DRAUGURINN   OG   TÓBAKSKYLLIRINN



Eitt sinn dó maður á bæ einum. Hann var tóbaksmaður og átti nokkuð eftir sig af skornu tóbaki í kylli.

Kerling var á bænum. Henni þótti gott að taka í nefið. Hún hirti kyllinn með tóbakinu í og um kvöldið þegar hún háttaði í rúmi sínu lét hún hann framan undir koddahornið hjá sér.

Hún sofnar skjótt og vaknar brátt við það að maðurinn dauði er þar kominn og er með hendinni að reyna að ná kyllinum undan koddahorninu.

Kerling lét sér ekki bilt við verða og mælti: "Aldrei skaltu tóbakið hafa, þú hefur nú ekkert með það að gjöra."

Við þetta hörfar hann frá en hún tekur kyllinn og stingur honum undir koddann fyrir ofan sig, snýr sér að vegg og fer að sofa.

En brátt vaknar hún aftur við það að hann er að fálma eftir kyllinum fyrir ofan hana og segir hún þá: "Ekki er þér leiklaust, snáfaðu burtu því aldrei skaltu kyllinum ná."

Rís hún þá upp, snýtir sér og tekur ríflega í nefið úr kyllinum, fer á fætur allsber og treður honum millum raftanna yfir rúminu svo hátt sem hún gat seilst en á meðan hverfur vofan.

Kerling leggst niður, snýr sér að stokk og sofnar lítinn dúr en sem hún vaknar sér hún að afturgangan stendur uppi á rúmstokknum og teygir sig upp í raftana.

Þá mælti kerling: "Gaman er að þér, strípalingur, en aldrei skaltu að heldur kyllinn hafa."

Bröltir hún þá á fætur og hrindir honum ofan af stokknum en tekur kyllinn og vel í nefið úr honum, leggst síðan niður að sofa og lætur hann undir handkrika sér og hvarf þá að öllu reimleikinn.


(J.Á.III. -- Smáfróði síra Benedikts á Brjánslæk.)


Netútgáfan - júlí 1997