Norður í Þingeyjarsýslu hvarf eitt sinn drengur á fjórða árinu. En að viku liðinni fannst hann undir háum klettum er voru í nánd við bæinn. Voru þá þrjú fingraför á kinn hans.En er hann var spurður hvar hann hefði dvalið sagðist hann hafa verið á bænum þarna og benti þeim þar á er þeim virtust vera klettar einir. Sagði hann að þar byggi álfafólk og hefði það viljað heilla sig en hann sagðist ekki hafa getað borðað hjá því því allur matur hefði sér sýnst maðkaður. Hefði það þá séð að ekki hefði orðið um sig tætt og hefði því gömul kona leitt sig brott og sagt að hann skyldi þó bera þess menjar að hann hefði dvalið hjá álfafólki, slegið sig kinnhest og gengið síðan burt.
Eftir þetta ólst drengurinn upp, mannaðist vel og varð merkisbóndi. Eitt sinn reið hann, er hann var orðinn gamall maður, fram hjá klettum þeim er hann fannst undir og kvað hann þá vísu þessa:
- Þessar klappir þekkti ég fyrr,
- þegar ég var ungur.
- Átti ég víða á þeim dyr,
- eru þar skápar fallegir.
Netútgáfan - júní 1997