SKÍÐASTAÐIR



Skíðastaðir hefur bær heitið. Hann var næsti bær fyrir sunnan Öxl, undir Vatnsdalsfjalli vestanverðu í Húnavatnssýslu, því bæði var það að Hnausar munu ekki hafa verið byggðir í það mund sem Skíðastaðir voru byggðir með því nafni enda standa Hnausar spölkorn frá fjallinu fyrir vestan það.

Á Skíðastöðum bjó í fornöld flugríkur bóndi. Hann hafði mörg hjú og hélt þeim fast að vinnu vetur og sumar. Hann átti mikið engi og gott og lá það þar sem nú er Vatnsdalsflóð í útsuður frá bænum.

Svo gekk bóndi hart að hjúum sínum með vinnu á sumrum að hann lét aldrei nokkra griðkonu vera heima til eldhússtarfa, svo það var skylduskattur þeirra að hafa alla stórelda, sem hafa þurfti alla vikuna, á helgum dögum, og leyfði þeim hvorki að sækja tíðir né sinna lestrum.

Einn sunnudag árla sást af bæjum að vestanverðu í Þinginu og í Vatnsdal utarlega að maður í hvítum klæðum gekk norður eftir Vatnsdalsfjalli. Hann hafði sprota í hendi og nam staðar upp undan Skíðastöðum og laust þar sprotanum á fjallið. En jafnskjótt spratt þar upp afar stór skriða úr fjallinu og varð æ stærri því lengra sem hún veltist ofan eftir og féll hún yfir allan bæinn á Skíðastöðum svo ekkert mannsbarn komst með lífi undan nema ein stúlka.

Þessi stúlka hafði verið lengi á Skíðastöðum þó henni þætti þar ekki góður bæjarbragur en einkum guðleysi bónda. Var hún æði góðlynd og viljug til allra verka, því hafði hún hylli húsbænda sinna og samlagsþjóna. Hún hafði og oftast orðið fyrir því að vera í eldhúsinu á helgum en ekki hafði hún átt neinni þóknun annarri að mæta fyrir það en að hún mátti þá ráða skófnapottinum.

Veturinn áður en skriðan féll á bæinn hafði verið mjög harður svo þá féllu bæði menn og fénaður af hungri almennt. Skíðastaðabóndi skarst undan öllu liðsinni við sveitunga sína, er á hann skoruðu fyrir sjálfa sig eða fénað sinn, og rak margan nauðleitamann burtu með harðri hendi án þess að buga neinu góðu að nokkrum þeirra.

Ekki voru heldur veitingar svo miklar við heimilisfólk á Skíðastöðum, þó nóg væri til, að það væri aflögufært. En þó gekk stúlka þessi mjög nærri sér til að geta hyglað þeim sem þar komu aumastir og varði hún til þess bæði af mat sínum og skófum þeim sem til féllu.

Þennan sama vetur svarf svo að flestum skepnum sem úti áttu að vera að þær lágu dauðar hrönnum saman því það var lengi að ekki fékk tittlingur í nefi sínu. Flokkuðust þá sem oftar er svo ber undir hrafnar mjög heim að bæjum og höfðu það eitt til viðurlífis er þeir tíndu úr ýmsu sorpi er út var snarað.

Stúlka þessi hin sama gjörði sér far um að snara sem mestu hún gat út úr eldhúsinu því hún var svo brjóstgóð að hún vildi og gjarnan geta treint lífið í hröfnunum ef hún mætti. Þetta tókst henni líka og varð einn hrafninn af því svo elskur að henni að hann elti hana nálega hvar sem hún fór utan bæjar og um vorið og sumarið eftir kom hann snemma á hverjum morgni heim að Skíðastöðum til að fá sér árbita hjá stúlkunni því hún geymdi honum ávallt eitthvað og henti hið mesta gaman að honum.

Þennan sunnudagsmorgun sem fyrr var frá sagt hafði stúlka þessi farið mjög snemma á fætur og eldað graut og var hún að keppast við að vera búin að skafa pottinn áður en krummi kæmi til að geta gefið honum skófirnar. Þetta tókst og því þegar hún heyrði til krumma úti var hún að ljúka við pottinn.

Hún gengur út með skófirnar í ausu og setur á hlaðið þar sem hún var vön að gefa honum en hann vappar í kringum ausuna og flýgur spottakorn út á túnið. Stúlkan fer á eftir honum með ausuna, en allt fer á sömu leið. Hann vill ekki þiggja af henni skófirnar og flýgur spotta og spotta og sest niður á milli en stúlkan fylgir alltaf og veit ekki hvernig þessu víkur við.

Gengur þessi eltingaleikur þangað til krummi er búinn að teygja hana með þessu móti á eftir sér langt suður fyrir tún og stúlkan var farin að hugsa um að ganga ekki lengur eftir honum. En í sama bili heyrir hún drunur í fjallinu undan skriðunni og vatnsflóðinu sem henni fylgdi og sér að hún er komin yfir bæinn. Lofar hún þá guð fyrir lausn sína sem hefði sent sér hrafninn til frelsis.


Netútgáfan - maí 1997