FRÁ  ÞORGEIRSBOLA



Í Vestur-Þingeyjarsýslu voru þrír óvættir: Mývatns-Skotta, Húsavíkur-Lalli og Þorgeirsboli (Fnjóskadalsboli).

Húsavíkur-Lalli var danskur draugur með útlendu sniði á sér og í mesta vinfengi við Mývatns-Skottu; stundum sást og Þorgeirsboli í för með þeim. Eitt sinn sáust þau öll fara eftir Fnjóská endilangri á ís á þann hátt að boli ók Skottu og Lalla á húðinni af sjálfum sér.

Engi voru þau sérlega grimm eða mannskæð, eu boli lagðist á kýr og drap þær; var honum jafnan kennt ef kýr kvilluðust. Hann brást í ýmsar myndir og er sagt að eitt sinn hafi hann teygt sig svo mikið að hann hafi litið út eins og þokubelti í fjallahlíðum.

Þá átti Þorgeir á Vegeirsstöðum í Fnjóskadal, faðir bola, að hafa sagt: "Bölvuð fari á þér lengdin!"

Sumir segja að Þorgeir hafi gjört hann úr herðablaði af nauti; aðrir segja að hann hafi magnað kálf. Hann fylgdi Þorgeiri og hans ættmönnum og áður en þeir komu á bæi sást hann og heyrðist til hans.

Sögumaður minn, Benjamín Pálsson, segist sjálfur hafa heyrt hann og séð á undan konu Steffáns bróður Þorgeirs.

Benjamín bjó í Víðigerði fyrir ofan Espihól í Eyjafirði. Hann heyjaði yfir í Munkaþverárengi austan árinnar or flutti heyferð á koldimmu haustkveldi heim til sín.

Leið hans lá um lág, svokallaða Pálslág; þar var heimaengi hans. Benjamín sér rétt fram undan sér einhvern stórgrip og kom fyrst til hugar að þar væri hross eitt sem vant var að sækja í engið, en sér að það var í nautsmynd og í sama bili frýsar og fælist hesturinn sem hann reið á, en gjörði það hvorki fyr né síðar; heyhesturinn kippti í tauminn svo fast að hann stökk af baki. en þegar hann leit upp aftur sá hann ekkert.

En heima hjá honum var kominn Steffán bróðir Þorgeirs.

Annað sinn var Benjamín á ferð á glóbjartri haustnóttu skammt frá bæ sínum. Hann nemur staðar á einum mel og heyrir nautsöskur allmikið og heyrist honum það vera rétt hjá sér. Hann skyggnist um og sér ekkert, en sá þó mjög víða yfir af hólnum, og í sama bili heyrir hann annað öskur þaðan af meira rétt hjá sér; en ekkert sér hann.

En þegar hann kom heim var Steffán kominn.

Ótal slík dæmi mætti finna um Þorgeirsbola.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - maí 2001