Þegar Vigfús Helgason sem lengi bjó á Hallbjarnareyri, faðir Ásgríms Hellnaprests, var á yngri árum sínum við Hellna - var það þá einn vetur að mikill matarskortur var manna milli, en ekki matvöru að fá nema í Ólafsvík.Gjörðu menn þá samtök með að fara lestaferð þangað því færðir voru góðar. Réði Vigfús fyrir förinni og reið, en aðrir gengu. Fóru þeir allir Jökulháls; gekk þeim ferðin greiðlega, keyptu matvöru á hesta sína og lögðu svo heimleiðis, lestamennirnir á undan, en Vigfús dvaldi nokkuð eftir svo hinir voru komnir suður á háls þegar hann lagði af stað.
Heldur hann þá sem leið liggur upp á hálsinn. Þegar hann er kominn hér um bil upp á hann hæstan sér hann hvar tröllskessa kemur ofan úr Jökli, ekki mjög há, en afar digur; gengur hún ærið greiðlega. Fer þá Vigfús að hvetja hestinn og ríður sem hann getur. Fer þá skessan líka að gleiðka sporið, en ekki líður á löngu áður en hún er komin að hestinum og fram með honum. Hafði hún gull á hverjum fingri og húfu með skotti ofan í herðalág.
Mælir hún þá eitthvað til hans og er blíðleg í viðmóti, en ekki skildi hann mál hennar. Vildi hún fá hann með sér upp í Jökul, en Vigfús streittist við að halda leiðar sinnar.
Þegar hún sér að hann vill ekki fylgja sér góðfúslega tekur hún um beislisstengurnar og ætlar sér að teyma hestinn undir honum. Reynir hann þá að plokka höndur hennar af beislinu, en getur ekki. Sér hann sér þá engin ráð að losast við hana nema hann tekur hníf úr vasa sínum og sker þverskurð mikinn yfir um úlflið henni.
Missir hún við það beislisins, en hann bregður skjótt við og slær upp á klárinn. Kallar hún þá á eftir honum óblíðum orðum sem hann ekki skildi.
Slapp hann með það frá henni og náði mönnum sínum í Stapaklifi. Sáu þeir þá blóð á fötum hans því skessan hafði hrist það úr skurðinum á hann um leið hann fór. Fóru þá menn hans að inna hann eftir af hverju það væri. Sagði hann þeim þá allt eins og verið hafði.
En það var hald manna að það væri af álögum skessunnar er seinna kom fram við Vigfús og suma af sonum hans er lentu í miklum kröggum því sagt var hún fylgdi ættinni og jafnan ýmsir undarlegir menn í henni.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - september 1999