STURLUHLAUP



Hlaup það úr Kötlu sem kallað hefur verið Sturluhlaup og varð 1311 er eitt af hinum mestu og skæðustu Kötlugosum.

Þá bjó í Lágey bóndi sá er Sturla hét Arngrímsson. Var þá mikil byggð á Mýrdalssandi er öll fór af í hlaupi þessu og kallaðist Lágeyjarhverfi.

Þorláksmessukvöld fyrir jól var Sturla uppi á skemmulofti sínu og var að sníða húð til skæða handa fólki sínu fyrir hátíðina. Er þá sagt að skepna ein hafi komið inn í skemmuna og beðið Sturlu að gefa sér á fæturna.

Sturla spurði hvernig skæðin ættu að vera í laginu.

Var honum þá svarað: "Kringlótt eins og keraldsbotn og engar á þeim tærnar."

Fleygði Sturla þá skinninu niður á gólf og fór þessi kind burt með það og sást ekki síðan.

Eins og nærri mátti geta gat þetta ekki boðað neitt gott enda varð þess eigi langt að bíða að það kæmi fram á hvað það vissi. Að þrem dögum síðar eða sunnudaginn milli jóla og nýárs (26. des.) hljóp Katla með miklum býsnum og svo naumt varð Sturla þá fyrir að nærri var stefnt því að hann kæmist ekki lífs af.

Sturlu varð þennan dag gengið út úr bænum upp á húsagarð. Sá hann þá að vatnsflaumurinn kom beljandi fram yfir héraðið og stefndi á bæinn. Hljóp hann þá inn og greip ungbarn úr vöggu er stóð við rúm þeirra hjóna.

Aðrir segja að hann hafi gripið vögguna með barninu en beðið fólk sitt að fela sig forsjá drottins, hlaupið síðan út og upp á garð sem hlaðinn var umhverfis bæinn.

Vildi þá svo til að vatnsflóðið bar jaka einn mikinn að garðinum og komst Sturla á hann með barnið. En jakann bar á sjó út og rak hann eftir nokkra daga upp á Meðallandsfjörur.

Hafði jakann þá rekið fullar fimm vikur sjávar austur með landi frá því Sturla kom fyrst á hann.

Engum vistum náði Sturla með sér þegar hann komst á jakann af því það bar svo brátt að. Horfðist því óvænlega á að geta haldið barninu lifandi. Tók Sturla það þá til ráðs að hann skar geirvörtur af brjósti sér og lét barnið sjúga blóð sitt og hélt það svo lífi. Og af því Sturla var hinn hraustasti maður bar lítt á því þegar hann náði landi að hann hefði í hrakningum staddur verið.

Lambey hét bær einn í Lágeyjarhverfi. Þar heitir nú Lambajökull. Þann bæ tók af í hlaupi þessu eins og aðra bæi í hverfinu, svo gersamlega að ekki sást á eftir að þar hefði nokkurn tíma byggð verið.

Var byggðin öll hulin sandi og vikri svo að ekkert stóð upp úr. Það var eitt sinn eftir að hlaupið var þorrið að menn fóru um sandinn þar sem Lambey hafði verið.

Skrapp þá hestur eins þeirra með fót niður úr sandinum á einum stað og varð hola djúp eftir. Heyrðu þeir þá hundgá upp úr holunni undir fótum þeirra. Grófu þeir þá til og komu niður á hús eitt. Var það skemma er höfð hafði verið til geymslu fyrir fisk og smér í Lambey.

Í skemmunni fundu þeir stúlku eina lifandi og rakka með henni. Hafði hún verið send í skemmuna að sækja fisk og smér til matar og rakkinn fylgt henni þangað. Hún hafði farið með ljós í hendinni því sagt er að það hafi verið að kvöldi dags er hún skyldi sækja matarföng þessi.

Var hún þá stödd í skemmunni þegar hlaupið kom og hafði nú verið þar í eitt, aðrir segja þrjú ár, þegar hún fannst. Hafði hún dregið fram líf sitt og rakkans á fiskinum og smérinu en nú voru þær vistir nær að þrotum komnar.

Jafnan hafði hún og haldið ljósinu lifandi með smérinu en fald af skyrtu sinni og öðrum fötum reist hún til kveikja. Var hún með fullu ráði þegar hún fannst og vissi allt dagatal og hvað lengi hún hafði verið þar í klefanum en þó er sagt að hún hafi aldrei orðið fullkomlega jafngóð eftir þessa löngu einveru.

Ekki kvaðst hún hafa fundið mikið til leiðinda af því að rakkinn var henni til skemmtunar. Annars sagðist hún ekki mundu hafa afborið einveruna og sannaðist þar hið fornkveðna að sá er enginn einn sem hundurinn fylgir.

Það er og sagt að þetta hlaup hafi svo fljótt að borið að ein prestsdóttir hafi fundist dauð við Dýralæki með hárgreiðuna í höfðinu er hún var að kemba eða greiða sér með þá er hlaupið kom.


(J. Þork. -- Eftir Eldriti Markúsar Loftssonar og sögum eystra.)


Netútgáfan - júlí 1997