Í Suðursveitinni fór maður í skóg að viða til kola og kvenmaður sá með honum er Sigríður hét. Þótti hún heldur brellin og illa geðjuð; kom það og fram á félaga hennar því þeim varð brátt sundurorða; gjörði hún honum flest til meins og ama, því síður að hún hjálpaði honum til.En er hann var búinn að sníða og ganga frá gröfinni leggst hann niður og atlar að sofna. En er hann var sofnaður tekur hún þá ótukt til bragðs sem dæmalaus mun af illfengustu prakkarastrákum auk heldur fullþroska kvenmanni, tekur saur sinn á hríslukvisti og klínir á vit hans og andlit og vekur hann með keskni þessari hvað eftir annað.
Verður hann það bráður við alla þessa hennar meðferð að hann flýgur á hana og það svo frekt að hann skilur hana eftir nærri dauða og lamaða í hálsliðunum. Heitist hún þá við hann að hún skuli fylgja honum og niðjum hans allt í níunda lið.
Eftir þetta fer hann að búa sig heim, en er hann atlaði á stað atlar hann að vitja um hana, en fann hana hvergi. Hafði hún gengið aftur svo hálflifandi og fylgdi honum svo fast að það varð að skammta henni sem lifandi manni.
Gekk hún svo um í Suðursveitinni eins og grár köttur, og eins eftir það kynsmenn hans komust í Öræfin, og einnig fylgdi hún Rannveigu sem í Suðursveitinni bjó eftir seinustu aldamót svo að hún varð að fara heim aftur ef henni hafði gleymzt að skammta Sigríði skuplu, annars át hún allt upp í gadd og fordérfaði, og þegar Sveinn sonur hennar giftist sást hún og var þá vel búin og hélt sér til í skarti; glamraði í silfurbúnaði hennar, en þá fyrst var hætt að skammta henni. En ævinlega var hún með skuplu og hallaði við. Lítið gjörði hún mein af sér.
Eftir það Sveinn komst að Hofi í Öræfum fylgdi hún honum. Þó var hún alltaf hrædd við karlinn því hann var skyggn og rak hana oft í burtu frá sér á hlaupum skvettandi í hana hlandi og ýmsu öðru. Hún ekki einasta fylgdi honum, heldur ogsvo öllu hæjarfólkinu á Hofi. - Sagt hefir mér verið að nú mundi kominn sjöundi eða áttundi liður.
Þegar Kristín dóttir síra Vigfúsar Benediktssonar bjó í Suðursveitinni sauð hún einu sinni sem oftar í smálka. Þau hjónin sváfu í fjósinu eins og víða hefir tíðkast á austursveitum og stóð beinatrogið á fjóspallinum innanverðum.
Um nóttina vaknaði hún við þrusk og nag í beinatroginu; var þar þá Skupla að naga beinin og kastaði einu af öðru. Hann stökk þá upp og rak kerlingarræfilinn út úr fjósi.
Margt fleira mætti um hana tína, en ég hefi ekki svo greinilegar fréttir af henni að nokkru sæti, en skrafað hefi ég við tvo menn sem hafa séð hana og heyrt, enda hafði hún fylgt þeim svona á milli bæja í Öræfunum eins og öðrum þar um Öræfin.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - maí 2001