Einu sinni bað ungur prestur sér stúlku í þriðju sveit og var því vel tekið. Þetta var um vortíma, en um haustið fór hann við annan mann að sækja hana. En á heimleiðinni átti hann yfir fjall að fara og féll þar yfir þá níðmyrkursþoka svo þeir urðu að taka af hestum sínum og tjalda.Fóru þau þá öll í tjaldið og snæddu og að því búnu lögðu þau sig til svefns, en þegar prestur vaknaði aftur var heitmey hans á brott horfin. Hann hélt hana gengið hafa sem fljótast út og mundi hún bráðum aftur koma, en þegar honum fór að leiðast fór hann út með fylgjara sínum að kalla á hana og leita hennar sem allt varð forgefins.
En að kvöldi dags ráfuðu þeir ofan í sömu sveitina aftur og komu um háttamál að kotbæ einum og var prestur þá af sér genginn af þreytu og hugarvíli yfir mótlæti sínu.
Þeir börðu á dyr og kom þar út gamall maður hvítur af hærum og sýndist vera mjög ellihrumur. Þeir báðu gistingar og sagði kall þeim ekki of góða kofana, en annað gæti hann ekki veitt þeim.
Þegar þeir komu til baðstofu sá þeir þar unga konu og sex börn og ekki fleira manna. Bóndi vísaði þeim að rúmi einu hvar þeir skyldu hvílast um nóttina og fór svo að spurja þá af ferðum þeirra, en þeir sögðu allt sem farið hafði og báru sig aumlega.
En kall var nokkuð gildur í orði og sagði að nú væri auðséð að ekki væru þeir menn sem verið hefðu, einhvorn tíma hefði sér þótt gaman að leita stúlkunnar því ekki mundi hún dauð vera. Þegar prestur heyrði þetta varð hann óðamála og bað nú bónda ef nokkur vegur til væri að leggja sér lið og hét honum öllu góðu ef duga mætti. En kall sagði að nú væri sín ekki að geta til þeirra hluta því hann væri nú fyrir löngu hættur öllu slíku, og fóru svo allir að sofa.
Um morguninn strax með birtu vakti bóndi gesti sína og hélt þeim ekki hlíta að sofa lengur ef þeir ætluðu að finna stúlkuna aftur, og sýndist nú presti kallinn sem ungur og ern. Hann sagðist mundi ganga með þeim til tjaldsins þó það væri ekki til neins.
Þeir voru þegar á fótum og héldu á stað og var kall hinn hraðasti í förinni. Þegar þeir komu að tjaldinu risti kallinn þrjá hringi í kringum tjaldið og skipaði hinum inn í það. Síðan tók hann upp hjá sér pípu og blés í suðaustur. Þá opnuðust klettar og hólar og fólk þyrptist að kalli sem sýndist að öllu almennilegt. Það fór allt að ysta hringnum og spurði kall hvað hann vildi sér. Hann spurði þá með ógnarrödd hvort það hefði ekki tekið stúlkuna prestsins. Það svaraði nei.
"Farið þið þá í friði," sagði kall og það hvarf.
Þá tók hann pípu sína og blés í útaustur. Opnuðust þá klettar og steinar hvar út kom fjöldi af lágvöxnu fólki augnastóru og nasabrettu og hljóp sem hitt að ysta hringnum, spurði hvað hann vildi sér. Hann spurði sem fyr og fékk sömu svör og sagði því svo í friði að fara, en tók pípuna og blés í útnorður.
Opnuðust þá hamrar, fjöll og firnindi hvaðan út kom stórvaxið og hræðilegt fólk. Það hljóp sem fyr að hringnum og kall spurði með ógnandi rödd hvort það hefði tekið stúlkuna. Það neitaði, en kelling kom á eftir og leiddi litla stúlku. Hann spurði hana, en hún þagði. Þá sagði litla stúlkan að stúlkan sem hann spurði eftir væri heima.
Þá sagði kallinn að það skyldi brenna allt og stikna þar sem það stæði ef það færði sér ekki stúlkuna strax. Kerlingin varð að lofa því og fór strax eftir henni, en hitt hyskið beið þar á meðan.
Að litlu liðnu kom kerling með stúlkuna á handlegg sér og var þá stúlkan svo sinnulaus að kerlingin varð að hrinda henni inn fyrir hringinn og sagði um leið:
"Af þessu hlýt ég dauða sonar míns; illt er ef ég launa þér það aldrei, karl," og síðan fór það allt leiðar sinnar.
En prestur gaf kalli stórgjafir og skrifaði líka föður stúlkunnar um hjálp hans sem þá einnig sendi kalli mikið fé og komst þá kall í góð efni.
Nú liðu stundir fram þangað til eitt haust að karl var að sækja viðarbyrði inn með fjalli. Þegar hann hafði bundið bagga sinn og er sestur undir hann verður honum litið upp í fjallið og sér þá hvar skessan kemur sem færði honum stúlkuna og hélt á stórri skálm í hendi og var hún óðar til hans komin og sagði:
"Svo fór sem mig grunaði, sonur minn dó af að missa stúlkuna og nú er ég komin að launa þér og drepa þig."
Kall sagðist verða því lifandi feginn, "en gjörðu samt bæn mína, lofaðu mér að lesa þrisvar faðirvor áður."
Tarna sagði kella sig einu gilti, bara hann skyldi flýta sín. Hann fleygði sér þá á grúfu og fór að lesa. Hún settist á þúfu, studdi olbogum á kné sér og hélt á exinni. Hún rekur að nýju eftir kalli. Hann sagðist nú rétt búinn, hann ætti nú eftir að lesa það einu sinni.
Svo stendur kall á fætur að lokinni bænagjörð sinni og segir nú kellu að flýta sín og drepa sig nú strax. En þegar kerling atlaði á fætur var hún orðin föst við þúfuna, olbogarnir við hnén og exin við hendurnar. Þá sagði hún:
"Þú ert þó ekki hættur brögðum þínum enn."
"Já, skrattinn gefi þér það," sagði kall, "og þarna skaltu nú í hel svelta fyrir ómakið nema þú lofir því með eiði að gjöra hvorki mér, prestinum né föður stúlkunnar hið minnsta mein, heldur sért þeim jafnan innanhandar."
Þessu lofaði hún og hélt það sem valkvendi sómdi og var ætíð kallinum hjálpsöm upp frá þessu.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - október 1999