Jón Sigurðsson hét maður; hann átti heima á bæ þeim í Holtasveit er Árbæjarhjáleiga heitir.Eitt sinn gekk Jón út á Eyrarbakka. Varð honum samferða unglingspiltur, Hafliði Helgason frá Árbæ. Þetta var rétt fyrir jólin. Segir ekki af ferð þeirra fyrr en þeir komu á Bakkann síð dags, afluku erindi sínu með flýti og gengu af stað aftur heimleiðis hér um bil er almyrkt var orðið.
Hláka var veðurs, stormur á sunnan og sleituregn. Þeir héldu samt áfram ferð sinni uns þeir komu austur fyrir bæinn á Skipum eða austur að Skipaá, þá heyrðu þeir að æpt var hátt og ámátlega allskammt frá þeim og sjómegin. Æpti Jón aftur á móti eða hermdi eftir, en í sama bili var æpt aftur svo ægilega hátt að ærslum gegndi, og svo hefur Jón sjálfur sagt að hann hefði lengi á eftir ekki verið jafngóður í höfðinu eða frí fyrir ringli.
Þeir hvöttu nú sporið; sá Jón þá að skinnklæddur maður gekk jafnframt þeim á vinstri hönd og allnærri þeim og vildi bægja þeim af götunni og nær sjónum. En Jón sá hvað draugnum leið og hafði stöðugt gát á veginum þó dimmt væri. Draugsi lét þá sem hann ætlaði að ráðast að þeim, en Jón hafði stálbrodd í staf sínum og pikkaði fast í steinana svo gjörði allmikið neistaflug með eldi og eimyrju.
Hopaði draugurinn þá nokkuð fjær; fór svo hvurt sinn er hann sýndi sig líklegan til að ráða á þá að Jón fældi hann frá með eldglossi og neistaflugi.
Þeir Jón héldu nú áfram austur að Baugsstaðaá; vóðu þeir yfir ána, en draugsi lét þá dragast úr hömlu fylgdina. Varð hann þar eftir, en mennirnir héldu áfram leiðar sinnar.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - október 2000