Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í koti sínu. Kóngurinn átti sér eina dóttur sem hann hélt ósköp mikið upp á. En honum vildi sú mæða til að dóttir hans hvarf og fannst hvergi nokkurs staðar hvernig sem hennar var leitað. Kóngur vann þá það heit að hver sem fyndi hana og færði sér hana skyldi fá hana fyrir konu. En þó margir reyndu til að vinna til svo góðs kvonfangs fannst kóngsdóttir þó ekki og komu leitarmenn ævinlega jafnnærir aftur.Það er frá karlinum að segja að hann átti þrjá syni og hélt hann ósköp mikið upp á tvo þá eldri, en sá yngsti var hafður út undan hjá foreldrum sínum og bræðrum. Þegar þeir voru upp komnir karlssynirnir þá sagðist elsti bróðirinn einu sinni vilja fara og leita sér fjár og frægðar. Foreldrar hans leyfðu það.
Lagði hann nú á stað með nesti og nýja skó og gekk nú lengi lengi. Loksins kom hann að hóli einum. Þar settist hann niður til að hvíla sig. Tók hann þá nesti sitt og fór að éta. Kemur þar þá til hans dálítill karl og biður hann að gefa sér bita. Karlsson neitaði því, rak hann burtu frá sér og lét hann fara svo búinn.
Síðan gekk hann enn lengi lengi áfram þangað til hann kemur að öðrum hól. Þar sest hann niður og fer að éta. En á meðan kemur þar til hans ofurlítill og skrýtilegur karl sem biður hann að gefa sér bita. En karlsson neitaði honum um bænina og sneypti hann burtu frá sér með illyrðum.
Enn gekk karlsson lengi lengi áfram þangað til hann kom í rjóður. Þar sest hann niður að éta. En á meðan hann er að því kemur þar til hans fuglahópur og mjög nærri honum. Hann reiðist fuglunum og ber þá frá sér.
Karlsson heldur nú enn áfram og gengur þangað til hann kemur á endanum að stórum helli. Hann gengur þar inn og verður þar engrar lifandi skepnu var. Ætlar hann þá að bíða þess að hellisbúinn komi.
Á áliðnum degi kemur ósköp stór skessa inn í hellinn. Hann biður hana að lofa sér að vera. Hún segist skuli gjöra það ef hann vinni það fyrir sig á morgun sem hún segi honum. Hann játar því. Er hann svo í hellinum um nóttina.
Um morguninn skipar skessan honum að moka hellinn og vera búinn að því um kvöldið því annars skuli hún drepa hann. Síðan fer hún burtu. Karlsson þrífur nú rekuna og ætlar að fara að moka, en undireins og hann stakk rekunni niður festist hún við hellisgólfið svo hann gat ekki bifað henni.
Um kvöldið þegar skessan kom heim var hellirinn ómokaður eins og nærri má geta. Hafði hún þá engar veltur á því nema hún tók karlsson og drap hann og er hann úr sögunni.
Nú víkur sögunni heim í kotið til karls og kerlingar. Miðsonurinn biður þau nú að lofa sér að fara burtu til að leita sér fjár og frægðar. Segist hann ekki una þar heima lengur þar sem eldri bróðir sinn sé þá efalaust orðinn að einhverjum hefðarmanni hjá einhverjum kónginum. Foreldrar hans leyfa honum að fara og búa hann út með nesti og nýja skó. Er ekki annað af honum að segja en að allt fór á sömu leið fyrir honum eins og elsta bróðurnum.
Nú var yngsti karlssonurinn eftir og átti hann ekki betra fyrir það hjá karli og kerlingu þó hann væri einn orðinn. Hann biður þá foreldra sína að lofa sér líka burtu.
"Ég ætla ekki að leita mér fjár og frægðar," segir hann, "heldur reyna til að hafa ofan af fyrir mér einhvern veginn svo ég sé ykkur ekki til þyngsla lengur eins og ég er nú."
Karl og kerling létu það eftir honum og fengu honum sæmilegt nesti og skó þó það væri allt óríflegra en það sem hinir bræðurnir fengu.
Karlsson fer nú á stað og vill svo til að hann fer sömu leið og bræður hans höfðu fyrr haldið. Kemur hann nú að fyrra hólnum; þá segir hann: "Hér hafa þeir bræður mínir hvílt sig; ég ætla að gjöra það líka."
Sest hann þá niður og fer að éta. Kemur þá litli karlinn til hans og biður hann að gefa sér bita. Karlsson tekur því vel og býður honum að setjast hjá sér og éta með sér eins og hann vilji.
Þegar þeir höfðu étið nægju sína segir litli karlinn: "Nefndu mig ef þér liggur lítið á. ég heiti Trítill."
Síðan trítlaði hann í burtu og hvarf.
Karlsson heldur nú enn áfram þangað til hann kemur að hinum hólnum. Þá segir hann: "Hér hafa þeir bræður mínir hvílt sig; ég ætla að gjöra það líka."
Fer hann nú að éta; en á meðan hann er að því kemur dálítill karl til hans og biður hann um bita. Karlsson tekur því vel, biður hann að setjast hjá sér og éta með sér eins og hann vilji.
Þegar þeir eru búnir að éta nægju sína segir karlinn: "Nefndu mig ef þér liggur lítið á. ég heiti Lítill."
Síðan skondraði hann í burtu og hvarf.
Nú hélt karlsson áfram leiðar sinnar og kom í rjóðrið sem fyrr var nefnt. Þá segir hann: "Hér hafa þeir bræður mínir hvílt sig; ég ætla að gjöra það líka."
Settist hann nú niður og fór að éta. Þá kom til hans ógnastór fuglahópur og lét æði sultarlega. Hann molaði þá niður brauð milli handanna og kastaði ögnunum fyrir fuglana, en þeir tíndu þær upp og átu þær.
Þegar þeir voru búnir með brauðkornin segir einhver af fuglunum: "Nefndu okkur ef þér liggur lítið á og kallaðu okkur fuglana þína."
Síðan flugu þeir burtu og hurfu.
En karlsson hélt áfram leiðar sinnar þangað til hann kom loksins að hellinum eins og bræður hans höfðu gjört. Hann gekk þar inn og sá ekkert kvikt í hellinum, en lík bræðra sinna sá hann og voru þau hengd upp í hellisrjáfrið skammt fyrir innan dyrnar. Ekki þótti honum sjónin góð, en réð þó af að bíða hellisbúans.
Leið og skammt þangað til skessan stóra kom sem átti hellinn og fyrr er um getið. Karlsson biður hana að lofa sér að vera. Hún segir að það skuli hann fá ef hann gjöri það sem hún segi honum. Hann játar því og er nú í hellinum um nóttina.
Morguninn eftir segir skessan honum að moka hellinn, en verði hann ekki búinn að því að kvöldi þegar hún komi heim þá segist hún drepa hann. Síðan fór hún burt.
Karlsson þrífur nú rekuna og ætlar að fara að moka hellinn, en óðar en hann stingur rekunni niður verður hún blýföst við hellisgólfið svo hann getur ekki bifað henni.
Sér nú karlsson sitt óvænna og kallar nú upp í angist sinni: "Trítill minn, komdu hér."
Í sama bili kemur Trítill og spyr karlsson hvað hann vilji. Hinn segir honum hvar komið væri fyrir sér.
Þá segir Trítill: "Sting þú, páll, og moka þú, reka."
Fór þá pállinn að stinga, en rekan að moka, og var hellirinn á litlum tíma vel mokaður og tandurhreinn orðinn. Þá fór Trítill burt.
En um kvöldið kom skessan heim, og þegar hún sá hvar komið var segir hún við karlsson: "Ekki ertu einn í ráðum, karl, karl. Ég læt það svona vera."
Sváfu þau nú af um nóttina.
En um morguninn segir skessan honum að viðra rúmfötin sín, taka úr sængunum allt fiðrið og sóla það og láta það svo í sængurnar aftur. En vanti hann nokkra fjöður að kvöldi þá segist hún skuli drepa hann. Svo fór hún.
Karlsson breiðir nú rúmfötin út. Voru þrjár sængur í rúmi skessunnar, og af því að blæjalogn var og sólskin þá sprettir hann frá þeim og breiðir fiðrið sundur. En þegar hann varði minnst rak á hvirfilbyl svo mikinn að fiðrið þyrlaðist allt upp í loftið svo hann sá enga fjöður eftir.
Nú leist karlssyni illa á blikuna. Í þessum vandræðum kallar hann nú upp: "Trítill minn, Lítill minn og fuglar mínir allir, komið þið hér."
Þá komu þeir Trítill og Lítill og allur fuglahópurinn með allt saman fiðrið með sér. Hjálpuðu þeir Trítill og Lítill nú karlssyni til að láta fiðrið í sængurnar og sauma fyrir þær. Þeir tóku sína fjöður úr hverri sæng og bundu þær saman í knippi og sögðu karlssyni að ef skessan saknaði þeirra þá skyldi hann stinga því upp í nösina á henni. Síðan fóru þeir Trítill, Lítill og fuglarnir.
Þegar skessan kom heim um kvöldið hlammaði hún sér ofan á rúmið sitt svo fast að brakaði í öllum hellinum. Fer hún þá höndum um sængurnar og segir við karlsson að nú drepi hún hann því það vanti sína fjöður í hverja sæng. Tekur hann þá upp fjaðrirnar úr vasa sínum og rekur þær upp í nös kerlingar og segir henni að taka þá við þeim.
Skessan gjörði það og segir: "Ekki ertu einn í ráðum, karl, karl. Ég læt það svona vera."
Leið nú þessi nótt og var karlsson í hellinum hjá skessunni.
Um morguninn segir hún karlssyni að í dag eigi hann að slátra uxa sínum, sjóða slængið, raka húðina og smíða spæni úr hornunum og vera búinn að því öllu um kvöldið. Segist hún eiga fimmtíu uxa, en einn af þeim vilji hún láta drepa og hann verði sjálfur að segja sér hver hann sé.
"Ef þú verður búinn að öllu þessu í kvöld," segir kerling, "þá máttu fara hvert á land sem þú vilt á morgun fyrir mér og þar að auki kjósa þér í kaup hverja þá þrjá hluti sem þú vilt úr eigu minni. En verði nokkuð ógjört eða ef þú tekur rangan uxa þá drep ég þig."
Þegar skessan var búin að segja karlssyni þetta fór hún í burtu eins og hún var vön. En karlsson stóð nú eftir öldungis ráðalaus.
Þá kallar hann upp: "Trítill minn, Lítill minn, komið þið nú báðir."
Sér hann þá hvar karlarnir koma og leiða á milli sín ógnastóran uxa. Slátra þeir honum nú undireins. Að því búnu fer karlsson að sjóða slængið, Trítill sest við að raka skinnið, en Lítill að smíða spæni úr hornunum. Gekk verkið fljótt og var allt búið í tæka tíð.
Karlsson sagði þeim körlunum hverju skessan hefði lofað sér ef hann yrði búinn með verk sitt um kvöldið. Sögðu þá karlarnir að hann skyldi kjósa sér það sem væri fyrir ofan rúmið hennar, kistilinn sem hún hefði fyrir framan stokkinn hjá sér og það sem undir hellisveggnum stæði. Karlsson lofar því.
Fara nú karlarnir burt sinn veg og kvaddi karlsson þá með mestu virktum.
Um kvöldið þegar skessan kom heim og sá að karlsson hafði gjört allt eins og vera átti þá sagði hún: "Ekki ertu einn í ráðum, karl, karl. Ég læt það svona vera."
Sváfu þau nú um nóttina.
Um morguninn biður skessan nú karlsson að kjósa sér launin sem hún hafi heitið honum því nú sé honum frjálst að fara frá sér hvert sem hann vilji.
"Þá kýs ég," segir karlsson, "það sem er fyrir ofan rúmið þitt, kistilinn fyrir framan stokkinn hjá þér og það sem stendur undir hellisveggnum."
"Ekki ertu einn í ráðum, karl, karl," segir kerling. "Ég læt það svona vera."
Síðan greiðir hún honum kaupið. En það sem var fyrir ofan rúm skessunnar var týnda kóngsdóttirin. Kistillinn við stokkinn var geysistór kista full af gulli og gersemum. En það sem stóð undir hellisveggnum var haffært skip með rá og reiða og hafði það þá náttúru að það fór sjálft hvert sem maður vildi.
Þegar skessan hafði afhent karlssyni kaupið kvaddi hún hann og sagði hann mundi verða allramesti lánsmaður. Síðan fór hún burtu eins og hún var vön.
Karlsson bar nú kistuna á skipið og steig síðan sjálfur á það með kóngsdóttur. Vatt hann því næst segl upp og sigldi heim í ríki kóngsins, föður jungfrúarinnar. Færði hann kónginum dóttur sína og sagði honum allt af ferðum sínum. Undraðist kóngur mikillega ævintýri karlssonar, en fagnaði dóttur sinni svo sem von var.
Sló hann nú upp fagnaðarveislu móti dóttur sinni og frelsara hennar og lyktaðist veislan með brúðkaupi þeirra kóngsdóttur og karlssonar. Gjörðist karlsson fyrst landvarnarmaður og ráðanautur konungs; en eftir andlát tengdaföður síns erfði hann allt kóngsríkið og stýrði hann því síðan bæði lengi og vel til dánardægurs.
Og svo er sagan úti.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - desember 1998