Bóndi er nefndur Jón; hann bjó á Ábæ og átti Guðbjörgu fyrir dóttur. Þegar hann lá banaleguna gaf hann dóttur sinni sauðarlegg og voru tappar í leggnum, og sagði henni að taka ekki tappann úr nema henni lægi lítið við.Síðan dó karlinn, en Guðbjörg dóttir hans giftist manni sem Eiríkur hét og fóru þau að búa á Ábæ eftir Jón.
Um þessar mundir var bóndi á Tinnárseli sem Sigurður hét; var hann fremur harðbýll og vildi verja bæli sitt Ábæjarpeningi. Þau Ábæjarhjón vildu stökkva Sigurði burtu, en það tókst ekki.
Kom þá Guðbjörgu það í hug að nú mundi ráð að opna legginn; hún tók svo tappann úr honum og rauk þar úr reykjargufa; dróst hún svo saman og varð að konu, ef konu skyldi kalla.
Guðbjörg skipaði henni að fara þegar og hrekja Sigurð burt frá Tinnárseli. Draugsi fór þegar og lék hann Sigurð svo grátt að hann varð að fara á aðra bæi til að sofa því hann sagðist engan frið hafa til að sofa heima fyrir djöfli þeim sem ásækti sig.
Um vorið eftir flúði Sigurður kotið fyrir þessum ófögnuði. En þegar Skotta hafði lokið þessu erindi fór hún heim aftur til Guðbjargar og spurði hvert nú skyldi halda. Varð Guðbjörg þá ráðalaus og fór þá Skotta að kvelja hana, og svo lauk að hún varð vitlaus og hefir geðveiki lagzt mjög í hennar ætt, og kona ein náskyld henni hefir skorið sig.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - maí 2001