SAGNIR  ÚR  GRETTLU



Einna flestar sagnir hafa verið af Gretti sterka Ásmundssyni sem enn ganga í munnmælum. Það er of langt upp að telja öll þau örnefni sem við hann eru kennd, t. d. gljúfur og hæðir eða steinar sem hann skal hafa sett á hlóðir hingað og þangað. Stundum fara sögur þessar af sama efni sem frá er skýrt í sögu hans, en stundum eru þær um annað.

Enn sést t. d. Spjótsmýri milli Reykja og Þóroddsstaða í Hrútafirði þar sem Grettir missti spjótsodd sinn þegar hann drap Þorbjörn öxnamegn.

Grettislaugar heita hjá Reykhólum á Reykjanesi þar sem hann gekk í bað; þar er og nærri Grettishlaup þar sem hann átti að hafa stokkið á milli tveggja hóla sem enn heita Hellishólar og er það giskalangt hlaup.

Grettisvarða og Grettishjalli heitir hjá Vatnsfirði þar sem Grettir dvaldi um hríð og Grettistangi í Selvatni þar sem hann var handtekinn; og er sagt að hjallinn hafi verið bústaður Grettis, en varðan hafi verið hlaðin af einhverjum til að vísa leið þangað.

Grettisbæli heitir hellirinn í Fagraskógarfjalli þar sem hann hafðist lengi við og Grettishlaup við Haffjarðará þar sem hann náði Gísla Þorsteinssyni, gortaranum mikla, eftir langan eltingaleik og afhýddi hann.

Enn sér og stað þann hjá Sandhaugum í Bárðardal þar sem Grettir átti við tröllkonuna, og heitir hann Grettisstöðvar, og þar sem hann óð með húsmóður sína um hávetur yfir Eyjadalsá í vatnagangi og með jakaburði til jólatíða.

Í Goðafossi sem er ákaflega stór og í dalnum sama sér enn helli inn undir vatninu sem Grettir seig í og vann bergrisann.

Á Drangey sést enn Grettiskofi þar sem þessi ránsmaður hafðist við og féll og Hæringshlaup útsunnanvert á eynni þar sem Hæringur norski steypti sér ofan fyrir sem var manna brattgengastur og ætlaði að koma óvörum að þeim Gretti sem alstaðar átti ofsóknum að mæta.

- Stundum víkja munnmælasögurnar meir frá bóksögunni. Grettis saga getur reyndar nokkurra steina ákaflega stórra sem Grettir hafi reynt afl sitt á, tekið upp, látið undir þá aðra steina og sett þá þar ofan á; er það kallað að setja eða hefja stein á hlóðir. Einn þeirra er á Sleðaási á Kaldadalsvegi fyrir ofan Þingvallasveit, annar á Hrútafjarðarhálsi og hinn þriðji í Hítardal; eru þeir hver um sig kallaðir Grettishaf.

Nú á dögum má víða sjá líka steina að stærð þessum sem fyrr var getið og eru þeir allir kallaðir einu nafni Grettistak sem þýðir sama og Grettishaf.

Allt eins fara ýmsar sögur af því að Grettir hafi gengið í háfjöll og dranga sem síðan bera menjar hans að einhverju leyti. Austanvert við Vatnsdalsfjall gengur dalur til suðurs; hann er örmjór og heitir Sauðadalur. Austan megin þess dals er fjall sem kallað er einu nafni Svínadalsfjall. Nyrsti tindur þess heitir Reykjanibba og dregur hann nafn af bænum Reykjum á Reykjabraut er stendur skammt fyrir norðan og neðan Nibbuna svo að segja undir fjallinu. Reykjanibba dregst mjög að sér ofan og er alllík að lögun Baulu í Mýrasýslu og Keili á Suðurlandi í Gullbringusýslu.

Mestur hluti af Reykjanibbu er eintómt smágrjót og efri hlutinn að norðanverðu alþakinn hvítum og gulleitum sandi og tekur hann yfir allan efri og nyrðri hluta nibbunnar. Sandur þessi hinn hvíti er kallaður Grettisskyrta. En því heitir sandblettur þessi svo að þá er Grettir fór eitt sinn í Reykjalaug er sagt að hann hafi ekki farið af skyrtu sinni; en er hann kom úr lauginni hafi hann gengið upp á Reykjanibbu og breitt skyrtuna til þerris á hana norðanverða; hafi þá sandurinn breytt lit sínum og tekið skyrtulitinn og orðið hvítur alstaðar þar sem skyrtan náði yfir.

Önnur Grettisskyrta er til í Skagafirði í Staðarfjöllum. Þar er sagt að Grettir hafi breitt skyrtu sína á fjallás einn, hvort sem það hefur átt að vera eftir að hann fór í Reykjaströnd eða við annan atburð. Síðan er fjallás þessi gulhvítur ofan og niður eftir austurhlíðinni, og segja kunnugir menn að blettur þessi í fjallinu líti út til að sjá eins og skyrta, sem hengd væri á stag eða þvottaás, blakti fyrir vindi. Fjallið heitir síðan Grettisskyrta.

Hjá Steinsstöðum í Öxnadal er tindur einn hár mjög sem Drangur heitir. Sagt er að Grettir hafi einu sinni klifrast efst upp á Dranginn og hengt þar til sannindamerkis hníf sinn og belti og sagt að hvorttveggja skyldi sá eignast sem sækti það. En til þess hefur enginn orðið enn því engum þykir þar fært upp að komast.

Undir Eyjafjöllum er hamragljúfur eitt sem Grettisskarð heitir; það liggur úr óbyggðum og veit móti sjó og Suðurlandi, en ókunnugt er mönnum hver rök liggi til örnefnis þessa.

Frá því er sagt í Grettis sögu að Grettir rændi einu sinni fjórum sauðum meðan hann hafðist við í Fagraskógarfjalli; en þegar hann sá að bændur veittu sér eftirför og hann mundi ekki draga undan þeim tók hann sauðina og krækti saman tvo og tvo á hornunum, lagði á öxl sér og gekk síðan í hægðum sínum upp fjallið, svo snarbratt sem það er, upp í bæli sitt. Um þenna atburð ganga ýmsar missagnir sem sín segir hvað um staðinn sem Grettir hafi borið sauðina yfir.

Milli Skoradals og Svínadals í Borgarfirði er fjallgarður allhár og brattur sem Dragi heitir; þar segja sumir að þessi atburður hafi orðið og að Grettir hafi sagt þegar hann fór að þreytast undan byrðinni og af hlaupunum, en var þó kominn upp á fjallið: "Lítið er það sem gangandi manninn dregur ekki."

Er það síðan haft fyrir orðtak og segja menn að fjallið hafi af þessu fengið nafn sitt. En Norðlendingar segja að þessi atburður hafi orðið á Sandi sem nú skal getið. Grettishæð heitir norðarlega á Stórasandi og er mælt að Þorbjörn öngull hafi dysjað höfuð Grettis í hæðinni. Skammt þar fyrir neðan er klettagljúfur og er það að mestu vatnslaust þegar snjóar eru leystir; það heitir Grettishlaup.

Einu sinni hafði skessa elt Gretti að gljúfrinu og ætlað að taka af honum fjóra hrúta sem hann hafði náð. Hann krækti þá hrútana saman á hornunum, hengdi svo yfir axlir sér í bak og fyrir og stökk síðan yfir, en gat naumast stöðvað sig á bakkanum hinumegin.

"Vel stokkið," mælti tröllkonan, "ef maðurinn hefði verið óhræddur."

"Lítið er það sem gangandi manninn dregur ekki," sagði Grettir; "en stökktu betur; þú ert laus og óhrædd."

Hún rann þá eftir, en gat ekki stöðvað sig á barminum; náði hún í víðirunna og hékk svo fram af; þó ætlaði hún að vega sig upp. En Grettir gekk þá að og hjó á hríslurnar svo tröllkonan steyptist í gljúfrið og varð það hennar bani. °



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - júlí 1998