Konungur nokkur og drottning áttu son er Þorsteinn nefndist. Hann var snemma mikill vexti og gjörvuglegur, líka unnu honum allir hugástum sökum góðsemi hans og örlyndis. En rausn hans þótti þó fram úr hófi keyra, hvers vegna móðir hans tíðum ávítaði hann fyrir útbruðlan sína og reisti sem sterkastar skorður við að hann gæti það ekki; samt hélt hann áfram viðteknum hætti, að svo miklu leyti honum var mögulegt.Þegar móðir hans dó hugsaði hann að nú mætti hann gefa og þótti vænt um það. Hann hugði að faðir sinn væri samþykkur ráðlagi sínu þar hann aldrei hefði fundið að breytni sinni. Þetta reyndist samt annan veg því nú tók hann við þar sem móðir hans hætti. Hann leitaðist við að leiða honum fyrir sjónir að þvílíkt væri öldungis óheyrilegt og að hann kollvarpaði sjálfum sér þannig.
Ekki dugðu ráðin heldur, hugur hans breyttist ekki og þar kom að að faðir hans andaðist. Þá hugði hann gott til; fyllti hann nú hönd sérhvers sem hana vildi að honum rétta. Urðu þær þá ærið margar svo engir fjársjóðir gátu staðist.
Án þess að fara fleiri orðum um þetta þá eyddust allar eigur hans svo ekki var eftir nema ríkið; vildi hann nú gjarna útvega sér kaupanda að því til að geta fengið annað smærra og hentugra til að útbýta. Hann fékk líka kaupanda og var honum í gulli og silfri gefið fyrir það hér um bil baggar á hest.
Þegar hann var búinn að semja kaup þessi fóru hans fornvinir að snúa við honum bakinu þar þeir þóttust [sjá] og sáu að þeir vóru búnir að svæla til sín það sem unnt var. Nú sá hann í hvílíkt óefni komið var og hugði nú að yfirgefa þvílíka menn.
Leggur hann á stað með þessar litlu gersemar sínar sem hann flutti á einum hesti, en reið Rauð sínum; þessum hesti hafði hann aldrei viljað farga sökum kosta hans þó ei sé um þá getið í sögu þessari. Ferðast hann nú um hrjóstruga og óbyggða staði og veit ei hvert hann heldur. Hlýtur hann að láta grípa niður þar sem hann sá grastopp því þeir voru harla fáir.
Einhverju sinni þegar hann áði var hann mjög hryggur og þótti líklegast að á þessari ferð sinni mundi hann lífi týna, hugði samt að ei tjáði annað en halda áfram hvað sem svo vætti.
Á þessum áfanga finnur hann bæ einn og þar hann var feginn mannafundi þá beiðist hann þar gistingar og hana fær hann fúslega. Er honum veittur góður beini og sefur hann af um nóttina.
En þegar hann vaknar um morguninn er hver maður burtu úr bænum. Verður hann þá hræddur og hyggur að eitthvað muni búa undir þessu, flýtir sér í fötin og hleypur út. Sér hann þá hvar bóndi er með hyski sínu að berja utan hól einn. Hann spyr hvar fyrir hann láti svo fávíslega. Bóndi svarar að öll von sé til þessa því hér sé grafinn sá maður sem hafi verið sér skuldugur um 200 rd. og hafi hann ekki borgað þá.
Konungsson leitast við að sýna honum að ekki fái hann (bóndi) fé sitt fyrir þetta, heldur eyði hann ef til vilji meiru með þessum hætti. Bóndi segir að það hugsi hann ekki um, einungis vilji hann ekki láta þann andaða hafa næði eða ró í gröf sinni og kveðst muni þessum hætti áfram halda meðan hann sé uppi.
Þá spyr kóngsson hvert hann taki ekki gilt að borgað sé fyrir hann; játar bóndi því og fær svo gjaldið frá konungssyni. Síðan biður konungssonur hann að segja sér þann veg er hann skuli halda svo sér gangi för sín vel til einhvers þess staðar hvar menn séu margir og byggð megi heita.
Þetta gjörir bóndi og segir honum að þegar hann hafi nokkra stund haldið þann veg er beint liggi frá bæ sínum þá muni hann koma á vegamót, liggi þá önnur gatan til austurs, en hin til vesturs; skuli hann muna sig um það að fara ekki þá er til austurs liggi, heldur hina. Þessu játar kóngsson og leggur síðan á stað.
Kemur hann á leið sinni þangað hvar vegirnir skilja og heldur nú strax eftir þeim er til vesturs liggur, en er hann hefur nokkra stund eftir honum farið fer hann að hugsa um að gaman væri að vita hvert nokkuð væri að óttast ef hann hefði farið hina leiðina. Því næst snýr hann við og heldur nú fyrst þangað er vegirnir mættust og síðan áfram austur eftir þangað til hann kemur að stórkostlegum bæ sem umgirtur var á alla vegu, bæði af landslaginu og með mannahöndum.
Þar lá samt að einstigi eitt; skilur hann þar eftir hestana og kemst inn í bæinn; var hann mjög reisuglegur. Gengur hann því næst í hús eitt; voru þar sjö rúm inni, öll mjög stórkostleg, en þó bar eitt einkum af. Borð stóð eftir endilöngu húsinu á miðju gólfi og voru diskar á borðinu. Hann verður ekki var við nokkurn mann í bænum.
Nú fer hann að sjá um hesta sína því hér vildi hann láta fyrirberast þó óttalegt væri, og einnig kom hann fyrir því er hann hafði meðferðis, nema sverð sitt sem hann hélt upp á eins og klárinn Rauð, það hafði hann hjá sér.
Þá hann hafði aflokið þessu fer hann að bænum aftur og gengur inn í hann. Fer hann nú um þau hús er hann gat í komist. Hann finnur matvæli í einu, þar af tekur hann og lætur ríflegan skammt á hvern disk, og svo býr hann um öll rúmin. Þó hann þættist nú vera búinn að gjöra vel fyrir sér þá þorir hann samt ekki að vera á almannafæri, heldur leitast við að komast í skúmaskot og getur troðið sér milli þilja.
Þá lítill tími var liðinn heyrir hann dunur miklar, og strax er gengið inn í húsið, og að nokkrir segja: "Hér er einhver kominn, honum skulum við stytta stundir."
Þá segir einn: "Ekki skal það vera því ég tek hann í mína vernd; ég á svo mikið með að ég get ráðið lífi eins manns. Hann hefur að fyrra bragði gjört okkur greiða, búið upp rúm og borið mat á borð og vel að öllu farið. Ef hann kemur í ljós þá skal honum ekkert mein verða gjört."
Við þessi orð hresstist konungssonur og gaf sig í ljós. Þótti honum piltarnir allir vera stórvaxnir og líkari tröllum en mönnum, einkum var fyrirliðinn frábær jötunn. Var hann hjá þeim um nóttina.
Morguninn eftir biðja þeir hann fyrir að vera hjá sér eina viku, skuli hann ekki hafa annars að gæta en matreiða og búa um þá. Lofaði konungssonur að svo skyldi vera og þótti þeim honum þenna tíma allt vel farast, hvers vegna þeir þrábændu hann um að verða hjá sér eitt ár og því lofaði hann þó honum þætti heldur dauflegt. Lofaði hinn stóri raumur honum mjög miklu kaupi. Því næst fekk hann konungssyni alla lykla nema einn sem stóri karlinn bar í festi um hálsinn, svo hann gekk á daginn um öll hús nema að hann komst aldrei í það eina því enginn lykill gekk að því og hann gat ekki heldur stungið það upp, en hann tók eftir því að stóri (stærsti) risinn gekk þar inn á hverju kvöldi og morgni.
Þegar hann hafði lengi nokkuð hjá þeim verið fer hann að spyrja stóra jötuninn hvers vegna hann hafi fengið sér lyklana að öllum húsum nema því eina, segir að hann megi vita að eins og hann sé trúr yfir því sem hann hafi umsjón um, eins mundi hann líka verða yfir því eina húsi. Hinn svarar að þar sé ekkert í og megi hann vita það því hann sjái að hann hafi trúað honum fyrir því sem mikið sé í varið.
Konungsson verður svo þarna hjá þeim í fjögur ár og fær ærna kaup, en er nú hættur að tala um húsið, og það ásamt öðru gjörir hann mjög vel þokkaðan hjá þeim. Hefur hann samt einlægt í huga að bera sig að komast eftir hvert ekkert væri inni, en sá sér ekkert færi gefast.
Einu sinni að morgni dags er hann að hugsa um þetta. Tekur hann það fyrir að hann ber að dyrum, hleypur síðan inn sem væri hann lafhræddur, með kökudeig í höndunum sem hann var að hnoða og spyr þá hvert þeir hafi heyrt nokkuð; þeir kváðu svo vera og sögðust hafa ímyndað sér að hann væri sá er barið hefði. Hann kvað það fjærri fara og kvaðst ekki hafa þorað að koma út. Þeir sögðu að það hefði hann betur gjört.
Ruddust þeir nú upp úr rúmum sínum og hlupu út hálfklæddir. Hafði foringinn skilið eftir lykilinn að húsinu og markaði konungsson með honum deigið. Þeir komu síðan inn verri en sneyptir því þeir höfðu ekkert séð, og báru það á hann að hann hefði gjört þetta, en hann kvað það öldungis ekki svo verið hafa, heldur hefði það þá orðið að vera einhver andi. Var svo þessu máli sleppt.
Nú tók hann á daginn að bera sig að búa til lykil og það tókst honum loksins. Komst hann þá inn í húsið, en þar var níðamyrkur og engin smuga hvar um skíma gat fengist svo hann kveikir ljós og gengur inn.
Sér hann þá að þar er mey ein fest upp á hárinu. Verður honum það fyrst fyrir að leysa hana ofan. Spyr hann hana síðan um ætt hennar og uppruna; fær hann að vita að hún er konungsdóttir; hafði jötunninn stolið henni og vildi þröngva henni til að eiga sig, en það vildi hún fyrir hvern mun ekki svo hann kvaldi hana þannig. Var hún nú ekkert að kalla nema beinin því jötunninn hafði einnig svelt hana.
Konungssonur gefur henni nú strax að borða, en áður en kvöld kom þá festi hann hana eins aftur svo ekki bar neitt á neinu. Síðan leysti konungsson stúlkuna niður á hverjum degi og gaf henni nóg að eta, en gætti þess ætíð að festa hana áður en risarnir komu heim.
Þegar nú fimmta árið var liðið kveðst hann endilega ætla í burt, en það vildu þeir fyrir hvern mun ekki. Segir hann stóra karlinum þá að ef hann vilji hann sé hjá þeim þá verði hann að gefa sér í kaupið það sem sé í læsta húsinu sem hann komi aldrei inn í. Jötunninn ræður honum frá að biðja um það sem ekkert sé og segir honum sé mikið betra að fá kaup sitt. Konungsson segir það verði að vera sitt notagjald og þangað til eru þeir að þrátta að risinn heitir þessu.
Hvernig konungsson fór með mærina þetta árið, því þarf ekki að lýsa. En þegar árið var liðið þá lýkur risinn upp húsinu, því konungssonur var ófáanlegur til að dvelja lengur, og kemur með mærina og þykir hún vera feitari en hann átti von á, lætur það samt vera, en segir hann skuli taka við henni.
Býr konungsson sig nú á stað, tekur Rauð sinn og hinn hestinn, því hann hafði einlægt gætt þeirra, einnig farangur sinn sem vegna kaupsins var svo mikill að hann ætlaði ekki með að komast. Hún segir honum að hann verði að vera var um sig því nú muni þeir ætla að drepa hann á ferðinni, svo hann hefur við höndina sverðið sitt góða og þau hertygi sem hann hafði.
Svo fór sem hún gat. Þegar þau voru komin spölkorn þá komu þrír til þeirra og óðu að honum, en hann varðist drengilega og svo lauk að hann felldi þá. Því næst kastar hann mæði, en ekki var langt að bíða þangað til tveir koma. Fellir hann þá báða, en nú vóru eftir stóri risinn og bróðir hans.
Koma þeir nú allt í einu; sækja þeir þegar að honum, en hann getur drepið bróðir stóra jötunsins. Verður hann þá hamslaus og veður að konungssyni svo þeir takast fangbrögðum. Hafði konungssonur þá ekkert við og féll hann þá, en risinn á hann ofan.
Kóngsdóttir sem hjá hafði staðið, þegar hún sá að í óefni var komið, grípur sax sem einhver risanna hafði brúkað og leggur jötuninn í gegn með því, hjálpar konungssyni síðan til að velta honum ofan af sér.
Eftir allt þetta treystust þau ekki til að halda áfram, heldur snúa heim aftur, og þó þau ekki kunni við sig þá vilja þau samt bíða þarna og vita hvert ekkert skip muni að koma, því þetta var nærri sjó, svo þau geti komið sem mestu af eigunum með sér.
Þegar þau höfðu þarna verið nokkra stund kom þangað skip; hittu þau þá menn að máli. Hét sá Rauður er fyrir var og var hann ráðgjafi konungs föður mærinnar. Hafði konungur heitið honum dóttur sinni ef hann næði henni og kæmi með hana.
Nú voru allar eigurnar bornar á skip og síðan er þau voru tilbúin stigu þau á skip og því næst hélt það frá landi. En er það var komið á haf út lét Rauður skjóta út báti einum og setja konungsson á hann aleinan, en lét skipverja alla vinna þann eið að geta ekki um þetta, en segja að hann hefði sjálfur drepið risana, en hana gat hann ekki fengið til þessa.
Það er að segja af konungssyni að þegar báturinn fór að veltast í bylgjunum áralaus og allslaus þá varð Þorsteinn (konungssonur) mjög hræddur, en þá heyrði hann rödd er sagði: "Þó að þú hrekist í bylgjunum þá kom þú til mín."
Síðan tók báturinn að ganga og varð eins fljótur að landi þar sem faðir mærinnar var konungur, en lenti þó ekki á sama stað og skipið. Sá er bátnum kom að landi var sá sem Þorsteinn hafði borgað bóndanum fyrir þá 200 dali. Hann sagði Þorsteini að hann mundi verða hestasmali konungs og skyldi hann gæta þeirra rauðu og eiga það sem hann mundi finna undir stalli þeirra. Hann hafði látið flytja Rauð sinn á skipinu og komst hann í tölu hinna rauðu hesta konungsins. Gat enginn náð honum nema Þorsteinn og konungsdóttir þegar hann var ekki við.
Rauður átti nú að eignast konungsdóttir, en hún vildi ekki og bað að hestasmalinn mætti segja ævisögu sína. Leyfði konungur það. Kom þá upp hið sanna; var þá Rauður drepinn, en hinir kvaldir sem svarið höfðu, en konungur gaf dóttur sína Þorsteini, og varð hann þarna konungur. Varð hann nú allur annar en hann hafði verið og unntust þau vel.
Undir stallinum fann hann gersemar.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - janúar 1999