Það var einu sinni kóngur og drottning [er] réðu fyrir ríki og áttu eina dóttur sem Ingibjörg hét, og karl og kerling voru þar í garðshorni; þau áttu einn son sem hét Ullarvindill.Kóngi þótti obbalega vænt um dóttur sína og þóttist hvörgi vita af þeim manni sem henni væri samboðinn, og til reynslu að fyrirbyggja að hennar yrði beðið þá lét hann það orðfleytt að hann gæfi öngvum manni dóttur sína nema þeim sem gæti fyllt belg af orðum. Svo þorði enginn að biðja kóngsdóttur þegar þeir heyrðu þetta því þeir þóttust ekki vita hvörnin ætti að fara að fylla belg af orðum.
Karlsson í garðshorni heyrði nú orð kóngsins eins og fleiri. Einu sinni fór hann nú til kerlingar móður sinnar og bað hana að láta sér eftir skærin hennar og nálina. Hún spyr hvað hann ætli að gjöra við það. Hann segist ætla að ganga með það heim í kóngsríki og vita hvört drottningin og kóngsdóttir vilji ekki eiga það. Kerling brosir að syni sínum og fær honum þetta.
So kemur hann nú til karls föður síns og biður hann um öxina sína. Karl spurði hvað hann ætlaði að gjöra við hana. Hann segist ætla að færa kónginum hana. So fær karl honum öxina og Ullarvindill fór nú með þetta heim í kóngsríki og kemur að kastala til kóngsdóttur og sér að hún er að sauma.
Hann horfir dálitla stund á hana þar til hann segir: "Ekki fer hún móður mín svona að sauma."
"Hvörnin fer hún þá að sauma?" segir hún.
"Hún leggur nálina við og svo saumar hún sjálfkrafa," segir hann.
"Æ, veslings kindin, útvegaðu mér þá nál," segir kóngsdóttir.
"Hvað fæ ég fyrir það?" segir hann.
"Ja, hvað viltu?" segir hún.
"Sofa hjá þér," segir hann.
"Farðu þá burtu," segir hún.
"Jæja," segir Ullarvindill, "ég skal hafa mína nál sjálfur, mér er ekki otunareyrir í henni."
"Ekki seint og illa, komdu þá hérna," segir kóngsdóttir.
Svo fékk hann henni nú nálina og fór svo þangað sem drottning var að sníða föt. "Ekki fer hún móður mín sona að sníða," segir hann.
"Hvörnin fer hún þá?" segir drottning.
"Hún leggur skærin á og svo sníða þau sjálf," segir hann.
"Æ, veslings kindin, útvegaðu mér þau skæri," segir drottning.
"Hvað fæ ég þá í staðinn?" segir Ullarvindill.
"Hvað sem þú á setur," segir drottning.
Hann segist ekki vilja neitt nema sofa hjá henni.
Hún segir það fái hann aldrei.
"Ég skal hafa mín skæri sjálfur, mér er ekki otunareyrir í þeim," segir hann.
"Ekki seint og illa," segir drottning, "það þarf enginn að vita þó ég láti þetta eftir þér, óhræsið þitt."
Svo fékk hann henni skærin og gengur svo þangað sem kóngur var að höggva skóg. Hann horfði dálitla stund á kóng þangað til hann segir: "Ekki fer hann faðir minn svona að höggva."
"Hvörnin fer hann þá?" segir kóngur.
"Hann leggur öxina við tréð og svo heggur hún sjálf," segir Ullarvindill.
"Útvegaðu mér þá öxi," segir kóngur.
"Hvað fæ ég þá fyrir hana?" segir hinn.
"Segðu mér hvað þú vilt," segir kóngur.
"Ég vil ekki annað en þú takir ofan kórónuna og kyssir á beran rassinn á mér," segir Ullarvindill.
"Það get ég ekki unnið til," segir kóngur.
"Jæja," segir hinn, "ekki fyrir mig, ég skal hafa mína öxi sjálfur," og gjörir sig líklegan til að ganga burtu frá kóngi.
Þá talar kóngur til hans og segir: "Heyrðu strákur, jafngóður er ég fyrir það, þó ég gjöri það sem þú sagðir ef þú lætur mig þá hafa öxina, við erum hér nú ekki nema báðir og enginn þarf að vita af því."
Svo gjörir nú kóngur þetta og karlsson fær honum öxina; gengur svo heim í garðshorn og segir foreldrum sínum frá öllu eins og til gekk um daginn og biður þau að fara með sér heim í kóngsríki á morgun og leggur þeim orð í munn sem þau áttu að segja við hann þegar þangað væri komið, en hann sagðist mundi svara því sem hann vildi.
Daginn eftir gengu þau öll þrjú heim í kóngsríki og þegar allt fólk kóngs var til samans komið og sat við borðun í höllinni þá komu þau þar nú inn og stóðu dálitla stund utar við þegjandi þangað til kerling hefur upp róminn og segir: "Ullarvindill sonur minn, hvað gjörðirðu af nálinni minni?"
"Og hér legg ég orð í belg, ég gaf hana kóngsdótturinni," segir hann.
"Og hvað gaf hún þér fyrir hana?" segir kerling.
"Hér legg ég orð í belg; ég lá hjá henni," segir hann.
"En hvað gjörðirðu af skærunum mínum?" segir hún.
"Hér legg ég orð í belg, ég gaf þau drottningunni," segir Ullarvindill.
"Hvað gaf hún þér fyrir þau?" segir kerling.
"Hér legg ég orð í belg; ég lá hjá henni," segir hann.
Þetta þótti kóngi ljótt að heyra, en þær mæðgurnar sátu sneyptar.
"Ullarvindill sonur minn," segir nú karl, "hvað gjörðirðu af öxinni minni?"
"Hér legg ég orð í belg, ég gaf hana kónginum," segir Ullarvindill.
"Og hvað gaf hann þér fyrir hana?" segir karl.
"Hér legg ég orð í belg," segir hinn; "hann tók ofan kórónuna og --."
"Sussu, sussu, belgurinn er fullur, belgurinn er fullur," segir kóngur.
Og þó honum yrði nú misjafnt í geði við Ullarvindil þá hugsaði hann samt að sér væri ekki annað til en gefa honum dóttur sína þar eð svona hefði minnkunarlega farið fyrir henni, en strákurinn mundi þar hjá vera óheimskur og raunar gæti hann með réttu ekki tekið hart á mæðgunum fyrir þetta því sig hefði líka hent sneypuefni sem legið hefði nú við að komast í hámæli eins og hitt.
Kóngur tók nú Ullarvindil heim til sín og fór að kenna honum og þó hann væri harðorður við hann fyrst þá varði það ekki lengi því Ullarvindill náði brátt vináttu hjá honum vegna skarpleika síns og hlýðni ásamt fleiri mannkostum sem hann hafði.
Svo eignaðist hann nú dóttir kóngsins og hálft ríkið meðan kóngur lifði, en allt eftir hans dag, og stjórnaði skynsamlega.
En karl og kerling í garðshorni höfðu allsnægtir og lifðu þar sína ævitíð ánægð.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - janúar 1999