STOKKSEYRARREIMLEIKINN



Það var eitt kvöld (29. mars) á miðri vetrarvertíðinni 1892 á Stokkseyri, að menn ætluðu að fara að hátta í sjóbúð einni. Voru búðarmenn alls tíu, allir á besta aldri, hraustir menn og hvergi veikir. Sigurður Henriksson bóndi í Ranakoti var formaður þeirra, ræðinn og skemmtilegur maður. Var það því oft vani hans að dvelja hjá hásetum sínum úti í verbúð fram eftir kvöldinu, þegar landlegudagar voru, og skrafa við þá og skeggræða, og svo var þetta kvöld, að hann dvaldi í búð úti allt fram til þess, er tvær stundir voru til miðnættis.

Þegar formaður fór, lokuðu hásetar búðinni, en allt þar til hafði henni eigi verið lokað, heldur lögð aftur, og blakti hurð í hálfa gátt um kvöldið. Veðri var svo farið, að það var eitt hið versta, rismikið í lofti, rok og regn af hafi, dimmt úti og ógurlegt um að litast. Vissu búðardyrnar til hafs. En rekkjum var svo háttað í búðinni, að þrjú rúm stóðu undir norðurhlið hennar, og námu þau lengd hennar gaflhlaða á milli. Að sunnanverðu voru tvö rúm og skot innar af, sem búðarmenn geymdu í ýmislegt dót sitt. Tveir menn sváfu í hverju rúmi.

Eftir að formaður var farinn, fóru búðarmenn að sofa, allir nema tveir, Eyjólfur Ólafsson, er segir þessa sögu, og annar maður til. Lágu þeir vakandi og töluðu saman um hríð. En ekki leið á löngu, áður þeir tóku eftir því, að einn af félögum þeirra fór að láta illa í svefni og umla heldur óskemmtilega. Dettur þeim félögum þá í hug, hvort Skerflóðs-Móri muni nú kominn að ónáða þá, en það er merkisdraugur þar á þeim slóðum og kynfylgja ýmsra manna, er jafnan gerir vart við sig undan komu þeirra og hefur oft farið skrattalega upp á menn í svefni.

Þeir vöktu manninn þegar í stað og spurðu hann, hvað hann hefði dreymt. Hann kvað sig ekkert dreymt hafa, en kvaðst hafa orðið fyrir einhverjum undarlegum ófögnuði. En áður en hann er búinn að tala út, verður annar fyrir hinu sama, og veinar hann eymdarlega. Fer þeim félögum nú ekki að lítast á blikuna og kveikja ljós og litast um og fara nú að ræða um þetta fram og aftur. Eyjólfur Ólafsson lá í miðrúmi norðan megin í búðinni og horfði á þann mann, er svaf sunnan megin við dyragaflhlaðið; var sá maður setstur upp í rúmi sínu, hélt á bauknum í hendinni og ætlaði að fara að taka í nefið. En allt í einu sér Eyjólfur, að hann skiptir litum, hendurnar hníga aflvana niður, andlitið blánar og þrútnar og hann eins ng kýtist saman með ámáttlegu hljóði og eymdarveini. Hljóðnuðu nú allir og urðu forviða, en Eyjólfur hljóp ofan úr rúmi sínu og til mannsins að reyna að hjálpa honum.

Eftir nokkra stund raknaði hann og við til meðvitundar aftur, og sagði hann þá, að þegar hann hefði ætlað að fara að taka í nefið, hefði sér fundist koma einhver voðalegur þungi ofan yfir sig, svo hann hefði misst allan mátt, ekki getað hreyft sig né beðið um hjálp, en aðeins komið upp lítils háttar hljóði og síðan misst alveg meðvitundina. Búðarmönnum þótti nú heldur fara að grána gamanið og þóttust nú sjá það út um brekánið, að þeim mundi ekki sofnast vært fyrst um sinn. Klæddu þeir sig því og tóku upp spil og hugðu að halda sér vakandi við spilamennsku fram eftir; en sem tók að líða á nótt, fór suma af þeim að dotta, og vildu þeir þá reyna að sofna, en á því voru engin tök, því að þegar þeim ætlaði að fara að renna í brjóst, kom sami ófögnuðurinn yfir þá, og höfðu þeir engan frið á sér, og hélst það allt til morguns.

Búðarmenn tóku sig nú saman um það að halda atburði þessum leyndum og segja engum frá, hvað fyrir þá hefði komið um nóttina, heldur vita fyrst, hvernig til tækist næstu nótt. En þá tók ekki betra við, því að allt fór á sömu leið og hina fyrri nóttina. Er þá sagt, að búðarmenn tæki að lesa í Passíusálmunum, ef svo mætti verða, að þeim yrði vörn í því, en ekki vildi það hlíta, því að þá kom svört fluga og settist á bókina og ofan í sálmana. Urðu menn þá hræddir, skelltu bókinni saman, og þar með var úti lesturinn.

Daginn eftir datt þeim það snjallræði í hug að fá léða kirkjuklukkuna á Stokkseyri til þess að hafa í búðinni hjá sér og vita, hvort fjandi sá væri svo forhertur, að hún gerði honum ekki nokkurn geig. Hengdu þeir klukkuna upp í búðinni um kvöldið, og þá nótt brá svo við, að ekki bar neitt á neinu.

Urðu nú búðarmenn fegnari en frá megi segja og hugðust nú sloppnir úr öllum vanda; skiluðu þeir því klukkunni daginn eftir; en fár veit, hverju fagna skal, því að næstu nótt hafa þeir engan frið á sér fyrir djöflagangi í búðinni, og fór svo fram í fimm nætur í lotu. Þótti þeim þá ekki vært í búðinni lengur og flúðu því þaðan og inn í bæ, sem formaður þeirra bjó í, sváfu þar síðan og lögðu búðarvistina niður. Í bænum bar á engum aðsóknum, en nóttina eftir að þeir fluttu úr búðinni, gerðist svo reimt í sjóbúð á öðrum bæ þar í hverfinu, að menn allir flýðu samstundis úr þeirri búð og inn í bæ. Hélst reimleiki þessi svo við þar í ýmsum búðum í fimm til sex vikur nokkurn veginn látlaust.

Um lýsing á fjanda þessum ber mönnum ekki alveg saman, sem ekki er undarlegt, því að hann er vís til að hafa getað brugðist í margra kvikinda líki, sem slíkum gangárum er títt. Eyjólfur Ólafsson segir, að "nokkrum" af sambúðarmönnum sínum hafi sýnst hann "bregða fyrir við og við líkt og bláleitur gufuhnoðri, sem hraktist til og frá, enda stundum eins og sindra af þessu; líka fannst mörgum kynlegur þytur koma nálægt sér, þungur, snöggur og kaldur". Aðrir þóttust sjá hann "sem þéttan, bláleitan og uppmjóan mökk", "við alin á hæð". En aðrir sögðu hann hefði fyrir sig borið eins og "flikki á stærð við lítinn hund", og "oft sást hann á búðargluggum og var þá flikki með öngum út úr, sem læstu sig eftir rúðunni, eins og það vildi inn komast".

Eins og vonlegt var, voru margar getur leiddar um það, hver þremillinn það væri, sem olli þessum reimleikum. Sumir ætluðu það ófreskju nokkra, er "mundi af sjó komið hafa". Nokkrir "töldu það vafalaust sendingu vestan úr Mosfellssveit", er átti að hafa verið send þaðan til þess að klekkja á einhverjum, en hefði villst. Enn aðrir "héldu því fram, að þetta mundi vera draugur sá, sem Stokkseyrar-Dísa hafði komið fyrir með kunnáttu sinni í hól nokkrum við bæ þann, er sjóbúðin stóð hjá, og hafði hún haft þau ummæli, að draugsi mundi ekki hreyfa sig, ef hólnum væri ekki raskað. En nú þóttust menn vita það með vissu, að nokkrir steinar hefðu verið hreyfðir og hafðir í hesthúsvegg og þar með hafi losnað um draugsa og hann farið á kreik á ný.

Þó að mikið væri í það varið að komast að réttri niðurstöðu um það, hvers konar ár og illdjefli þetta væri, voru þó allir þar á einu máli, að hitt væri þó hærri nauðsyn að koma þessum ófögnuði og reimleikum af sem allra fyrst, áður en allar verbúðir væri í auðn fallnar og aðsóknin færðist inn í bæina; en hér voru góð ráð dýr, því að þó kirkjuklukkan á Stokkseyri reyndist óbrigðul vörn, þar sem hún var, þá hrökk hún skammt til, af því að fjandi þessi flúði hana og gerði þá jafnan skurk annars staðar. Kom mönnum því til hugar, hvort þessi déskoti mundi ekki láta sér segjast, ef honum væri sýnt framan í lækni og sýslumann, og urðu það því úrræðin, að þeir voru sóttir; könnuðu þeir búðir, en urðu einskis varir, og ekkert skipaðist til batnaðar um reimleikana við komu þeirra; þótti það því sýnt, að ekki hefði djöfull sá, meiri beig af heldri mönnum en öðrum, og því er líkast, að ekki hafi verið leitað til sóknarprestsins upp á vígslur eða góða yfirsöngva í verbúðunum. Er og ekki ótrúlegt, að menn hafi heldur hvekkst á guðsorðalestrunum, þegar menn ráku sig á það, að Passíusálmarnir hrifu ekki.

Beið nú svo um hríð, að menn voru orðnir úrkula vonar um að losna við þennan draugagang, þangað til um vorið, að Eyjólfur barnakennari Magnússon var á ferð á Eyrarbakka, en hann hefur lengi verið talinn ákvæðinn og kallað, að hann viti jafnlangt nefi sínu. Leituðu menn því til hans og báðu hann sjá nokkurt ráð fyrir draugnum, er duga mætti, og hétu honum launum fyrir. Er sagt, að Eyjólfur tæki lítt á því í fyrstu, en fyrir þrábeiðni þeirra kom þó svo, að hann hét því að losa þá við ásókn hans um hríð. Er þá sagt, að Eyjólfur fengist við drauginn, kvæði yfir honum vísur nokkrar heldur mergjaðar og stefndi honum norður í Drangey til vistar um níu ár. En þetta er það úr stefnuvísunum Eyjólfs, er minnst særing þykir í fólgin:

Eg þér stefni að allra vil
aldjeflis í treyju
um níu ára næsta bil
norður Drangs í eyju.

Ekki ábyrgðist Eyjólfur þeim frestinn lengri. Er því varlegra fyrir Stokkseyringa að vera við búnir gestkomu árið 1901.



Netútgáfan - nóvember 1997