Í Þjóðólfshaga í Holtum bjó bóndi sá er Jón hét Einarsson (faðir hans bjó þar og á undan honum) og kona hans er hét Kristín Gunnlaugsdóttir í Múlakoti Sigurðssonar og Sigríðar Ólafsdóttir frá Múlakoti Gíslasonar og Jóhönnu Maríu.Þar í Þjóðólfshaga eru hellrar margir. Einn af þeim heitir Heyhellir, fyrir framan bæinn og undir bænum. Tekur hann nafn af því að hey er í honum haft. Þar setti Kristín upp sauðamjólk sína og eftirmjöltina í skál þar í hellinum.
Það bar til nýlundu um sumarið að eftirmjöltin hvarf úr skálinni. Eignaði húsmóðirin þar það húsfólki sínu. Svo var hellinum læst og fór allt á sömu leið.
Um sumarið andaðist Sigríður Ólafsdóttir móðir hennar. Lét þá Kristín ofurlítið af hverjum rétti í skálina og hvarf það eins og mjólkin. Eftir það fór hún að láta flóaða mjólk og fór svo fram um sumarið.
En um haustið lá silfurskeið ákaflega falleg í skálinni. Eftir það hætti mjólk að hverfa. Gamli Magnús sem mér sagði sögu þessa og þar var þá unglingspiltur, sá skeiðina og dáist að henni og fegurð hennar.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - febrúar 2000