======================
Einu sinni var smalamaður hjá Sæmundi fróða sem var óþolinmóður yfir því hvað féð var óþægt.Einu sinni kom maður til hans þegar hann var að smala, og sagði við hann: "Ég skal taka að mér að geyma fyrir þig féð þangað til í vor ef þú vilt þá fara til mín fyrir vinnumann á eftir. Þá skaltu ekki þurfa að smala ef þú fer til mín. Ég skal sjá um að þú finnir allt féð sem þú átt að smala, í vissum stað á hvurjum degi til krossmessu; þá mun ég sækja þig."
Smalamaður varð feginn og játaði þessu, en sagði samt sér þætti verst að hann væri vistaður hjá Sæmundi. Hinn sagði sér væri hann eins velkominn þó hann sviki Sæmund, og var þetta ráðið af milli þeirra.
Upp frá því fann smalamaður alltaf allt féð á sama hól og leið svo til þess að skammt var til krossmessu. Þá fór hann að gruna hvur vera mundi sá sem hann var búinn að vista sig hjá og fer nú að liggja illa á honum. Sæmundur tók eftir því og spurði hvað að honum gengi. Hann lét lítið yfir því.
"Er það svo sem mig grunar," segir Sæmundur, "að þú sért búinn að vista þig hjá öðrum en mér?"
Hann sagðist ekki geta borið á móti því.
"Hvur er það sem þú hefir vistað þig hjá?" segir Sæmundur.
Hann sagðist ekki vita það gjörla.
"Því vistaðir þú þig hjá þeim manni sem þú þekktir engin deili á?" segir Sæmundur.
"Það var af því," segir smalamaður, "að mér þótti allt fengið ef ég losnaði við smalamennskuna, og því lofaði hann mér."
"Það er líkast," segir Sæmundur, "að sá einn sé sá sem þú ert vistaður hjá að hann þurfi ekki smalamanns við."
Smalinn spyr hvurt hann vissi hvur það væri.
Hann sagðist vita það gjörla fyrir löngu. "Það er enginn annar en kölski."
"Ég var nú líka farinn að verða hálfhræddur um það," sagði smalinn, "eða hvað er nú til ráða?"
"Svona er að vera óþolinmóður við verk sitt," sagði Sæmundur brosandi; "ætli þú vildir nú ekki eins vel efna orð þín við mig og vera smalamaður minn eftir sem áður eins og fara til kölska?"
Hann sagðist vilja mikið til gefa að vera heldur kyrr hjá Sæmundi.
"Vertu þá rólegur til krossmessunnar," segir Sæmundur, "ekki mun hann vitja þín fyrr en þá."
Nú líður til krossmessu. Á krossmessudaginn var Sæmundur úti og smalinn hjá honum. Þá kom kölski þar. Sæmundur spyr hvað hann sé að fara. Kölski segist vera að sækja manninn sem hjá honum standi því hann sé vistaður hjá sér.
"Hann var áður vistaður hjá mér," segir Sæmundur, "og mun það verða að gilda."
"Ég hefi nóg til þess unnið að fá hann," segir kölski, "því ég hefi smalað fyrir hann í vetur."
"Það kemur mér ekki við," segir Sæmundur, "ég hefi rétt til að halda manninum, en þó skal ég gjöra þér kost á að fá hann. Ég mun leggja ás á garð og setja ykkur sinn á hvorn enda ássins. Þar skulu þið ramba á til hádegis og ef þú getur komið smalamanni svo hátt að þú sért sjálfur niður við jörð þá máttu fá hann, en ef þú getur það ekki fyrir hádegi þá skaltu ekki þurfa að hugsa til þess framar að fá hann."
Þessu játar kölski og þykist nú eiga vísan sigurinn, því Sæmundur villti svo fyrir honum að honum datt ekki í hug að þar byggi neitt bragð undir.
Sæmundur setti ásinn á kirkjugarðinn og setti kölska á þann endann sem inn í garðinn snéri, en smalamann á hinn. Þeir ramba nú lengi og er kölski miklu þyngri, en aldrei gat hann komizt niður á jörð því vígð mold var undir.
Um hádegi gengur Sæmundur að smalamanni og kippir honum af ásnum svo ásinn steyptist inn í kirkjugarðinn með kölska. Þegar kölski kom niður á vígða mold brá honum svo við að hann sökk ofan í jörðina og sást ekki framar, en smalinn var kyrr hjá Sæmundi. Vitjaði kölski hans aldrei oftar og hann undi vel við smalamennskuna upp frá því.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - júlí 2001