SKINNVEFJA



Það var einu sinni tólf Norðlingar sem fóru suður til sjóróðra og þrettándi drengur sonur sóknarprestsins, sem hann beiddi þá fyrir, að láta upp hjá hönum af því það var í fyrsta sinn sem hann fór og var unglingur, og þeir lofuðu því.

So fara þeir allir og komast fram í byggðina; þá datt á þá bylur so þeir villast og drengurinn dregst attrúr so hann sér valla á eftir þeim af byl, en þeir skipta sér ekki af hönum; so þeir taka ofan af hestunum og seta í bunka og binda hestana og kemur drengurinn og þeir fleygja ofan af fyrir hann.

So léttir hann ofurlítið og þeir taka sig þá upp attur og ferðast lengra og þá dettur á þá attur og þá sjá þeir ljós skammt frá sér, so þeir taka ofan og hlaða í bunka og binda hestana.

So ganga þeir allir á stað þangað til þeir koma að einum hellirsdyrum; þar er tröllskessa í dyrunum. Þeir biðja hana að lofa sér að vera. Hún segir þeir skuli fá það; hún segir þeir skuli sækja hestana sína, Þeir segja þeir rati það ekki; hún segir þeim sé engin vorkunn á því.

So sækja þeir þá og dótið og þegar þeir koma tekur hún hestana og lætur þá inn í einn hellir, annan lætur hún dótið þeirra í, en þriðja lætur hún þá fara inn í, og það er svefnhellir kerlingar. Hún gefur þeim heitan mat og þeir eru þar um nóttina.

Um morguninn fara þeir að leggja á; hún gengur til þeirra og biður einhvurn þeirra að vera hjá sér í vetur, hún dóttur sín sé nýdauð og leiðist sér so; þeir skuli fara í lokin. Þeir þverneita því allir þangað til hún kemur seinast til drengsins og biður hann; hann þegir. Hún herðir þá á sér að biðja hann, segir hann skuli fá að fara í lokin; so hann lofar því.

Þeir segja það verði fallegur útróður á hönum að gefa sig í tröllahendur til þess að láta drepa sig, sjóða og éta. Hún segir þeim að fara sína leið og gefa ekki um það; so fara þeir.

Og þegar þeir eru farnir fer að liggja illa á drengnum. Hún segir að ekki skuli hann láta liggja illa á sér, því ekki skuli hún drepa hann, hann skuli koma með sér að skoða í hellra sína.

So fer hún með hann langa vegi og ganga með einu vatni; hann spyr hvort nokkur veiði sé í því; hún segir hún hafi nógan lax. So ganga þau lengi þangað til þau koma að hellir og hann er rennandi fullur af fé; og so fer hún heim og á leiðinni sýnir hún hönum í hellir og hann er fullur af sméri, tólg, ull, skinni og keti. So hún segir að nóg hafi þau að éta í vetur og so fari hún að veiða þegar líði út á, úr vatninu sem hann sá.

So þegar komin er góa fara þau að veiða lax í vatninu og hann stendur á bakkanum, en hún veður: So eru þau að veiða og veiða mikið. Strákurinn á gott hjá henni og blæs í sundur, en aldrei þykir henni hann nóg sterkur, so hún gefur hönum öl úr horni og glímir so við hann á hvurjum morgni so hann er orðinn so sterkur að hann kemur henni á annað hnéð.

Þá segir hún að hann sé nógu sterkur að baggafær sé hann. Hún segir að hann sé orðinn eins sterkur og stallbræður hans. Og þegar fer að líða undir lokin þá segir hún hönum að hún verði að láta hann fá eitthvað af laxi so hann komi ekki tómhentur heim, stallbræður hans hefðu ekki fengið til matar og komi so hálfhoraðir heim.

So ljær hún hönum tvo hesta gráa og lætur mikið upp á þá og fylgir honum síðan og biður hann að koma hingað sama leyti annað ár og um þetta, og þá verði hún dauð og þá skuli hann draga sig í gryfjuna sem hún dóttur sín væri í.

Þegar hann kæmi heim til föður síns þá skyldi hann binda beislið um hálsinn á þeim fyrir utan garð, þeir mundu rata. Hann skyldi gefa biskupnum af öðrum hestinum en föður sínum af öðrum, þeim mundi þykja nýnæmi að smakka lax, og skyldi hann biðja biskupsdóttrinnar og ef hann fái hana og eigi stúlku, að láta heita eftir sér, hún heiti Skinnvefja. Hann lofar því.

So fer hann og kemst heim og fær föður sínum af öðrum hestinum, en fer með hinn til biskupsins og gerir boð fyrir hann; so hann loksins fer út og ætlar valla að gera það; so er hann stór upp á sig.

Hann sér þar hest á hlaðinu klyfjaðan af lax. Prestssonur gefur honum það sem er á hestinum. Biskup segir að laxinn sé skjaldsmakkaður, so hann þakkar hönum fyrir. Prestssonur kippir ofan; biskup segir að hann hafi sterknað og stækkað í verinu; hann segir það vera.

So biskup býður hönum inn og þegar hann er lengi búinn að vera inni biður hann dóttur biskups; hann segir hann skuli læra fyrst. So fer hann til föður síns og sleppir hestunum og hann fer so að læra um veturinn. Og um lokin fer hann að vitja kerlingar og fer með fjóra menn og með marga hesta og þeir vita ekkert hvað hann fer.

Þegar kelling hafði skilið við hann þá hafði hún hlaðið vörðu og so heim til hellirsins. Og so kemst hann að hellirnum og so sér hann kellingu dauða í bæli hennar, so hann setur hana í þessa gryfju.

So tekur hann allt sem var þar, það var tvö hundruð fjár og ettir því af öllu tagi. Hann fer með það fram í sveit og þeim sem voru með hönum bannaði hann að segja frá því. En stallbræður hans voru búnir að segja frá því, en það var ekkert gefið um að grennslast.

So fer hann að læra og þegar hann er búinn að læra var hann vígður og fékk so biskupsdóttur og settist í búið föður síns og var sterkríkur. So eignaðist hann dóttur sem hann lét heita eftir kerlingu, og so ólst hún þar upp, giftist so göfugum manni.

Stallbræður hans urðu lánlitlir og voru að flakka um. Endar so þessi saga.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - janúar 2000