ÞEGIÐU, HÚN  MÓÐIR  MÍN  GAF  MÉR  HANN



Einu sinni var öldruð kona; hún átti son einn sem var mathákur mikill. Þegar hann var vel upp kominn og orðinn fulltíða maður fór kerlingin að fara þess á leit við hann að hann skyldi staðfesta ráð sitt. Sonur hennar tók því ekki fjarri og spurði hvar hún hygði sér helst reynandi að biðja sér konu. Hún vísaði honum þar á sem henni þótti líklegast, en segir við hann að hann skuli nú bera sig að sitja á sér að borða mikið því hún ætlaði honum að vera hjá brúðarefninu um nóttina, en til vonar og vara fær hún honum hálfan ost til að grípa í í muddum þegar enginn sæi ef hann þættist ekki hafa borðað nóg.

Nú fer maðurinn á bæinn sem móðir hans hafði til tekið, ber upp bónorð sitt og er honum heitið stúlkunni. Síðan er hann þar um nóttina og er hann látinn sofa einn í herbergi.

Um nóttina rís hann upp og hleypur í ostinn því hann hafði borðað lítið um kvöldið og var því orðinn glorhungraður. Síðan leggst hann út af aftur, en stingur því sem hann átti eftir af ostinum undir koddabrúnina sína.

Þegar hann vaknar um morguninn verður hann þess var að kafaldsbylur er úti; hugsar hann þá með sér að hann skuli borða við ókomnu hungri því þarna muni hann mega hírast í dag.

Fer hann þá til og nagar ostinn slíkt sem af tekur. En á meðan hann er að því kemur heitmey hans inn til hans og býður honum góðan daginn; hún hafði verið snemma á fótum um morguninn við útigegningar og segir því við hann:

"Hart bítur hann núna, hann hvítur."

Maðurinn hélt að hún hefði séð ostinn er hann stakk niður undir hjá sér þegar hún kom inn og hefði verið að skensa sig fyrir það og segir því: "Þegiðu, hún móðir mín gaf mér hann," og sýnir henni ostbitann um leið sem eftir var svo hún skyldi ekki halda að hann væri að fela hann eins og hann væri sér ófrjáls.

En stúlkan fyrtist svo við þessar aðfarir hans allar að hún bað hann að hugsa ekki til ráðahags við sig.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - mars 1999