gullinu búna:
- hvernig líður Vilfríði Völufegri núna?"
En hún fær aftur það svar:
- "Ekki er henni margt að meini,
- ala hana dvergar tveir í steini."
Nú verður Vala öldungis æf í skapi, hugsar sér ráð og leggur af stað að nýju. Þegar hún kemur til steinsins finnur hún hann lokaðan, en kallar samt með miklum blíðlátum til dóttur sinnar og biður hana að ljúka upp; kveðst hún vera með hina mestu gersemi sem hún ætli að færa henni, það sé gullskór sem langamma hennar hafi átt. Vilfríður er næsta treg og viljalítil. En þegar komið er fram yfir miðjan dag gerir hún það fyrir orð móður sinnar að hún lætur fótinn út um smugu. Vala setur þá skóinn upp á fótinn, mælir síðan um og leggur á að hann verði henni að bana nema samkynja gull verði við lagt sem ekki muni auðfundið.
Eftir þetta leggur hún af stað, en skórinn tekur að kreppa að Vilfríði; blæs upp allur fótur hennar svo hún hefur engan frið. Þegar dvergarnir koma nú heim verða þeir mjög armæddir út af gáleysi Vilfríðar, fara að leita að gullinu í rusli sínu og finna það eftir langa mæðu, og þegar það er lagt við springur skórinn. Nú var Vilfríður mjög eftir sig, en batnar þó vegna þeirrar góðu hjálpar og hjúkrunar sem dvergarnir veittu henni.
Þegar allt var komið í lag fóru dvergarnir að hvíla sig; sofna þeir skjótt og láta nú ógurlega í svefni svo aldrei höfðu þeir látið eins illa. Þeir brjótast um á hæl og hnakka, en Vilfríður gætir þess að vekja þá ekki. Þegar þeir vöknuðu að morgni segja þeir Vilfríði að koma muni móðir hennar ennþá, en þess biðja þeir hana lengstra orða hvernig sem Vala láti þá ljúki hún ekki upp, því að öllum líkindum verði það bani þeirra allra. Eftir þetta fara þeir af stað til veiða sinna.
Þenna morgun kemur Vala eins og fyrr að máli við glerið sitt og segir eins og áður:
- "Segðu mér glerið mitt gullinu búna:
- hvernig líður Vilfríði Völufegri núna?"
Glerið svarar:
- "Ekki er henni margt að meini,
- ala hana dvergar tveir í steini."
Nú þykist hún illa brögðum beitt, verður öldungis hamslaus og býr sig til ferðar. Segir ekki af ferðum hennar fyrr en hún kemur að steininum; er hún þá grátandi, kveðst mjög iðrast eftir það sem hún sé nú búin að gera dóttur sinni á móti, biður fyrirgefningar á því og segist fegin vilja bæta úr því öllu. Hún segist nú koma með þá dýrmætustu gjöf til að færa henni, það sé belti, sannur kjörgripur ættarinnar, og hafi fylgt henni mann af manni; biður hún nú elsku dóttur sína að ljúka upp svo hún geti séð hvað vel það fari henni og Vilfríður einnig komist að raun um að hún eigi góða móður.
Þegar undir kvöld var komið lætur Vilfríður til leiðast fyrir bænastað móður sinnar að hún lýkur upp, og spennir Vala þegar beltinu um mitti Vilfríðar.
Undireins og það er búið segir hún: "Mæli ég um og legg ég á að belti þetta herði svo að lífi þínu að það verði þinn bani og það losni aldrei nema kóngurinn af Saxlandi leitist við að losa það."
Þykist Vala nú hafa gert góða ferð og heldur heimleiðis. En Vilfríði bregður svo við að hún ætlar ekkert viðþol að hafa, herðir einlægt að henni meir og meir, og þegar dvergarnir komu heim sýndist hún vera nær dauða en lífi. Hún gat einungis sagt frá því sem móðir hennar hafði á hana lagt.
Dvergarnir urðu nú hryggir af öllu þessu; taka þeir í skyndi það ráð að þeir fara með Vilfríði ofan að sjó og leggja hana á fagran blett við sjávarströndina og er hún þá orðin svo af sér komin að hún má ekki mæla. Síðan taka þeir pípur og fara að blása í þær. Herða þeir svo blásturinn að mikið veður gerði og sjórinn gerðist næsta ókyrr.
Þetta tóku dvergarnir til bragðs vegna þess þeir vissu að kóngurinn í Saxlandi var á siglingu eigi alllangt frá landi og þegar veðrið skall á tók hann það ráð að halda þar að landi sem Vilfríður var fyrir. Þegar hann var kominn inn í höfnina gengur hann í blíðviðri á land upp og lítið eitt meðfram sjónum. Sér hann þá þessa fögru stúlku liggja þar afmyndaða og mállausa. Honum kemur til hugar að þörf muni vera á því að losa eitthvað um hana. Reynir hann til að losa beltið og tekst það fljótlega. Og þegar hann var nokkra stund búinn að stumra yfir henni þá tekur hún að lifna við og hressast.
Undireins og hún gat talað spyr hún hvar dvergarnir muni vera, en kóngur veit ekkert um þá. Nú gengur hann eftir beiðni Vilfríðar dálítið eftir ströndinni; finnur hann þá báða dvergana dauða með pípur uppi í sér og var þá augljóst að þeir höfðu ekki þolað blásturinn eða reynt of mikið á sig við þann starfa.
Vilfríði sárnaði mjög að þeir skyldu vera dauðir, en þegar kóngur bauð henni að fara heim með sér tók hún því mjög þakklátlega, gerði ráðstöfun fyrir því að gull og dýrgripir dverganna væru sóttir í steininn og fór með þetta út á skip kóngs. Og svo hélt hann leiðar sinnar með hana heim í ríki sitt.
Það leið ekki á löngu þangað til kóngi tók að lítast svo vel á Vilfríði að hann hóf bónorð sitt til hennar. Vilfríði sýndist sem hún neitaði gæfu sinni ef hún hafnaði þessum ráðahag, en þó kvaðst hún verða að setja einn skilmála og hann væri sá að hann tæki aldrei nokkurn mann til veturvistar nema með ráði sínu og vilja. Kóngur segir að þetta sé ekki nema bón og lofar því fúslega. Síðan eru þau saman vígð.
Nú víkur sögunni ennþá til Völu. Hún er ekki enn búin að gleyma dóttur sinni, fer því til glersins og segir:
- "Segðu mér nú glerið mitt gullinu búna:
- hvernig líður Vilfríði Völufegri núna?"
Glerið svarar:
- "Engum framar er hún stödd í vanda,
- kallast drottning konungs Saxalanda."
Af þessu verður Vala öldungis frá sér numin og veit ekki hvað til bragðs skal taka. Verður það þó helst að ráði að hún fer til bónda síns og biður hann að fara til Saxlands, gerast vetursetumaður hjá kóngi og hætta ekki fyrr en hann nái lífi dóttur sinnar. Og til sannindamerkis verði hann að koma með eða senda sér hárlokk úr hári hennar, tunguna og nokkuð af blóðinu.
Karl tekst þessa ferð á hendur og segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kemur að höll kóngs og hittir kóng úti. Beiðist hann þegar veturvistar. En kóngur segist ekki vilja taka við honum eða leyfa honum veturvist fyrr en hann hafi talað við drottningu. Maður þessi er Rauður nefndist tekur nú að hlæja dátt og kveðst ekki vilja þiggja vetursetu hjá honum ef hann sé ekki einráður um svo lítið, heldur skuli hann fara til annara kónga og ófrægja hann um öll lönd ef hann áræði ekki að taka sig án þess að fást um það við fleiri. Fyrir þessar áskoranir lætur kóngur til leiðast.
Áður langt um leið kemur kóngur að máli við drottningu og segir henni frá að nú sé hann búinn að brjóta á móti skilmála hennar og vilja því nú sé hann búinn að taka vetursetumann. Henni líkar þetta illa, en segir að ekki tjái að tala um það fyrst það sé búið og hljóti það svo búið að standa, en svo segi sér hugur um að hann muni einhvern tíma iðrast þessa.
Þegar fram liðu stundir varð það augljóst að drottning er ekki kona einsömul, og þegar að því kom að hún skyldi fæða er ekki látinn vera skortur á yfirsetukonum, en fæðingin gengur þó ógreiðlega og það svo að yfirsetukonurnar gefast upp og segjast ekki geta bjargað.
Kóngur verður nú mjög hryggur og ásamt öðrum verður Rauður þessa var; býðst hann þá til að leitast við að hjálpa drottningu og þiggur kóngur það. Undireins og Rauður er kominn inn til drottningar lætur hann yfirsetukonurnar fara í burt og alla þá sem nálægir voru. Síðan stingur hann henni svefnþorn, nær barninu og var það piltur.
Rauður hefur nú enga snúninga á því að hann sker eyrað af sveininum, stingur því í munn móðurinnar sofandi, lýkur upp glugga og fleygir barninu út um hann; hleypur hann síðan til kóngs og biður hann koma. Þegar þeir koma læst Rauður verða öldungis hissa að barnið skuli ekki sjást, bendir kóngi á eyrað í munni móðurinnar sem nú var við það að vakna og vissi ekki neitt af neinu.
Kóngi verður eins og nærri má geta bilt við, en þegar Rauður lætur það í ljósi að hún muni hafa etið barnið og ætti því að líflátast, þá kveðst kóngur ekki eiga nokkurn kost á því sakir elsku sinnar til hennar. Rauði sýnist best að fara ekki lengra fram á það og er nú í hávegum hjá kóngi fyrir það að hann bjargaði drottningu.
Í annað sinn verður drottning þunguð og fer allt á sömu leið og áður. Hún getur ekki fætt, Rauður er kallaður til hjálpar, hann svæfir drottningu, nær barninu sem var stúlkubarn, tekur af því litlu tána, varpar út barninu, lætur tána í munn drottningar, kallar á kóng, ákærir hana harðlega og segir dauðaseka. En við það er ekki komandi við kóng að hann dæmi hana til dauða og kveðst hann ekki mega af henni sjá; því hann geti ekki annað en elskað hana.
Í þriðja sinn verður drottning með barni og þegar að því kemur að hún skal fæða fer allt eins og fyrr. Barnið er sveinbarn og Rauður tekur nú fingur af því og lætur í munn drottningar.
Nú segir Rauður að það sé augljóst að hún sé mannæta, konungur hafi mestu smán af henni og hún megi ekki lifa. Kóngur segist ekki eiga nokkurn kost á því að dæma hana svo Rauður sem var orðinn æðsti ráðgjafi hlýtur að verða til þess.
Verður það dómur hans að tveir þrælar skuli fara með hana út á skóg og myrða hana þar og á þetta leggur kóngur samþykki sitt. Rauður áskilur það við þrælana að þeir komi með lokk úr hári drottningar, tunguna úr henni og blóð í horni til jarteikna.
Þótt þrælarnir skoruðust ekki undan þessum starfa þá fóru þeir nú nauðugir því Vilfríður hafði áunnið sér ást allra. Þegar þeir voru komnir nokkuð út í skóginn fara þeir að ráðgast um hvernig þeir geti komist hjá því að deyða drottningu.
Drottning gefur þau ráð að þeir skuli taka hárlokk úr hári sínu, drepa tík sem fylgdi þeim, taka tunguna úr henni og láta nokkuð af blóði hennar í hornið svo Rauður fengi að sjá allt það sem hann hefði til tekið.
Að því búnu sleppa þeir henni í skóginn, en fara sjálfir heim til hallar kóngs og er ekki annars getið en þeir hafi fengið góðar viðtökur. Þegar drottning hafði skilið við þrælana gengur hún allan daginn um skóginn og getur hvergi fundið hæli svo hún fer að óttast fyrir að hún muni láta lífið með harmkvælum.
Þegar mikið var tekið að rökkva hittir hún kofa einn, ekki alllítinn og heldur þokkalegan. Hún ber að dyrum og kemur út karl heldur stórkostlegur; segir hann það sé ekki venjulegt að slíkir gestir heimsæki sig og býður drottningu velkomna, sem lýsti því að hann vissi hver á ferðinni var. Vilfríður drottning gengur nú inn með karli; sér hún að allt er mjög þokkalegt og þrifalegt, fær nægar og góðar vistir til að slökkva með hungur sitt og hvílist um nóttina í hægu og hlýju hvílurúmi.
Að morgni þegar hún er komin á fætur fær karl henni ýmislegt er heyrði til fata á börn og biður hana sér til afþreyingar að sníða og sauma föt handa börnum, en sjálfur fer hann heiman að og fer að afla þess er þau þurftu á að halda. Þannig er drottning langa stund hjá karli og unir hag sínum eftir því sem orðið gat.
Nokkru eftir burtför drottningar er farið að kvarta yfir því að einlægt sé að týnast og hverfa af hjörð kóngs. En þar eð kóngi leiddist lífið eftir burtför og ímyndaðan dauða drottningar svo hann skemmti sér tíðum með dýraveiðum, þá vekur hann máls á því við Rauð að þeir skuli nú fara og vita hvort þeir hitti ekki eitthvert óargadýrið er grandi hjörðinni.
Þeir fara síðan tveir einir út á skóg og komast langt inn í hann svo þeir villast og vita ekkert hvert þeir eiga að fara til þess að komast úr honum. Þeir ganga og þeir hlaupa og komast samt ekki út úr skógnum. Þegar á daginn tekur að líða verða þeir bæði þreyttir og mæddir, nóttin fer í hönd og hungrið er farið að kreppa að og þeir vita nú ekkert hvað til bragðs skal taka, en í þessum svifunum grilla þeir í eitthvert hús ekki alllangt frá og halda þeir þangað. Þeir þykjast vissir um að þar muni menn búa og verða alls hugar fegnir.
Þegar þeir koma að húsinu berja þeir að dyrum. Áður en langt um líður kemur út karl heldur stórkostlegur. Þeir kasta á hann kveðju og tekur hann því. Því næst biðja þeir hann að lofa sér að vera um nóttina því þeir séu yfirkomnir af þreytu. Hann segir að konungi séu velkomin hús hjá sér og beini sá er hann fái í té látið, en Rauður fái ekki inngöngu með öðrum skilmála en þeim að hann segi ævisögu sína og því lofar hann.
Karl lætur þá síðan fara inn með sér; er það allþokkalegt hús er þeir koma inn í, en þó er þar stór pottur fullur af vatni yfir eldsglæðum. Karlinn biður konung að taka sér sæti þar sem honum þóknist, en kemur með stól handa Rauð og lætur hann setjast.
Því næst lætur hann stóran hring á hönd Rauði og segir honum nú þegar að byrja ævisöguna. Rauður byrjar hana og heldur vel áfram, en þegar fór að líða á hana og hann ætlar að fara að segja frá breytni sinni við drottningu þá vill hann halla til sögunni, segja frá sumu öðruvísi en var og sleppa sumu. En þá segir karlinn:
- "Hertu nú á,
- hringurinn rauði,
- og stingi þig broddar
- svo satt þú segir."
Við þessi orð herti hringurinn að hendinni og broddar upp úr stólnum stungu hann svo fast að honum sýndist ekki annað henta en segja það sem satt var því þá slakaði hringurinn á og broddarnir hættu að stinga. Þó að Rauður ætlaði aftur og aftur að skrökva þá gat hann það ekki því karlinn píndi hann með áðursögðum hætti þangað til Rauður sagði það sem satt var.
Meðan á sögunni stóð fór kóngur að verða heldur órólegur. En þegar ævisagan var á enda þá spyr karl hvaða dóm kóngur leggi á Rauð því nú sé það orðið augljóst hvílíkan mann hann hafi að geyma og hvað hann hafi aðhafst. Kóngur var fyrir löngu orðinn frá sér numinn af hryggð og reiði og segist ekki geta dæmt Rauð eins og hann eigi skilið því sín lög geri ekki ráð fyrir þvílíkum glæpamanni.
Karl spyr hvort hann eigi að segja sitt álit. Kóngur kveðst feginn vilja heyra álit hans. Karl segir sér sýnist það best eiga við að honum verði samstundis steypt á höfuðið ofan í pottinn sem sé á hlóðunum og því er kóngur samþykkur. Það verða þá ekki miklir snúningar á því að karlinn keyrir Rauð í pottinn svo hann lætur þar líf sitt.
Eftir þetta biður karlinn kóng að koma inn í annað herbergi og sér kóngur þar mjög fríða mey. Segir karl að þar sjái hann drottningu sína þó hann hafi ekki vænt þess að sjá hana og því ekki þekkt hana. Verða þar miklir fagnaðarfundir.
Síðan víkur karl sér afsíðis, fer í eitt afhús og leiðir þaðan fram þrjú börn, tvo pilta og eina stúlku. Kemur það þá í ljós að það eru börn kóngsins; vantar annað eyrað á annan drenginn, en fingur á hinn og stúlkuna vantar litlu tána. Foreldrarnir verða öldungis frá sér numin og skilja ekki hvernig á þessu getur staðið. En karl segist hafa verið nálægur þegar Rauður hafi fleygt þeim út um gluggann og séð um að þau sakaði ekki.
Kóngur spyr karl hvað hann vilji hafa að launum fyrir allt þetta. En hann kveðst ekkert vilja nema dóttur þeirra. Þótt ekki væri árennilegt fyrir unga stúlku að eiga að lifa með honum og kóngur og drottning hefðu kosið mörg önnur laun fremur þá segja þau að þetta sé sjálfsagt fyrst það sé vilji hans.
Þegar þau höfðu verið í kofa karls svo lengi að kóngur var orðinn afþreyttur og hafði endurnært krafta sína þá fer hann með drottningu og syni sína báða heim til hallar, en dóttir þeirra varð eftir hjá fóstra sínum.
Nú liðu nokkur ár þangað til kóngsdóttir var orðin gjafvaxta, þá kemur karl einu sinni að máli við hana og biður hana að sofa hjá sér í rekkju sinni. Hún gerir það fúslega því hún unni honum mjög. En að morgni þegar hún vaknar sér hún að fríður kóngssonur er hjá henni. Segir hann þá að hún skuli ekki bregðast ókunnuglega við, hann hafi verið í álögum.
Eftir þetta taka þau sig upp úr kofanum og halda til hallar. Þarf ekki að spyrja um hvort þeim hafi verið fagnað eða efast um það að kóngur og drottning hafi þóst gæfusöm þegar þau vissu hvernig á öllu stóð, og eins og allir geta skilið var slegið upp dýrlegri veislu.
Kóngur og Vilfríður lifðu vel og lengi í alls konar gæfu og kóngssonur fór með konu sína heim til átthaga sinna. Þau eignuðust börn og allra handa gæði og þá er sagan búin.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - nóvember 1998