VAKANDI  MANNS  DRAUMUR



Muni var eitt sinn á ferð og kom síð dags að bæ þeim sem heitir á Þankavöllum; beiddist hann þar gistingar og fékk þegar. Sofía hét kona sú er þar átti híbýlum að ráða; var hún ekkja því maður hennar Friðrekur var fyri nokkru andaður. Börn átti hún eftir hann.

Um kvöldið tók gesturinn eftir því að þau voru að biðja móður sína innilega um eitthvað, þó með mestu stillingu og í hljóði. Heyrir hann þá móðirina segja: "Söguna skulu þið fá ef þið hlýðið henni og takið svo vel eftir að þið getið sagt hana aftur vinnuhjúum mínum annað kvöld og heyri ég sjálf til og sé meiningin samt óafbökuð." Með gleði lofuðu börnin eftir mætti að uppfylla þessa kröfu hennar. Byrjaði hún þá söguna á þennan hátt er mætti heita:


Vakandi manns draumur

Steinn er maður nefndur og var Brandsson. Hann bjó á bæ þeim er á Þrúðvangi heitir á austanverðu Íslandi. Er það gömul landnámsjörð sem nú af eldgangi er eyðilögð. Guðbjörg hét kona hans; áttu þau einn son og eina dóttur. Hét sonurinn Teitur, en mærin Kristín; var hann sjö en hún fimmtán vetra. Móðir húsfreyju var þar sem Helga hét og var hnigin á efra aldur og fóstursonur hjónanna; hét sá Illugi og hafði einn vetur ens þriðja tugar. Ein vinnukona var þar líka; hét sú Una og var hálfþrítug að aldri; fleira var þar ei manna.

Bóndinn var búhöldur góður og átti auð fjár, slyngur við kaupskap og gat jafnan fengið tvo peninga fyrir einn. Um guð eða hans orð hugsaði hann aldrei nema þegar hann spottaðist að öllu því sem heilagt var. Illugi fylgdi trúlega sporum fóstra síns og var honum næsta eftirlátur og jafnvel Teitur hinn ungi tók strax að læra nokkrar spottglósur og blótsyrði.

Þessar framferðir voru húsfreyju sannarlega hið mesta hugarangur því hún var vel siðuð, sæmilega vel upplýst í guðsorði og sérdeilis vel þenkjandi, þar að auk sérlega geðlipur. Hafði hún vanist þannig hjá móður sinni sem var alvörugefin upplýst guðhrædd kona, en nokkuð geðríkari. Að dæmum þeirra hafði Una lagað sig og eins mærin Kristín, hjá hverri mæðgurnar höfðu alla stund á lagt að innræta sanna virðingu og elsku til guðs og hans orða.

Þannig voru í þessu litla húsfélagi tvennir flokkar: Steinn bóndi og Illugi höfðu mestu andstyggð á þessum guðræknis- og siðsemdar-æfingum og þeir gjörðu líka allt hvað í þeirra valdi stóð til að niðurkefja hjá þeim slíka þanka og gátu líka nokkuð áunnið hjá hinum yngri. Orsökin var sú að húsfreyja elskaði innilega bónda sinn, jafnvel þó hún ekki samsinnti framferðum hans og þankafari, og vildi því ógjarnan gjöra honum til styggðar.

Kom því svo um síðir að hún tók að forðast mann sinn að því, nær hún talaði um guðs dásemdir eða söng sálma því húslestur leið hann aldrei, og bækur þær sem mæðgur höfðu átt seldi hann allar. Samt voru þær ennþá kristnar í hjartanu, en mágkonu sína fékk hann aldrei siðað; hún lagði allt að jöfnu, heitingar og spottyrði, og hélt sínum gamla vana.

Ennfremur má þess geta að þar í túninu skammt frá bænum var ferkantaður stór steinn; var það gömul sögn og trú manna að hann hefði í forneskju blótaður verið og lengi hafði loðað við trú á honum. Steini bónda þótti líka vænt um nafna sinn og meinti sér mundu ei heillir hverfa meðan hann væri hafður þar í áliti.

Gekk hann kringum hann hverja nýársnótt og byggði heima að fornum sið, talandi þessum orðum: "Fari þeir sem fara vilja, en veri þeir sem vera vilja" o. s. frv.

Við stein þennan lætur nú bóndi eitt sumar byggja sér útibúr eða skemmu og var steinninn látinn gjöra gaflvegginn. Lét hann mjög vanda það hús að allri smíð og svaf þar jafnan á sumrum. Stóð þar sængin vetur og sumar; kom bóndi oft í skemmuna og lagði sig út af.

Helgi er prestur nefndur í Kirkjubæ, gamall og guðrækinn, einnig vel lærður. Átti Þrúðvangsfólk þangað kirkjusókn.

Bóndi fór að sönnu til kirkju, en einungis fyrir siðasakir og til að gjöra gys að presti. Sama gjörði fóstursonurinn Illugi og kölluðu þeir prest Hvítkoll inn heilaga, gjörðu gys og háð að orðum hans og rangfærðu allt hvað þeir gátu.

Svo bar við eitt haust að prestur léði þangað eitt nýjatestament og bauð að í því skyldi lesinn vera húslesturinn. Guðbjörg húsfreyja og móðir hennar tóku fegins hendi á móti því og byrjuðu nú lesturinn öllum stundum sem þær gátu. Bóndi varð fár við; hélt hann að fleira mundi þurfa að annast í vetur en að lesa, hvar við hann og fóstursonurinn bættu mörgum háðyrðum.

Leið svo veturinn til jóla. Fyrsta jóladag fóru bóndi, húsfreyja, hjúin og dóttirin til kirkju, en Helga var heima með nýjatestamentið og Teitur hinn ungi. Þegar heim var komið um kvöldið fór bóndi að hirða pening sinn að vanda og sem því starfi var lokið gekk hann í skemmu sína einsamall, var þá nótt, og lagði sig upp í sængina og er að hugsa um hvað fram hafi farið um daginn, en þó með eins konar forakti.

Leggur hann nú niður með sjálfum sér hvernig hann skuli eyða andaktartímum konu sinnar og annara í húsinu nú í kveld. Ætlaði hann í fyrstunni að sækja spil í skemmuna sem þar voru geymd og með því móti gjöra glaðvært kveldið.

Þegar hann nú í þessum þönkum liggur afturábak í sænginni heyrist honum hark nokkuð til steinsins líkast því sem gengið væri hægt af einum og setst niður; hætti svo þetta aftur. Undireins var hugur hans floginn inn í fyrri tímana þegar átrúnaður var sem mestur á þessum steini; "þá var hér" hugsaði hann með sér, "offrað bæði mönnum og dýrum og hann roðinn blóði þeirra. Hér rétt á þeim stað hvar ég ligg núna voru blótveislur haldnar eða miðsvetrarblót og það voru jól forfeðra vorra."

Fyrst í stað varð honum nokkuð svo sem kynlegt við, en strax hugsaði hann með sjálfum sér: "Þessir siðir voru þó í raun og veru langtum stórmannlegri og hátíðlegri fyrir skilningarvitin en hégómi sá er ég heyrði farið var með í dag. Ávextirnir hafa líka sýnt sig um margar aldir að átrúnaður þessi hefir ekki verið ónýtur.

Í heiðni hafa þeir allir verið auðs og maktar menn sem bjuggu hér á Þrúðvangi, og síðan hin svokallaða kristni var hér á landi viðtekin hafa menn sem hér hafa búið þó jafnan meðfram haft sama traust, og þessum hefir líka vel að farið. Þeir hafa og flestir, ef ei allir, verið vel aktaðir menn, að minnsta kosti svo margir sem ég til þekki, framar öðrum í þessari sveit."

Af þessum yfirvegunum varð hann nokkuð svo sem frá sér numinn og í sama bili heyrist honum eins og hið fyrra sinn. Kemur þá að honum ótti og vill rísa á fætur og ganga til bæjar, en fær ei upp staðið. Þykir honum nú sem harkið vaxi enn meira, líkast því sem margt fólk þyrpist saman á einn stað. Þykir honum sem margir heilsa þar einum herra sem fyrir er. Því næst heyrir hann glaum og hávaða mikinn til steinsins; fer hann þá að hlusta eftir hvort hann fái ekki numið orðaskil.

Heyrir hann þá að einn segir: "Verið velkomnir hingað kæru vinir, þér útvöldu þjónar Lúcífers, og takið yður sæti hér hjá mér meðan ég held við yður upp á landsvenju reikningsskapinn af ráðsmennsku yðvarri síðan í haust samkvæmt skyldu embættis míns."

Allt í einu þykir honum sem steinninn opnist og sér hann inn á langeld mikinn á miðju gólfi; situr þar einn í hásæti og hinir svo út í frá honum til beggja hliða og fram í gegn báðumegin. Sér hann að þeir sem næstir sitja hásætinu eru næsta gildir, sællegir og þykkleitir í andliti, en hinir fremstu magrir og vesallegir.

Tók nú forsetinn þannig til máls: "Sjáið nú kæru vinir, þennan eld hefi ég mér til ánægju tendrað af mínum eigin efnum sem Steinn bóndi hér og aldavinur minn hefir mér í hendur fengið og ég efast ekki um að reykurinn af honum sé uppstiginn fyrir hásæti Réttvísinnar. Ég hefi að vísu nægileg föng á að viðhalda honum, en samt skulu þér nú skjóta bröndum í glóðina svo loginn viðhaldist á meðan við dveljumst hér og ég sýð farbyrðir yðar."

Þeir sem innar sátu gjörðu hér að góðan róm. Byrjuðu þeir nú að segja frá hvernig þeir hefðu alist um veturinn. Sá sem næstur honum sat kvaðst hafa fyrirhitt góðan bæ, þar væru hjóna samfarar í stirðara lagi; kvaðst hann dyggilega hafa blásið að þeim kolum og verið þar trúr hjónadjöfull og ei hafi loksins annað hamlað þeim frá að drepa hvort annað en ótti fyrir lagahegningu.

"Líka hefi ég," sagði hann, "góða von um að börn þeirra venjist á sama svo þau með tímanum breyti við ektamaka sína á líkan hátt og þau sjá nú fyri sér í ungdæminu. Enginn stóð þar í vegi fyri mínum fyritækjum nema afi barnanna; hann var sífellt að prédika börnunum guðsótta og að þau skyldu láta sér víti foreldra sinna að varnaði verða, en ég vona að ég fái svo nært ungdómsgjálífi þeirra að þau slái fljótt í vind áminningum hans og gjörist með tímanum góðir borgarar í Lúcífers ríki."

"Vel segist þér," sagði forseti, "haldið nú áfram, kæru vinir, því vér höfum stuttan tíma."

Nú byrjar sá sem næstur þessum sat fyrir framan og segir: "Á mínum bæ er húsbóndinn næsta illyrðasamur og reiðigjarn. Hann deilir á allt fólkið og gengur á því með höggum og blótsyrðum; hjá sumum fær hann aftur fullan mælir; allir vinna honum með hangandi hendi og svíkja hann líka hvenær sem þeir geta svo ætíð hefir hann nóg reiðiefni. Hef ég heldur ekki forsómað að láta slíkt ei bresta. Aldrei lætur hann samt hjá líða að lesa eða láta lesa í húsinu. Hann kemst líka við á stundum þegar hann heyrir syndnm og löstum refsað og það svo mjög að hann grætur fögrum tárum, en strax sem lesturinn er úti, þegar hann heyrir eða sér eitthvað mótstæðilegt, hamast hann og bölvar öllu og iðranin varir ei lengur."

"Já, vel er það," mælti forseti, "en þú mátt gjalda varhuga við að hinar góðu hræringar, jafnvel þó þær séu byggðar á ótta, en engum sönnum grundvelli, fái ekki yfirhönd þegar evangelíum Krists óvinar okkar verður lesið."

Nú tók hinn þriðji til orða og mælti: "Á bæ þeim sem ég hef dvalið þennan vetur er húsbóndinn sjálfur og allt heimilisfólkið mikið siðsamt og guðrækið að útvortis áliti; það er líka af öllum haldið sanndyggðugt og sannkristið. Húsbóndinn er efnamaður; hann er líka góðgjörðasamur, ekki einungis við gesti og meiri menn, heldur og líka sérlega gjafmildur við marga nauðlíðandi. Hann geldur öllum stéttum skilvíslega, já, hann er talinn bjargvættur og sómi sveitarinnar. Hann rækir kirkjuna og sakramentin; hann lætur aldrei húslestur undan falla; hann les líka oftlega þar fyrir utan í ritningunni."

"Og," sagði forseti, "þú lætur þetta allt saman viðgangast?"

"Hafið enn nú, herra, litla þolinmæði til að heyra mig," ansaði hinn. "Þessum manni er þannig varið að hann er spaklyndur að náttúru, hefir heldur engar sérlega vondar tilhneigingar við að stríða. Öll sín góðverk gjörir hann sér til hróss af mönnum, sumpart til að hafa hylli enna voldugu. Kirkjuna og sakramentin rækir hann svo allir skuli meina hann guðrækinn, húslesturinn í sama máta, ritninguna svo hann geti talað um lærdóma hennar og frásögur hennar á mannfundum og sýnt sig öðrum fremri að lærdómi, en sjálfur meinar hann sig fullkomlega réttlátan.

Nú skal ég segja yður til dæmis. Ég var staddur hjá Réttvísi ásamt bróður mínum sem situr hér fyrir ofan mig; var hann að ákæra hinn reiðigjarna, en ég hræsnarann, og þegar Miskunnsemi fram kom að forsvara báða sagðist hún þó hafa betri von um hinn reiðigjarna að hann mundi iðrast og bæta lifnað sinn því bæði fyndi hann stöku sinnum til synda sinna og bæri virðingu fyrir evangelii lærdómi, en hinn þættist algjör og forsmáði í hjarta sínu friðþægingarlærdóminn því hann væri sér engra afbrota meðvitandi og slíkir væri til afturhvarfs tregastir allra manna."

Endaði hann síðan sögu sína með því að forseti var vel ánægður við hann.

Skutu þeir nú allir til samans þrem stórum logbröndum í bálið. Tók nú hver að öðrum við að segja sínar sögur, höfðu hinir fremstu er grannleitastir voru lítið getað útrétt og kvörtuðu sáran yfir að þeir mundu varla geta haldist við á sömu bæjum allan þennan vetur sökum guðræknis og sannarlegrar siðavendni.

Síðast allra byrjaði forseti sjálfur söguna á þessa leið: "Góðir hálsar, það er að vísu satt að margir af yður hafa fyrirhitt mikið góða staði, en samt óska ég mér ekki umskipta við neinn af yður. Ég hef nú verið hér á Þrúðvangi síðan í haust eð var. Steinn bóndi er mestur vinur vor og hinn merkasti maður. Hann er ekki einungis sjálfur hinn besti borgari í Lúcífers ríki, heldur og þar að auki stundar hann af alefli bæði með orðum og eftirdæmi að ávinna borgara til vors félagsskapar.

Að vísu er húsfreyja guðrækin og vill fegin spilla vináttu vorri, en Steinn bóndi lætur sig ei leiða. Kristín og Una fylgja að sönnu drætti Guðbjargar, en síðan í haust að Helgi prestur sendi hingað nýjatestamentið þá er nú bóndi orðinn svo æfur við lestur þeirra að þær þora nú ekki að láta hann sjá að þær líti nokkurn tíma í það, og það hlægir mig að bók sú er Hvítkollur hinn heilagi, að ég brúki orðtak Steins bónda sjálfs, sendi hingað muni verka þvert á móti tilgangi hans.

Fóstursonurinn Illugi er líka trúr sporgöngumaður fóstra síns og mér þykir vænt um hann. Teitur hinn ungi er líka gott mannsefni og ef hann elst upp undir umsjón föður síns og í selskap Illuga, svo veit ég hann á sínum tíma gjörast muni verðugur eftirmaður föður síns á Þrúðvangi. Engan óttast ég á bæ þeim nema Helgu hina gömlu; svo er hún óforskömmuð hvað sem bóndi segir að hún hefir tekið til sín nýjatestamentið og les síðan þegar henni sýnist.

Ekki hefir bóndi traust til að ná því frá henni með ofríki, en þrisvar hefir hann reynt að láta Illuga ná því með leynd, en kerling verður ætíð vör við það því hún geymir það vandlega undir höfðinu svo hann fékk högg ofan á högg í hvert sinn og ekki annað en átölur nógar. Samt er nú kerling þeim mun hræddari en áður að hún þorir nú ekki að lesa í því þegar Illugi situr nærri af ótta fyrir að hann muni kippa því af henni. Við konu sína sagði bóndi eitt sinn þegar hún las í því að hún skyldi nú hafa lesturinn í matar stað, hún skuli fæða sig og hjúin á þessu slaðri, hann skyldi sjálfur eiga matinn og selja það sem afgangs yrði.

Nú í dag fór bóndi, húsfreyja, hjúin og dóttirin til kirkju. Steinn sat undir prédikuninni með sömu harðúðar og háðungar þönkum og spottaði bæði Helga prest og það sem hann var að rausa eins og maklegt var, en Illugi sem sat fram í kirkjunni gjörði það þó ekki minna; hann skældi sig á allar lundir framan í sessunauta sína, var sífellt að hnjáta í síðu þeirra sem næstir honum sátu og í hljóði að vinda út úr orðum hans, og ég segi yður það satt, kæru vinir, að ég hefi varla lifað skemmtilegri stund.

Eftir embættið varð margt af fólkinu samferða; tók þá Steinn bóndi að ræða um það sem prestur hafði framflutt um daginn, afbakaði allt og gjörði spott úr og leiddi marga til þess með, en Illugi var sífellt að herma eftir presti, setja saman og tóna smánarklausur og þess á milli að prédika. Dáðust margir gárungar að því hvað líkur hann gæti orðið presti og margir guðhræddir gátu varla varist hlátri hvar við andaktin tapaðist; æ, það var skemmtilegt.

Prestur hafði um daginn meðal annars talað um hversu guðs hátign auglýstist í sonarins fæðingu. Steinn bóndi snéri því svo að það hefði ekki verið lítil hátign að láta hann fæðast í hrosshúsinu og mættu menn þannig sjá hvernig prestar vildu telja mönnum trú um að hvítt væri svart og svart hvítt.

Húsfreyja þorði þá ekki annað en gráta í hljóði; lagðist hún niður með andvörpum þegar heim kom, en hinum yngri lá heldur við að henda gaman að skrípalátum Illuga. En á einu furðar mig stórum að ég sé nú hvergi Stein bónda síðan hann var búinn að hirða pening sinn í kvöld, en ég sé þó hitt fólkið í stofunni.

Nú mun ekki tjá að tefja lengur, þessi tími er oss dýrmætur. Fari nú hver til síns staðar sem skjótast. Látið ekkert tækifæri ónotað sem þénað gæti til eflingar Lúcífers ríkis. Í kvöld mun víða verða spilað á bæjum. Við þann leik er yður hægast að uppkveikja tvídrægnis neista. Blásið án afláts að kolum þeim ef ske mætti að þar af kynni að upptendrast eitt hatursbál. Sjáið einkum eftir að það verði ókulnað í vor þegar fólk eftir venju gengur til altaris, og spilli þá enginn handverki yðar í millitíð er mikið líklegt að eldur sá tapi sér ekki fyrr en í hinum sem brennur í Gehennu.

Aftur á hina síðuna skulu þér sjá eftir þar sem velvild er og ekki hatur að elskan fái dreifst út yfir hin leyfilegu takmörk til framúrskarandi lauslætis sem þá hefir í för með sér heilan her af löstum er veikja og spilla sál og líkama með þeim hætti sem oss er rétt verðugur og hér er of langt að framtelja. Geti nú ekki orðið svona mikið bragð að þessu þá sjáið samt um að elskan, annaðhvort á auðæfum eða persónum, verði svo sterk að elskan til guðs tapist með öllu.

Í einu orði ef þér getið viðhaldið þessum tveimur grundvallarstólpum Lúcífers ríkis, hatri og óleyfilegri elsku, þá mun allt annað illt af sjálfu sér meðfylgjast, foröktun guðs orða, óhlýðni við yfirboðna, manndráp, hórdómur, blóðskammir, þjófnaður, lygar og meinsæri, að ég ekki tali um allra handa vondar girndir.

Farið nú vel og gleymið ekki ráðleggingum mínum; munið líka til þess að Lúcífer húsbóndi vor er strangur, hann sér ekki í gegnum fingur við glappaskotin. Hér skulum vær finnast aftur á laugardagskvöldið fyrir páska og þér afleggið þá reikningskap fyrir mér."

Þutu nú allir upp úr sætum sínum og í burt frá eldinum. Við það þótti Steini bónda sem yrði gnýr mikill; hrökk hann við það fram úr sænginni og raknaði skelfdur við. Var þá sem af honum rynni svefn eða þó heldur ómegi; stóð hann felmtsfullur á fætur og gekk til bæjar í þungum þönkum.

Þykkt loft var úti og þeyvindur. Sest hann niður undir bæjarvegg og hugsar með sér: "Hvað hefir mig hent? Hefir mig dreymt, hef ég verið í leiðslu, hef ég vakað? Já, víst var ég vakandi. Nei, hvernig gat ég heyrt og séð þvílíka hluti vakandi? Það var draumur þó ég ímyndaði mér ekki annað en ég vekti. Það var samt hinn undarlegasti og merkilegasti draumur sem ég hef haft á ævi minni þótt það hafi draumur verið og draumar munu þó ekki með öllu marklausir.

Og hver getur nú þýðingin verið? Hver önnur en sú að ég geng á vegi djöfulsins og syndarinnar; hvað getur eldurinn annað þýtt sem tendraður var af mínum efnum, hvað annað en syndir mínar og svívirðingar sem upp eru stignar fyrir augliti guðs?

Og sé það satt sem Helgi prestur hefir talað um annað líf eftir þetta og að menn muni þá bæði fá laun og sæta hegningu, hvílíkan háska er ég þá viðkominn! Ó hversu skelfileg tilhugsun að þá kemst ég í sambúð hinna vondu anda, hverjum ég svo dyggilega þjónað hefi eins og draumurinn sýndi mér. En getur nú þetta ekki verið eintóm ímyndan mín eða marklaus draumur?

Nú kemur mér víst nokkuð í hug: forsetinn furðaði sig á því seinast í ræðunni að hann sá mig hvergi, hvað kom til þess? hann sá þó hitt fólkið. Mun það vera mögulegt að forsjónin hafi látið mér sýnast þetta mér til uppvakningar, mér hinum óhreinasta ormi er skríð á hans jörð? En hvað sem gildir, mér er allt um seinan að ráða drauminn fyrst í eilífðinni þegar ég með óbætanlegum skaða mínum sé hann ef til vill að fullu rættan. Náðartíma hef ég heyrt nefndan, en mun hann geta komið mér að notum? Mun nokkur von vera mér til frelsis? Ég finn að ég mun aldrei geta haft rólega samvisku héðan af. Já, ég skal af öllum kröftum reyna að bæta lifnað minn, en hversu torvelt og ómögulegt eftir svo langan og inngróinn syndavana. Ég mun víst hrasa aftur og aftur og þó ég gæti lifað vel, hvar er samt borgunin fyrir umliðnar illgjörðir? Hún er ekki til hjá mér; allt fyrir það má ég deyja í örvæntingu.

Hvað skal ég til bragðs taka? Nokkuð skal ég reyna; ég skal fyrst taka mér fyrir hendur að lesa bókina sem prestur sendi hingað í haust og heimfæra allt sem ég get upp á mig, ræða um innihaldið við konu mína og tengdamóður, en þegar það hrökkur ekki skal ég ráðfæra mig við prest minn og reyna svo hvað ég get langt komist. Hér til mun ég þurfa guðs aðstoð."

Í fyrsta sinni upplyfti hann sínu hjarta til guðs með alvarlegri bæn til hans um aðstoð í sínu betrunarverki; hann útjós beiskum iðrunartárum og við það létti stórum á hjarta hans.

Síðan gekk hann til baðstofunnar; voru þá allir löngu síðan inn komnir og væntu hans. Hann staldraði við framan baðstofudyrnar og heyrði að allir þögðu nema tengdamóðir hans; hún byrjaði rétt í því sálminn "Guðs son kallar: komið til mín" o. s. frv. Hann hafði eins og nærri má geta oft heyrt þennan sálm sunginn, en aldrei fundið í honum neitt uppbyggilegt. En nú var sem þetta vers þrengdi sér gegnum merg og bein.

"Hér er víst," hugsaði hann með sér, "friðþægingarmeðalið," og undireins minntist hann að hafa heyrt þessi Jesú orð (Matth. 11.): "Komið til mín allir þér sem erfiði drýgið," gekk síðan til baðstofu og settist mót vana sínum hjá tengdamóður sinni.

Eftir litla þögn biður hann hana að ljá sér nýjatestamentið.

"Til hvers?" svarar hún heldur stygg, "máski til að rífa það í sundur eða þá ef þú lýkur því upp að spottast að guðsorði þér til fordæmingar eftir vanda þínum."

"Vertu óhrædd um það," svaraði hann, "bókina skal ég ei skemma og þyki þér ég lesa óverðuglega skal ég strax fá þér hana aftur."

Hún fékk honum svo bókina og sagði um leið að ef hann á nokkurn hátt færi illa með hana skyldi hún tafarlaust gefa það presti til vitundar.

Hann tók við bókinni og lauk henni upp. Það fyrsta sem fyrir honum varð voru þessi Jesú orð (Jóh. 3. 16): "Svo elskaði guð heiminn að hann útgaf" o. s. frv. "Allir?" hugsaði hann með sér, "guð vægi mér, ég hef ekki trúað á hann. Mun hann vilja þiggja trú mína héðan af? Já, ef guð gefur mér náð til að trúa, því hér stendur allir," og um leið andvarpaði hann til guðs.

Hann byrjaði nú lesturinn á Mattheusarguðspjalli og las fæðingarsöguna með innilegri andakt og eftirtekt. Fann hann nú í hverju orði huggunarfulla lærdóma, hugganir og áminningar þar sem hann fann ei áður utan hégóma. Heimfærði hann allt til sín sjálfs og hinna fyrstu orða: "Svo elskaði guð heiminn," já, mig versta syndaþræl því ég er og partur af heiminum. Hann lítillækkaði svo mjög sinn eingetinn son að hann lét hann líða þvílíka fátækt, forakt og ofsóknir strax af Heródesi."

Framvegis las hann fæðingarsöguna hjá Lúkasi og fann nú alla aðra meiningu og þanka undir jóladagsguðspjallinu heldur en þegar hann heyrði það lesið um daginn, hvar við hann blygðaðist í hjarta sínu og þó enn meir þegar hann minntist sinna óguðlegu hugsana í skemmunni um kvöldið og hjátrúar á steininum.

Það sem hann las, það las hann hátt svo allir heyrðu og við mörg tækifæri ræddi hann við konu sína og tengdamóður um hið dýrmæta efni. Undrun allra í húsinu yfir þessum hastarlegu skapbrigðum hans verður ekki með orðum lýst. Guðbjörg húsfreyja grét af gleði og bað guð að halda sem lengst við hjá manni sínum þessum guðræknis- og siðsemdaræfingum eins og hún áður hafði beðið guð að lagfæra hann. Allir í húsinu glöddust innilega hér af nema Illugi, hann hló sig þreyttan um kvöldið, en loksins þegar bóndi byrsti sig við hann lagðist hann upp í rúm sitt og sofnaði.

Þannig fór nú fram til nýárs; fóru þá allir hinir sömu til kirkju sem á jóladaginn; var þá kirkjuerindi og hegðan bónda gagnstætt því sem frá segir hinn fyrra dag.

Eftir embætti gekk bóndi til prests og fer að ráðfæra sig við hann um eina og aðra ólíka staði sem komið höfðu fyrir undir nýársmessunni. Gjörði prestur góða grein á því fyrir honum, sagði þó jafnframt að þó eitthvað kæmi torskilið fyrir hann væri það ei að undra, fyrst væri verkið gamalt og menn gætu nú ómögulega þekkt allar orsakir eða tildrögu þeirra eða þeirra orða hjá hinum helgu rithöfundum nær þeir tala til vissra manna eða safnaða sérílagi, en yfirhöfuð séu sáluhjálparefnin nógu ljós.

Hann skuli líka bera þessa staði saman við hina sem til er vísað fyri neðan milli versanna, þar væri líka þeir lærdómar sem engri mannlegri skynsemi væri unnt að raunsaka eða útgrunda til hlítar, t. a. m. um þríeininguna. "Er það til að sýna oss að vér séum menn, en ekki guðir, og að vér skulum auðmýkja oss fyrir honum, því hvernig skyldi skepnan, já syndug og saurguð skepna, fá útgrundað sinn og allra hluta skapara?" og fór prestur hér um mörgum fleiri orðum.

Fór nú Steinn bóndi heimleiðis og hélt uppteknum hætti með lestur nýjatestamentisins til langaföstu; léði prestur þá þangað passíusálma sem sungnir voru með innilegri andakt bæði af bónda og kvenfólkinu þó Illuga geðjaðist lítt að öllu þessu.

Þannig leið nú langafastan fram til páska. Á laugardagskvöldið gengur Steinn bóndi í skemmu sína einsamall og leggur sig upp í sængina og hyggur nú að því sem fyrir hann bar á jóladagskvöldið. Liggur hann svo langa stund að hann heyrir ekkert né sér; vill hann þá aftur rísa á fætur og ganga til bæjar, en nú fer allt á sömu leið sem fyr að hann fær ei upp staðið. Allt í einu þykir honum sem steinninn opnist, en í staðinn fyrir eldinn áður sér hann nú ekki nema einn hálfkulnaðan eldibrand og við daufa glóru kennir hann svo sem mannslíkan. Í þessu heyrir hann gný mikinn. Drífa þá að hinir gömlu gestir og heilsa herra sínum og tekur hann kveðju þeirra mikið dræmt; kemur þá einn fram og segir:

"Herra, hvernig er yðar mikla fegurð svo skyndilega horfin? Þér eruð til útlits orðinn eins og dautt hræ og þér hafið nú engan eldinn handa oss eftir venju yðar, hverju sætir allt þetta?"

Hann svaraði: "Frá því er löng saga, þér hljótið nú sjálfir að tendra eldinn handa yður. Frá Steini bónda hefi ég ekkert, en sá allareiðu útkulnaði brandur sem þér sjáið er frá Illuga."

"En," sögðu þeir, "hvernig er allt þetta til gengið?"

Hann byrjaði nú söguna á þessa leið: "Góðir hálsar, þegar við á jóladagskvöldið skildum seinast var bóndi enn ókominn og ekki veit ég ennþá hvar hann hefir verið. Loksins kom hann inn og settist mót vana sínum hjá tengdamóður sinni og tók til að lesa nýjatestamentið og það með hinni staklegustu andakt. Ég varð hissa, huggaði mig þó við að þetta mundi ekki lengi standa og dvaldi á meðan hjá Illuga því allir aðrir í húsinu voru óvinir mínir og jafnvel Teitur hinn ungi var strax tekinn af móður sinni og minntur á allra handa bænir og aldrei liðið að hafa nokkurt ósæmilegt orð um hönd, en von mín varð mér til skammar.

Bóndi hefir síðan aldrei af látið að lesa og biðja og það af hjarta. Á nýársdag fór hann og hitt fólkið til kirkju, en nú var allt annað en á jóladaginn. Steinn sat undir prédikuninni með sannri hjartans andakt, og það sem mér þótti allra verst að eftir embætti fór bóndi að tala við prest um guðsorð svo margir heyrðu og dró sú umræða frá oss tvo eða þrjá góða borgara.

Þó tók yfir á heimleiðinni. Illugi hafði að sönnu um daginn brúkað sína gömlu siði, en þegar hann á heimleiðinni byrjaði að herma eftir presti gjörði bóndi honum harða áminning svo alla rak í rogastanz, tók síðan að ræða um efni prédikunarinnar og neyddi alla til að leggja saman og rifja sem mest upp af því. Gjörðu menn það og með þeim hætti vann sú ræða meiri skaða ríki voru en þúsund aðrar sem snöggvast um eyrun þjóta.

Við þetta gladdist húsfreyja eins mikið og ég hryggðist, en Illugi sneyptist og var hinn sami, og hefði hann ekki verið munda eg fyrir löngu burt flæmdur héðan frá Þrúðvangi. Oftlega var hann af bónda áminntur, en án nokkurrar sérlegrar verkunar. Ég gjörði mér því vissa von um að mega halda honum, en sú von er nú líka farin að bregðast.

Oftlega reyndi ég til að leggja í veg fyrir bónda ýmsar tálsnörur ef ske mætti að honum kynni bregða á sinn gamla vana, en ekki tókst mér það nema alls einu sinni. Ég kom því til vegar að ein kýr hans varð óhemjandi og gjörði honum skaða. Kom þá svo að hann formælti bæði kúnni og Unu sem átti að hirða um í fjósinu, já, öllu sem fyrir honum varð meðan bræðin var sem heitust.

Skjótur sem elding flaug ég með þetta fyrir dómstól Réttvísi og krafðist yfir honum fordæmingardóms; var sökin gjör að álitum, en rétt í sama bili kom Miskunnsemi fram og bar það fyrir að þó sökin í sjálfri sér væri fordæmingar verð gæti dómur sá ekki átt hér stað, því fyrst maðurinn hefði strax af hjarta iðrast og leitað hins sanna friðþægingarmeðals þá væri þúsundföld borgun hér fyrir útlögð og þar að auk hefði orsökin til syndarinnar verið frá hinum vonda anda og ætti því hegningin á honum að lenda. Samkvæmt þessari réttarkröfu felldi Réttvísi dóminn og ég féll á málinu, fór svo með sneypu leiðar minnar.

Ekki batnaði vist mín þegar langafasta byrjaðist; gamli Helgi léði hingað Hallgrímssálmaskruddu, á hverja sameiginlega hefir sungið verið. Hefir mér þá hvergi í húsinu vært verið nema á baki Illuga, en hann gat ekki lengur haldið út að sýna mér hollustu en þar til á föstudaginn langa; hafði ég þó annars ásett mér að gjöra hann skaðlausan fyri langa og trúa þjónustu með þeim hætti að hjálpa honum til fyrst að smána dóttur bónda, láta hann síðan stela öllum peningum hans og loksins verja sig fyrir allri lagahegningu með lygum, meinsæri og þrætni. Með þessum hætti hefði hann í framtíðinni, þegar nógir voru peningar, getað lifað sem hann var lyndur til, í drykkjuskap og lausung og mettun allra tilhneiginga sinna, en loksins átt hjá oss vissa heimvon fyrir sálina þegar kroppurinn hefði á þennan hátt útþénað.

En hann má kenna sjálfum sér, hann fór ekki að mínum ráðum. Á skírdag gekk hann að mínum ráðum út á meðan húslesturinn var lesinn og kom ei aftur fyrr en hann var búinn. Bóndi átaldi hann, en hann sagðist hafa verið að hyggja að skepnum sem þó reyndist ósatt; gjörði bóndi honum áminning og lagði honum fyrir að hlýða nú lestrinum á föstudaginn langa. Illugi þorði þá ei annað; sat ég á baki hans og þá var ég illa staddur.

Hann tók þá til að hugsa með sér hvernig á því mætti standa að Jesús hefði liðið svo og svo mikið sem hann heyrði lesið um í píslarsögunni. Eftir lesturinn varð honum að líta í Hallgrímssálma og varð fyrir honum þetta vers: Í dag við skulum skipta um skjótt. - Út af þessu orði "nú í nótt" kom að honum megn órósemi; alla þessa nótt kom honum ekki dúr á augu, en hann fyrirverður sig að segja það húsbónda sínum. Á morgun fer hann til kirkju og tel ég þá útgjört um hann.

Þannig er nú saga mín kæru vinir, og á þenna bæ kem ég ekki framar, en mér er sem ég sjái svip Lúcífers húsbónda vors þegar ég kem heim aftur og svona hefir til tekist fyrir mér, mér sem hann trúði þó öðrum framar og lét mig hafa umsjón annara."

"Vær skulum allir bera yður vitni," sagði sá sem næstur honum sat "og þá verður hann að láta sér segjast og þar með lynda".

"Nei, þér þekkið þá ekki rétt vel skaplyndi Lúcífers húsbónda vors ef þér haldið hann muni láta sannfæra sig og dæma eftir gögnum og vitnum. Nei, þvert á mót allri réttvísi dæmir hann ætíð ef honum mislíkar. Ég ætla nú að reyna að draga mig á einhvern annan bæ hvar ég fá kynni betra viðurværi svo hyldgast mætti nokkuð lítt það áður ég kem heim. Ég er ekki heldur fær um að taka reikningskapinn af yður, svo er ég vanburða. Þar á ofan kenni ég einhvers konar ónotalegs hita hér að framan sem skjótt gjörir út af við mig ef ég dvel hér lengi."

Hinir sögðu sama og báðu hann því færa þaðan þingstaðinn og játti hann því, "en um leið vær förum," sögðu þeir, "skulum vær freista að brjóta skemmuna". Þutu nú allir burtu með gný miklum, en húsið lék á reiðiskjálfi og hélt við broti. Brá þá leiftran úr dyrum innar um húsið svo skjálftinn stöðvaðist allt í einu, en bóndi hrökk fram úr sænginni og raknaði sem úr ómegi, stóð á fætur og gekk til bæjar og sagði fólki sínu sögu þessa frá upphafi til enda.

Undruðust allir þennan atburð og þökkuðu guði dásamlega stjórnun hans og handleiðslu. Einkum komst Illugi við í hjarta sínu og að endaðri frásögunni játaði hann fyrir öllum að hugarfar sitt hefði verið öldungis eins og púkinn hefði frá sagt. Bætti hann síðan ráð sitt og varð sannguðhræddur maður; fékk hann Kristínar bóndadóttur, og gaf hann þeim jörð er hann átti þar í sveitinni. Teitur bóndason ólst upp á Þrúðvangi og þótti ágætur maður, fékk hann dóttur Helga prests af síðara hjónabandi hans. Einn son áttu þau barna; nefndist sá Steinn og var heitinn eftir afa sínum og varð sanndyggðugur maður. Hafði hann skamma hríð búið á Þrúðvangi áður hann fluttist þaðan skömmu fyrir eldgosið mikla - og ljúku vér þessari sögu.


Börnin þökkuðu Sofíu móður sinni innilega fyrir söguna; sagði hún þeim að þau skyldu leggja saman og rifja upp efnið sín á milli þangað til þau gætu fengið söguna samanhangandi, en þar sem þau brysti sagðist hún skyldi lagfæra. Börnin gjörðu þetta og gesturinn Muni nam söguna til hlítar og lét rita hana þegar hann kom heim aftur til sín.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - júlí 2000