TRÖLLIN  UNDIR  HÖMRUNUM



Á brauði einhverju í eystri Skaftafellssýslu var einhverju sinni prestur sá er Ögmundur hét. Konu átti hann af góðum ættum; frændfólk hennar var sumt erlendis.

Það var á sumri nokkru að konu prests fýsti að sigla til að finna skyldfólk sitt. Kom þeim hjónum saman um það að sigla á haustskipum og vera erlendis vetrarlangt. Þau fengu sér far með skipi af Djúpavogi. Það var hlaðið keti og ýmsum öðrum vörum.

Bráðlega sem skipverjar voru komnir undan landi fengu þeir mótviðri og hrakninga og flæktust lengi í hafvillum um haustið. Loksins bar skipið þar að landi sem hamrabjörg gengu í sjó fram, en með því að veður stóð af hafi gátu skipverjar með engu móti komist hjá tjóni. Bar nú skipið þar á grynningar og brotnaði allt. Fórust þar allir skipmenn að undanskildum hjónunum. Þau komust lífs á flaka einum.

Þar var nokkurt fjöruborð er þau báru að landi, en hellir í bjargið fyrir ofan fjöruna. Rak þar mikið upp af áhöfn og ýmsu af skipinu; barst þeim með því móti nóg til bjargræðis, að minnsta kosti fyrst um sinn. Drógu þau nú upp í hellismunnann það sem þau gátu um daginn.

Um kvöldið bjuggu þau um sig í seglum í afkima fram í hellirnum og lögðust niður til svefns. Þegar þau hafa litla stund legið heyra þau að gengið er úti og stigið þunglega til jarðar. Færist nú fótatakið inn í hellirinn; sér prestur úr fleti sínu að þetta eru kall og kelling, bæði ærið stórvaxin með járnstafi í höndum og járnkláfa á baki. Voru það hin mestu tröll.

Þegar þau eru komin inn á gólfið og sjá farangur þeirra hjóna og flet þeirra kallar kallinn upp með stórkostlegri tröllaröddu og segir: "Svei, svei, svei, svei."

Ekki standa þau neitt við fremur, en halda leiðar sinnar eitthvað í hellirinn.

Þegar prestkonan heyrði orð kallsins lá henni nær óviti af hræðslu, en prestur gat með fortölum sínum talið svo um fyrir henni að nokkuð bráði af, en ekkert geta þau sofið um nóttina sem nærri má geta.

Um morguninn með degi fara þau kall og kelling út með kláfa sína á baki, en kallinn kveður hástöfum eins og um kvöldið.

Um daginn fara þau hjón, presturinn og kona hans, að bjarga sem þau geta af reki skipsins og tína það allt inn í hellirinn er þau fá orkað; var það auk annars mikið af keti sem upp rak.

Þegar þau eru lögst til svefns koma kall og kelling með silung í kláfum sínum og mælir kallinn sem að undanförnu. Aldrei mælir kelling neitt. Allt fer eins fram þriðja daginn. Þegar kallinn gengur um segir hann: "Svei, svei, svei, svei."

Á fjórða degi er sunnudagur; þá fara þau tröllin ekki neitt. Um daginn syngur prestur tíðir eins og þá var venja í katólskum sið. Meðan á því stendur kemur kellingin fram og biður prest fyrir hvern mun að hafa ekki svona hátt, segir að kallinn sinn sé svo slæmur fyrir eyrunum að hann þoli ekki mikinn skarkala, en allra síst þennan söng því hann leggi svo mjög inn í hellirinn.

Prestur lofar því að hafa lægra; fer hann nú að frétta kellingu eftir hvar hann sé að landi borinn; er hún hin ávarpsbesta og þægileg í svörum; hún segir þetta sé norðarlega á Hornströndum, en björg þessi svo mikil að hvergi sé fært uppgöngu og sjór falli svo á báða vegu fast að klettum að óvætt sé öllum mennskum mönnum.

Þegar þau hafa lokið máli sínu færir prestkonan kellingu gjafir; var það einkum ket og fleira af vistum þeirra; þótti henni mikið vænt um það; gaf hún prestkonunni aftur silung og eldivið. Eftir það vaxa kunnleikar með þeim hjónum og kellingu, en kall var með öllu afskiptalaus um þau.

Bar nú ekkert til tíðinda fram að jólum; þá var það á jóladaginn að kelling sat við tíðir sem hún gerði oftar, því hún kvaðst vel geta heyrt þær.

Þegar þeim var lokið tekur prestkonan minnsta seglið af skipinu og bjó kellingu skautafald af; þótti henni það fáséður og fallegur höfuðbúnaður. Hún kveðst halda honum Skrögg sínum, svo hét kallinn, þyki gaman að sjá sig með þetta.

Fer hún nú inn og dinglar skautið mikið á kellingu. Þegar kall sér hana rekur hann upp so mikinn hlátur að undir tók í öllum hellirnum. Kallar hann þá upp svo glumdi í klettunum: "Nú er gaman að sjá þig, Skellinefja mín," - því honum þótti faldurinn ærið nýstárlegur.

Eftir þetta líður nú svo veturinn að ekki bar neitt til frásagna og fram á vor nema alltaf var kall eins fáskiptinn af þeim hjónum, einkum var honum lítið um prestinn; hann kallaði hann aldrei nema Skraffinn.

Einu sinni um vorið kemur kallinn um síðir að máli við prest; hann spyr hversu lengi hann atli hér að vera. Prestur kveðst ekki vita það, segir það allt á hans valdi, því hjálparlaust megi hann lifa og deyja þar sem hann sé.

Tröllkall segir að nú megi hann ekki vera hér lengur, því nú innan viku eigi að taka bú hans til uppskriftar og skipta og veita brauðið. Prestur segir að það verði allt sínu fram fara fyrir sér.

Kall segir að ekki hjálpi það, segir honum að taka nú það eigulegasta af strandgóssinu og binda í tvo bagga; skuli hann hafa þá svo stóra sem hann treysti sér að binda. Kveðst hann skuli segja honum fyrir um stærðina. Gerir nú prestur svo.

Að því búnu taka þau kall og kelling baggana og fara með. Nokkru síðar komu þau aftur. Taka þau nú silungskláfa sína og þau prest og prestkonu í. Segir þá Skröggur við Skellinefju sína: "Taktu hann Skraffinn, ég tek hana."

Fara þau svo á stað með hjónin í kláfunum og vaða sjó langa leið með klettum fram til þess þau komast á land upp; eru þar fyrir baggarnir og þrír hestar, einn með reiðing, hinir með reiðtygjum, og stór hundur mórauður hjá. Þar láta þau hjónin niður.

Segir þá kallinn að hesta þessa atli hann að ljá þeim heim og hundinn með. Aldrei skuli hann æja á leiðinni og fara alltaf sem hundurinn fari fyrir, en þegar þau þurfi af baki til þarfa sinna skuli þau kalla til hans með nafni sem heiti Garmur; muni hann þá leggjast niður til þess þau fara af stað aftur, en ekki skuli þau fara með hestana lengra en að vallargarði; þar skuli hann bera sig að velta böggunum ofan og siga þar hundinum í þá; þeir muni skila sér. Ekki kveðst hann óska sér neinna launa fyrir hestalánin nema að þau eftirláti sér það sem eftir sé af skipstrandinu. Kváðu þau það lítil laun fyrir allan þeirra góðvilja. Síðan létu þau kall og kelling upp á hestinn.

Fóru þau hjón þá á stað, en hundurinn á undan þeim. Héldu þau þannin ferðinni dag og nótt yfir eintóm fjöll og firnindi í þrjá sólarhringa og komu hvergi til byggða uns þau komu heim til sín að vallargarði og veltu þar ofan af hestinum eins og fyrir var lagt. Þau hleyptu strax hundinum í hestana og varð þar skammt að bíða áður hvurfu.

Þegar þau komu heim brá öllum ærið í brún að sjá þau og þóttust eins og var hafa heimt þau úr helju. Var þar hinn mesti fagnaðarfundur er vinnuhjúin, sem nú áttu að fara á vistir sitt á hverja sundrungina, fengu nú að vera kyr. Það stóð þá líka heima að daginn eftir átti að virða og skrifa upp bú prestsins.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - nóvember 1999