ÆRNAR  FRÁ  STAÐARHÓLI



So bar við einu sinni á Staðarhóli í Saurbæ að á jólaföstunni vantaði tvær ær frá fénu þegar inn var látið, en var þó um daginn skammt frá bænum. Var þá farið til kotanna sem þar eru skammt frá og spurt eftir ám þessum og vóru þær þar ekki og ei þóktust smalar þar hafa séð neinar kindur aðrar en þær er heim komu. Var ei skeytt um það fremur um kvöldið.

Veðrið var stillt, logn og þykkt loft, en þessa sömu nótt brast á norðan-stórbylur með sortahríð. Leist nú bónda illa á og taldi ær sínar tapaðar því ei mundi fé ófennt í slíku stórkafaldi sem ogso hélst næsta dag eftir. Létti þá nokkuð hríðinni.

Vóru þá strax fengnir tveir menn kunnugir að leita þar eð líkast þókti þær mundu hafa vorðið til í sköflum og víðar, líka einnin upp um fjall er þar er skammt frá. Var þó ei gott vegna þess alltaf hélst kafaldið nokkuð, enda þó leitað væri. Birti ei verulega upp fyrr en að viku liðinni.

Var þá enn sent lengra burt bæði að leita og spyrja eftir ánum, jafnvel þó allir, bæði bóndinn og aðrir, teldu þær tapaðar, en þó var þetta allt árangurslaust. En þetta hið sama kvöld lét bóndi inn kindur sínar sem hann var vanur, batt aftur hús og þrýsti að dyrunum snjó eins og venja er á vetrum.

Hefur bóndinn sjálfur sagt so frá að hann að þessu afloknu hafi snúið sér frá húsdyrunum er hann seinast þrýsti að, gengið fáein spor og farið að kasta af sér vatni. Verður honum þá litið um öxl sér til húsdyranna. Sér hann þá ærnar er hann hafði vantað, við dyrnar, hreinar, þurar og þokkalegar eins og þær hefðu þá komið út úr húsinu, og fullar eins og þær hefðu komið af nógri jörð eða frá gjöf.

Virtist mönnum mjög kynleg saga þessi er bóndi sagði frá aðburði þessum og vóru allir sammála um að þær mundu af einhvurjum ósýnilegum mönnum geymdar verið, so sem álfa- eða huldufólki.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - janúar 2000