Í fyrndinni voru roskin og ráðsett efnahjón sem áttu eina dóttur barna. Var hún fríð og fönguleg stúlka og urðu margir til að biðja hennar en hún hafnaði þeim öllum. Loks kom sóknarpresturinn, ungur efnismaður, og leitaði ráðahags við hana. Voru foreldrar stúlkunnar ráðsins mjög fýsandi en hún sjálf alveg ófáanleg til að gefa jáyrði sitt. Þá spurðu gömlu hjónin hana hvernig á því gæti staðið að hún hafnaði svo glæsilegu gjaforði en hún svaraði að það væri sú skelfilega þjáning að ala börn að hún mætti eigi til þess hugsa hvað sem í boði væri."Ráð er við því, dóttir góð," mælti gamla konan. Opnaði hún síðan fatakistu sína, dró upp svart pils og fékk það dóttur sinni.
"Ef þú ferð í pils þetta innst klæða," hélt hún áfram, "og ferð aldrei úr því aftur, hvorki á degi né nóttu, þá mun jóðsótt aldrei þjá þig."
Stóð þá eigi lengur á samþykki stúlkunnar og giftist hún prestinum. Búnaðist þeim hjónum vel því að prestkonan reyndist dugleg og hagsýn og virtist hverjum manni vel.
Liðu svo nokkur ár að hagur prestshjónanna stóð með miklum blóma en engin börn eignuðust þau. Voru þó samfarir þeirra hinar ástúðlegustu. Prestur hafði óljósan grun um að svarta pilsið konunnar hans væri engin happaflík og bað hana bæði með góðu og illu að fara úr því, en þótt konan væri eftirlát og auðsveip manni sínum í öllu öðru var hún ófáanleg að þægja honum í þessu og sat fast við sinn keip. Tók prestur sér þetta mjög nærri en fékk eigi að gert.
Það var eitt sumar, daginn fyrir Jónsmessu, að æskuvinur og skólabróðir prests úr öðrum landsfjórðungi kom í heimsókn til hans. Var hann fróðleiksmaður og kunni ýmislegt fyrir sér. Tóku prestshjónin honum tveim höndum og höfðu þeir vinirnir margs að minnast og margt hvor öðrum í fréttum að segja. Meðal annars spurði gesturinn að börnum prests en hann varð daufur við og kvaðst engin eiga. Vinur hans kvað það mikið mein að svo myndarleg hjón ættu engin afkvæmi og spurði hvort hann gæti hugsað sér nokkra sennilega ástæðu til þess. Trúði prestur honum þá fyrir því að kona hans væri í svörtu pilsi næst sér jafnt á degi sem nóttu og fengist ekki með nokkru móti til að fara úr því.
Þá varð vinur hans hugsi, þagði um stund og mælti síðan: "Reynt get ég að kippa þessu í lag svo ykkur verði báðum til góðs. Nú fer heilög Jónsmessunótt í hönd en um lágnættið skalt þú syngja aftansöng í kirkjunni og kona þín og ég ein manna. Skulum við þá sjá hvernig um kann að skipast."
Prestur féllst á þetta og um kvöldið stungu þeir upp á því við prestskonuna að hún gengi með þeim út í kirkju til aftansöngs. Hún kvaðst þess albúin og undir lágnættið gengu þau þrjú í kirkju. Fór prestur fyrir altarið en þau prestskonan og gesturinn tóku sér sæti sitt hvorum megin við það. Hófu þau svo sönginn og drógu eigi af.
Að nokkurri stundu liðinni kom lítill drengur inn eftir kirkjugólfinu, gekk að hnjám prestskonunnar, leit á hana sorgmæddum álösunaraugum og mælti: "Illa gerðir þú, móðir mín, að varna mér lífs. Ég átti að verða biskup." Svo hvarf hann aftur fram kirkjugólfið. Prestskonunni varð afar hverft við þetta og fölnaði upp en þó hélt hún söngnum áfram.
Stundu síðar kom annar drengur að hnjám hennar og mælti: "Illa gerðir þú, móðir mín, að varna mér lífs. Ég átti að verða sýslumaður." Svo hvarf hann aftur fram í kirkjuna. Í þetta skipti varð prestskonunni ennþá meira bilt en áður svo að hún svitnaði og skalf en með herkjum gat hún þó haldið söngnum áfram.
En þá kom lítil stúlka að hnjám hennar og mælti bljúgri barnsröddu: "Illa gerðir þú, móðir mín, að varna mér lífs. Ég átti að verða prestskona." Þá stóðst prestskonan ekki mátið og hné í ómegin niður úr sætinu um leið og stúlkan hvarf frá henni. Í sama bili stukku þeir að, prestur og vinur hans, sviptu af prestskonunni svarta pilsinu í einu vetfangi, báru hana sjálfa inn í bæ til rúms síns en pilsið brenndu þeir til ösku.
Eigi er þess getið að prestskonunni yrði meira um atburð þennan en orðið var en það var eins og fargi væri létt af prestinum og var hann vini sínum mjög þakklátur. Svo var sem lánið léki við prestshjónin upp frá þessu. Þau eignuðust þrjú börn, hvert öðru efnilegra, tvo syni og eina dóttur. Eldri sonur þeirra varð síðar biskup, yngri sonurinn sýslumaður og dóttirin prestskona.
Netútgáfan - september 1997