FRÁ  ÁBÆJAR - SKOTTU



Saga þessi gerðist, þegar ég var á áttunda árinu hjá foreldrum mínum í Miðhúsum í Blönduhlíð. Ég svaf hjá Þrúði ömmu minni og var fyrir framan hana í rúminu, því að mér hefur víst þótt það karlmannlegra.

Eina nótt vakna ég, og var ég því þó ekki vanur. Tunglskin var á og bjart inni. Fer ég þá að horfa fram í baðstofuna, og verður mér litið á þilið, sem var beint á móti rúminu. Þar hékk klukka, og sló hún fjögur högg í því bili. Við þilið var bekkur, og sátu gestir oft á honum. Sé ég, að stelpa stendur upp við bekkinn, og var nógu bjart til þess, að ég sæi hana greinilega. Hún var í mórauðum pilsgopa og bol samlitum með skotthúfu á höfði. Horfi ég á hana um stund og skildi sízt í því, hvaða stelpa gæti verið þarna um hánótt. Ætlaði ég að yrða eitthvað á hana, en þá dró ský fyrir tunglið og dimmdi í baðstofunni. Fannst mér þetta þá verða eitthvað svo forynjulegt í myrkrinu, að ég þorði ekki að ávarpa hana. Greip mig nú óstjórnleg hræðsla, ég skaut mér ofan í rúmið og dró sængina upp fyrir höfuð. Reyndi ég með öllu móti að vekja ömmu mína, en mér var það ómögulegt.

Eftir dálitla stund varð samt forvitnin hræðslunni yfirsterkari, svo ég vogaði að gægjast undan sænginni. Var þá aftur komið glaða tunglskin, og sá ég nú stelpuna miklu betur en áður. Var hún sýnu nær rúminu en í fyrra skiptið. Horfði ég á hana um stund. En allt í einu fer hún að glenna sig framan í mig og varð þá svo ófrýnileg, að mér verður það lengst í minni.

Loksins gat ég vakið ömmu og sagði henni, að ég gæti ekki sofið, því að það stæði einhver stelpa við bekkinn á móti rúminu. Amma sagði, að mig hefði dreymt þessa vitleysu, ég skyldi líta yfir um núna, þar væri ekkert. Og það var satt. Nú sást þar ekki neitt. Ég lýsti búningi stelpunnar og henni sjálfri eins greinilega og ég gat fyrir ömmu, því að mér sárnaði hún skyldi ekki trúa mér.

Hún sagði, að við skyldum lesa bænirnar okkar, og mundi ég þá geta sofnað. Við gerðum það. Skreið ég síðan upp fyrir ömmu í rúmið og sofnaði eftir litla stund.

Um morguninn, þegar ég vaknaði, var framorðið. En það fyrsta, sem ég sá, er ég opnaði augun, var ókunnugur maður, sem sat á bekknum beint á móti mér.

Eftir að ég var kominn á ról, heyrði ég af tilviljun á tal móður minnar og ömmu. Var amma að segja frá því, sem fyrir mig hafði komið um nóttina. Heyri ég þá, að mamma segir: "Ja, hvað heldurðu! Hún hefur nú kannski þurft að spranga á undan honum."

Komst ég að því þarna, að þetta hefði verið Skotta, enda heyrði ég það seinna, að hún fylgdi þessum aðkomumanni og ætt hans.



(Þjóðsagnasafnið Gráskinna)

Netútgáfan - desember 2000