Þrasi bjó í Eystriskógum, sumir segja á Þrasastöðum, skammt austur frá Skógafossi; Skógar eru nú austastur bær í Rangárvallasýslu. Þá bjó Loðmundur í Sólheimum, næsta bæ fyrir austan Sólheimasand, og voru þeir því nágrannar. Þeir Þrasi og Loðmundur voru báðir fjölkunnugir mjög.Á sú féll milli landa þeirra er Fúlilækur hét, en síðan Jökulsá á Sólheimasandi. Þessari á veittu þeir hver á annars land sem Landnáma segir; því hvorugur vildi hafa hana nærri sér. Af þessum veitingum og vatnagangi varð sandur graslaus sem Sólheimasandur heitir og sér þar enn marga farvegi sem áin hefur runnið um í það og það skiptið.
Loksins sáu þeir nágrannarnir landauðn þá sem af þessu varð. Svo hagar til að austan megin Jökulsár gengur háls einn í Sólheimaheiði frá fjallinu fram með ánni og heitir hann Loðmundarsæti; en vestan megin árinnar þar á móts við í neðanverðu Skógafjalli er kallaður Þrasaháls. Fellur svo áin úr gljúfrum milli þessara hálsa fram á sandinn.
Á þessum stöðvum segja menn að þeir Þrasi og Loðmundur hafi hafst við meðan þeir veittust vötnum á enda segir bæði Landnáma og munnmælin að þeir hafi sætst þar við gljúfrin á það að áin skyldi þaðan í frá renna þar um sandinn sem stytst væri til sjávar, og það varð.
En svo þykir sem allajafna sé öfugstreymi í á þessari og falli önnur bára að neðan, andstreymis, þegar hin fellur að ofan, forstreymis, og segir sagan að sú ónáttúra árinnar sé komin af viðureign þeirra Þrasa og Loðmundar.
Frá því hefur enn verið sagt um Þrasa að hann hafi komið kistu sinni fullri af gulli og gersemum undir Skógafoss og að fyrr meir hafi sést á annan kistugaflinn út undan fossinum.
Vísu kunna menn enn sem einhvern tíma hefur verið kveðin um þetta og er hún þannig:
- "Þrasakista auðug er
- undir fossi Skóga,
- hver sem þangað fyrstur fer
- finnur auðlegð nóga."
Svo er sagt að einhverju sinni hafi verið þrír menn í Skógum og hafi þeir verið synir Ámunda Þormóðssonar lögréttumanns (1639-1671 eða lengur). Þeir ætluðu að ná Þrasakistu undan fossinum. Varð þeim þá litið heim til bæjarins og sýndist þeim hann standa í björtu báli og sneru við það heim; en þar var reyndar enginn voði á ferðum.
Seinna fóru þeir aftur og ætluðu að ná kistunni og létu engar missýningar tæla sig. Komust þeir þá svo langt að þeir gátu krækt í hring sem var í kistugaflinum sem á sást. En þegar þeir ætluðu að draga að sér kistuna kipptist hringurinn úr gaflinum og höfðu þeir svo ekki meira af kistunni. Sagt er að sá hringur sé nú í kirkjuhurðinni í Skógum.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - júlí 1998