SÉRA  JÓHANN  Á  SVALBARÐI



Eitt sinn bjó prestur á Sauðanesi. Hann átti ungan son sem Jóhann hét. Hann var eitt sinn með öðrum börnum í berjamó þar hjá túninu, og sem þau eru að tína berin mælti Jóhann til hinna barnanna: "Sjáið, þarna í mónum eru þá mörg börn að tína ber."

Síðan hleypur Jóhann á fund þeirra ásjáandi hinum börnunum, en sem hann er kominn til þeirra þá hverfa þau öll svo heimabörnin sjá þau ekki framar. Þau hlaupa heim og segja atburðinn. Þetta var á laugardag og var presturinn ekki heima, faðir Jóhanns. Varð því ekki af leit um kvöldið, en snemma á sunnudagsmorgun kemur prestur heim og er honum sagt hvarf sonar síns.

Hann lætur sér fátt um finnast og kvað hann ei langt burtu. Margt fólk var komið til kirkju og fer prestur að embætta, og sem hann stígur í stólinn víkur hann ræðunni til sonar síns og særir það huldufólk sem haldi honum að láta hann lausan. Og sem hann er um þetta að tala kemur Jóhann litli hlaupandi ofan af holtinu fyrir ofan túnið. Sjá menn að blá er önnur kinnin á honum og spyrja hverju gegni þessu og hvarfi hans.

Drengur mælti að upp á holtinu þar sem stóru steinarnir standa sé kirkjustaður og hafi presturinn þar verið að messa; en hann kvaðst hafa verið inn í bæ hjá prestkonunni.

Þá hafi hún sagt við dreng: "Ég get ei lengur haldið þér sökum föður þíns." Síðan rak hún honum löðrung og mælti: "Ég vona þú verðir af þessu auðþekktur!" Varð þá blá kinnin á honum.

Síðar varð Jóhann prestur að Svalbarði og ætíð er hann kom að Sauðanesi hvarf hann upp á holtið fyrir ofan bæinn og var þar oft nætursakir. Höfðu menn fulla trú á að hann ætti þar góða kunningja.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - apríl 2000