Einu sinni bjó tröllkall og skessa í fjöllunum milli Loðmundarfjarðar og Húsavíkur; þau vóru nátttröll. Eina nótt leggur kall af stað og yfir þvera Húsavík og norður á vík þar fyrir norðan er Herjúlfsvík heitir, og fann þar hvalkálf rekinn á land, bindur hann í bagga og færist undir fetla og gengur af stað heimleiðis.Er nú ekki getið ferða hans fyrr en hann er kominn inn í eggjarnar milli Húsavíkur og Álftavíkur; þar sest hann niður að hvíla sig og horfði til hafs; en meðan hann sat þarna rann dagur og varð hann að steini og allt saman. Er þar gat í fjallsbrúninni undir knésbætur á kalli; og meina ég á honum sé hádegi úr Húsavík.
Nú er að segja frá kellu; hún settist út fyrir inni þeirra með lyppulár og horfði til sjávar eftir kalli sínum; en hana henti sama slys og bónda hennar, nefnilega að hún varð að steini. Er mér sagt að hún (eða steinn sá er sagt er að sé hún) líti út eins og kvenmaður í hempu og bundið um höfuð, með lár í knjám sér; og endar svo þessa sögu.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - janúar 2000