Á dögum Odds biskups Einarssonar í Skálholti bar það við eitt sinn að ofarlega úr Biskupstungum fóru nokkrir menn til kolabrennslu í skóg sem lá fyrir ofan byggð og höfðu með sér unglingspilt til hestageymslu sem Ólafur hét. En eitt sinn þegar hann gekk til hestanna kom hann ekki aftur. Var hans þá leitað víðs vegar en það kom fyrir ekki.En þremur árum síðar kom hann á hlaupum til kolamannanna á sama stað og sagði sjálfur frá því með hverju móti hann hefði horfið. Hann sagðist hafa verið sendur einn dag í hestaleit og gengið þá lengra en vant var. Vissi hann þá ekki fyrr til en ferlega stór skessa flanaði móti honum, þreif hann upp og hljóp með hann langan veg til óbyggða uns hún kom að hömrum nokkrum.
Í hömrum þessum var hellir hennar, þar fór hún inn með hann. En þegar inn kom var þar fyrir önnur skessa unglegri. Nokkuð voru þær hærri en hæstu karlmenn en mikið digrari. Þær voru í hrossskinnsstökkum, skósíðum í fyrir en stuttum á bak. Þær gáfu honum að eta, oftast silung er þær veiddu eða seiddu því ætíð var önnur þeirra á veiðum á daginn en hin yfir Ólafi að gæta hans.
Þær létu hann sofa milli sín á næturnar, höfðu hrosshá undir og aðra ofan á. Það var oft að sín fór í hvort eyra á honum og korruðu þar svo hann sagðist ekki hafa vitað af sér. Þær vildu láta vel að honum og höfðu miklar gætur á honum fyrst að hann hlypi ekki í burtu.
Það var þegar hann var búinn að vera þarna eitt ár, um vorið, að hann var úti staddur og sá kolareyki niður í afréttum en vissi að hvorug skessan var heima. Hljóp hann þá á brott en ekki var hann langt kominn áður hin eldri skessan kom á eftir honum, sló á kinn hans með loppunni og þar hafði hann síðan svartbláan blett á sér alla ævi, greip hann síðan upp og hljóp með hann að hellinum.
Eftir þetta höfðu þær sterkari varðhöld á honum. Eitt sinn tók yngri skessan til orða við hina eldri:
"Hvernig er því varið að ætíð þegar ég kem við hann Láfa beran þá finnst mér ég brenna?"
"Furðaðu þig ekki á því," kvað hin, "það gjöra bænir hans gretta Odds."
Til matar sagði Ólafur þær hefðu oftast haft silung, stöku sinnum hrossaket, og ekki hefði það verið oftar en einu sinni sem þær hefðu ekki viljað að hann vissi hvað þær höfðu til matar.
Þarna var Ólafur uns leið að þriðja vorinu og hann vissi að leið að þeim tíma að menn voru vanir að fara upp í afrétti til kolagjörðar. Þá lést hann verða veikur og það svo að hann gat á engu nærst. Þær vildu leitast við með öllu móti að hressa hann. En það tjáði ekki, hann var æ verri hvað sem þær reyndu.
Eitt sinn spurðu þær hann að hvort hann vissi ekki sjálfur af neinum þeim mat er hann gæti nærst á. Hann kvað nei við nema ef hann fengi níu ára gamlan hákarl. Hann kvaðst hann mundi geta etið. Hin eldri kvað bágt úr því að ráða því hún vissi hvergi af honum á Íslandi nema hjá Ara bónda í Ögri en til vildi hún reyna að ná honum. Síðan stökk hún á stað en hin yngri var á veiðum.
Þegar skessan var burtu farin hljóp Ólafur úr hellinum og stefndi á kolareykina. Hann linaði ekki á hlaupi fyrr en hann kom til kolamanna. Þeir þekktu hann þegar, tóku í hasti hesta sem hjá þeim voru og riðu með Ólaf í byggð, allt að Skálholti og yfir Brúará, og höfðu hinn mesta hraða á ferð sinni.
En þegar þeir voru nýkomnir yfir ána kom eldri skessan á hamarinn hinum megin árinnar og lét illilega, benti til Ólafs með loppunum og sagði; "Það ert þú, stráksi." Þá ærðist Ólafur og vildi brjótast úr höndum þeirra og til hennar svo þeir gátu nauðulega haldið honum.
Hestur stóð á hamrinum skammt frá skessunni. Hún hljóp að honum, sleit hann sundur og fleygði svo á bak sér og stökk burtu. En þeir fóru heim með Ólaf í Skálholt og afhentu hann biskupi. Biskup hafði hann í svefnherbergi sínu nokkurn tíma uns hann kom honum í Austfjörðu til Ólafs prófasts, bróður síns, á Kirkjubæ í Hróarstungu og bað hann sjá fyrir honum. Var svo Ólafur hjá nafna sínum til þess er hann byggði honum Húsey og bjó Ólafur þar til elli.
Oft hafði komið á Ólaf nokkurs konar æði og braust hann þá við björg og steina eins og hamramir menn gjöra og sagði þá tíðum: "Mikið var það að ég skyldi fara frá skepnunum mínum."
Síðast, er hann var orðinn gamall, byrjaði hann ferð til Berufjarðar og lagði upp á fjallveg þann úr Skriðudal er Öxi heitir og spurðist ekki til hans síðan. Héldu menn að tröll mundu hafa tekið hann.
Magnús og Þorvarður hétu synir hans. Þeir bjuggu eftir hann í Húsey og svo niðjar þeirra eftir þá fram á átjándu öld ofarlega.
Netútgáfan - maí 1997