SÝSLUMANNSKONAN   Á   BURSTARFELLI



Að Burstarfelli í Vopnafirði var einu sinni sýslumaður, ríkur og stórættaður. Hann var kvongaður og átti rausnarbú mikið.

Sá var siður á Burstarfelli að fólk lagðist til svefns á vetrum áður en ljós var kveikt í baðstofu og réð konan sýslumannsins því allténd hvað lengi var sofið. Kveikti hún sjálf ljós og vakti fólkið.

Það var einhverju sinni að konan vaknar ekki sem hún var vön og fer vinnufólkið á fætur og kveikir. Vill ekki sýslumaður láta vekja hana. Segir hann að hana muni dreyma og skuli hún njóta draumsins.

Og er langt er liðið á nótt vaknar hún loksins og varpar allmæðulega öndinni. Segir hún þá draum sinn að henni þyki maður hafa komið að sér og beðið sig upp standa og fara með sér. Hún gjörir það og fer hann með hana nokkuð frá bænum og að steini einum stórum sem stóð í landeign Burstarfells og hún þekkti.

Maðurinn gengur þrisvar réttsælis í kringum steininn og sýnist þá konunni hann verða að litlu en skrautlegu húsi. Leiðir hann svo konuna inn í húsið og er þar allt fagurlega umbúið. Þar sér hún, að kona liggur á gólfi og er mjög þunglega haldin. Kerling ein var og í húsinu og ekki fleira manna.

Maðurinn bar þá upp erindið við konu sýslumannsins og biður hana bjarga konu sinni sem liggi á gólfi og muni deyja nema hún njóti að fulltingis mennskra manna. Sýslumannskonan gengur þá að sængurkonunni og segir: "Jesús góður hjálpi þér." Við þessi orð brá svo að konan verður bráðum léttari og aflar það þeim öllum hinnar mestu gleði.

Það sér sýslumannskonan að eftir það hún nefndi Jesúnafn, skreiðist kerlingin ofan og sópar sem vandlegast innan allt eldhúsið og ímyndar sýslumannskonan sér að kerlingu hafi lítið þótt hreinkast híbýlin við það nafn. Nú er tekið til að lauga barnið og skal sýslumannskonan vera fyrir þeim starfa. Fær sængurkonan henni bauk með smyrslum í sem hún á að bera í augu barnsins um leið og hún laugar. Þetta gjörir sýslumannskonan og ætlar að smyrsl þessi muni heilnæm.

Dettur henni í hug að bera þau í augu sér en þorir það þó ekki fyrir fólkinu. Þó getur hún með lagi og svo enginn sá brugðið fingurgómnum í hægra auga sitt. Er svo lokið lauganinni og býst sýslumannskonan til heimferðar. En að skilnaði gefur sængurkonan henni dúk mjög dýran. Var hann úr guðvef og allur gullofinn.

Gengur svo maðurinn með sýslumannskonunni út úr húsinu og er þau koma út gengur hann þrisvar rangsælis í kringum húsið og verður það þá aftur að steini. Fylgir hann konunni síðan aftur heim að Burstarfelli og skilur þar við hana.

Tekur nú sýslumannskonan dúkinn undan höfði sér og sýnir til jarteikna um sögu sína. Þóttist enginn slíkan grip séð hafa af samri tegund og er svo sagt að dúkur þessi sé enn hafður að altarisklæði við kirkju þá sem Burstarfell á kirkjusókn að.

En frá sýslumannskonunni er það að segja að hún fann þá breytingu á hægra auga sínu, sem hún hafði borið smyrslin í, að nú sá hún með því allt sem skeði bæði í jörðu og á.

Er svo sagt að nálægt Burstarfelli séu klappir miklar og björg stór. Sá nú sýslumannskonan að þetta var raunar öðruvísi en sýndist og að þetta var allt bæir, hús og þorp stór. Var það allt fullt af fólki sem hafði allt atferli sem annað fólk, sló og rakaði og yrkti tún og engjar. Það átti naut, sauði og hesta, sem allt gekk innan um annan búsmala, og eins fólkið, það gekk með öðru fólki og vann það sem því sýndist. En enginn sá það nema sýslumannskonan.

Tók hún eftir því að þetta fólk var miklu verkhyggnara og veðurgleggra en annað fólk. Breiddi það oft hey þegar ekki var þerrir og stundum breiddi það ekki þó á væri brakandi þerrir. Tók sýslumannskonan eftir því að þá kom ætíð þerrir þegar það breiddi en rigning ef það breiddi ekki en aðrir breiddu og svo var um annan verknað.

Tók sýslumannskonan mjög eftir því búnað og verklag og þótti henni sér það allt að góðu verða. Liðu svo fram nokkrir tímar.

Það var einhverju sinni að sýslumannskonan kemur í kaupstað. Og er hún kemur í krambúð sér hún að kona sú er hún sat yfir forðum er fyrir innan búðarborðið. Hefur hún tínt saman og hlaðið í fang sér ýmislegu sem fágætast var af kramvöru hjá kaupmönnum. Það sér sýslumannskonan að enginn verður var við konu þessa nema hún. Hún gengur því að borðinu og segir mjög vingjarnlega: "Og við sjáumst þá hérna aftur." Huldukonan snýr sér við mjög reiðilega og hrækir í hægra augað á sýslumannskonunni án þess að segja nokkuð. En svo brá við að sýslumannskonan sá ekki huldukonuna upp frá því og ekkert framar en hún hafði séð áður en hún bar smyrsl í hægra augað á sér.


(J.Á.I. -- Handrit Jóns alþingismanns Sigurðssonar á Gautlöndum.)


Netútgáfan - júní 1997