Það er upphaf sögu þessarar, að í Möðrufelli í Eyjafirði bjuggu eitt sinn rík hjón, og er ekki getið um nöfn þeirra; ekki varð þeim barna auðið utan einnar dóttur, er hét Sigríður. Hún var allra kvenna fríðust og var þess vegna kölluð Eyjafjarðarsól. Hún var eins dyggðug eins og hún var fríð. Þegar hún var vaxin orðin, komu lærðir menn og ólærðir að biðja hennar sér til handa. En faðir hennar var staðfast á móti öllum bónorðum, enda þótt hún sjálf hefði viljað taka einhverjum þeirra, er báðu hennar.Á þeim tíðum var siður að messa á jólanætur, og kepptu allir við að fara til kirkju, en samt vildi enginn vera einn heima á neinum bæ. Einn vetur í Möðrufelli var vinnufólk að tala um, hver mundi vilja verða heima á jólanóttina. En eitt sinn, þegar það er að metast á um þetta, kom Sigríður þar að og spurði, hvað það vildi gefa sér til að vera heima, svo allir mættu fara til kirkju. Allir svöruðu í einu hljóði, að ef nokkuð væri til í eigu sinni, sem hún vildi eiga, þá skyldi það vera henni falt. Kvaðst hún þá hafa verið að gera að gamni sínu við það og vildi ei þiggja neitt af neinum, en sagðist samt mundi verða heima, ef það svo vildi. Allir héldu, að hún mundi ei fá það fyrir föður sínum. En hún kvaðst ætla að spyrja föður sinn að því, og það gjörði hún.
Hún segir honum, að hana langi til að vera heima fyrir fólkið, því hún haldi, að sig saki það ekki. Faðir hennar tekur því illa og kvað það undarlegt, að hún skyldi vilja vera heima, en fara ekki með þeim, sem vandi hennar var til. Hann segir sig gruni, að fyrir henni liggi einhver ógæfa, fyrst hún hafi svo sterka löngun til að vera heima. Hún kvað nei við og sagði sig mundi ekki saka, það væri hún viss um. Karlinn lætur þá þetta eftir henni, fyrst hún vilji hafa það svo. Segir hann hjúum sínum, að þau megi fara, því hún ætli að vera heima. Fólkið verður fegið mjög.
Nú líður fram til jóla, og aðfangadagur kemur. Fólkið fer nú að búa sig með mesta fögnuði; var fagurt veður, auð jörð með frosti, en tunglsljóslaust. Þegar fólkið var búið, segir bóndi því að kveðja Sigríði, en sjálfur kveðst hann ætla að kveðja hana síðast og búa sjálfur um bæinn og skilja við. Hún fer nú fram með fólkinu, og kveður það hana. En faðir hennar segir við hana, að hún skuli gá að því að lofa engum manni inn í nótt, þó þess verði leitað, og ekki fara á fund neins manns og tekur henni sterkan vara fyrir því, að hún skuli engan gaum gefa að, þótt barið verði að dyrum eða guðað á glugga. Kveður hann hana nú og segist vona, að engin lifandi vera komist inn í bæinn, nema honum sé lokið upp.
Fer nú fólkið af stað, en hún fer inn aftur og fer að búa sig. Að því búnu kveikir hún kertaljós, tekur bók og fer að lesa í henni í svefnherbergi foreldra sinna. Líður nú fram til miðnættis, að hún verður einskis vör.
Þá er allt í einu barið að dyrum, og er hún samt kyrr inni sem áður. Er þá barið aftur, og fer á sömu leið. Enn er barið í þriðja sinn og miklu stórkostlegar en fyrr, svo nálega þótti sem bærinn mundi molast hafa, hefði hann ei verið rammgjör. Hún gegnir ei að heldur.
Líður nú dálítil stund. Þá heyrir hún, að gengið er upp á bæinn og eftir honum að glugganum, er var yfir henni. Hún heyrir kallað á glugganum og heilsað upp á hana, og tekur hún kveðjunni. Hún lítur út í gluggann. En dimmt var úti; þó gat hún séð andlit mannsins, og þótti henni það svo fagurt, að slíkt hafði hún aldrei séð á ævi sinni.
Hann biður hana að finna sig út. Hún segist hvorki geta það né mega. Hann biður hana því betur og segir, að það skuli ekki tefja hana lengi. Hún segir, að það sé sama, hún gjöri það ekki; segir hún, að hann geti lokið erindi sínu á glugganum.
Það segist hann ekki geta; kveðst hann þurfa að ná fundi hennar, því hann þurfi að fá að drekka. Hún segist geta ráðið úr því, því ausa sé á bæjarveggnum og lækur renni hjá bænum, og geti hann fengið þar að drekka og hafi hún ekki ráð á öðrum svaladrykk. Hann segist ekki geta drukkið helblátt vatnið. Þá segist hún ekki geta bjargað honum við. Hann segist þá verða að fara svo búinn frá henni, en það kveðst hann vilja segja henni, að einhvern tíma kunni henni að verða eins heitt um hjartaræturnar eins og sér sé nú.
"Það fer sem auðið er," segir hún.
Síðan fer hann sinn veg, og verður hún einskis vör framar um nóttina.
Nú kemur fólkið heim um morguninn. Óðar en karlinn er búinn að heilsa henni, spyr hann hana áhyggjufullur, hvort hún hafi einskis orðið vör um nóttina. Hún kveður nei við. Hann segir, að hún þurfi ekki að segja sér neitt um það, segist hann vita það vel og sjá það á henni; gengur hann þá svo fast á hana, að hún verður að segja honum upp alla söguna.
Hann spyr hana, hvort hún hafi ekki lokið upp fyrir honum. Hún neitar því. Hann kveður hana hafa gjört vel í því. Ekki segist hún vita það, en það muni síðar sannast, hversu hollt sér verði, að hún hlýddi boði hans. Er nú ekki meira um þetta talað.
Nú líður fram til næstu jóla, og verður nú tilrætt um það milli fólksins, hver nú muni vilja vera heima. Sigríður segist vera til með að verða heima aftur fyrir það sem fyrr; og er það ráðum ráðið, að hún verði heima næstu jólanótt.
Nú kemur aðfangadagskvöld, og er sama veður sem áður, en tunglsljós og björt nótt. En þenna dag verður móður hennar svo snögglega illt, að hún treystist ei til að fara, og segir Sigríður, að fleiri muni verða heima en ætlað var í fyrstu, því faðir sinn muni varla fara. Nú býr fólkið sig til kirkjunnar og fer af stað. En foreldrar Sigríðar og hún eru eftir. Karlinn lokar nú sjálfur bænum og býr um hann sem fyrr og fer nú að lesa.
Þegar hann er búinn að því og líður fram að miðnætti, þá er barið ógurlega að dyrum. Sigríður spyr þá föður sinn, hvort hún eigi ekki að fara til dyra. Karl kveður nei við; kveðst hann sjálfur vilja mæta komendum, því þeir vilji finna sig á undan henni.
Nú fer karlinn út og er svo lengi í burtu, að þeim mæðgum er farið að leiðast. Sigríður segir því við móður sína, hvort hún eigi ekki að vitja um föður sinn. En móðir hennar segir, að hún skuli enn bíða við, því ekki væri betra, að hún færi og kæmi aldrei aftur, ef óvættur hefði grandað föður hennar, og leið enn nokkur tími.
Þá ætlar Sigríður fram, en í því kemur karlinn inn, og er á honum æði mikið. Skipar hann Sigríði að búa sig hið skjótasta, því nú sé sá kominn, er hann hafi geymt hana lengst. Hún kemur hvorki fyrir sig orði né eiði, en spyr þó, hver það sé og hvert hún eigi að fara. Hann segir hún fái að vita það seinna, hún þurfi einungis að flýta sér, því hann vilji ekki bíða.
Móðir hennar spyr, hvernig á þessu standi og í hvaða hendur hann ætli að láta hana; segir hún, að þetta sé undarlegt af honum. Karlinn segir, að þær skuli ekkert hugsa um það.
Nú fer hún að búa sig, og segir hann hún skuli nú kveðja móður sína. Hún gjörir það, og má nærri geta, með hvaða skaplyndi þær hafa skilið. Segir móðir hennar, að þótt von hefði verið á, að sér mundi batna, geti það engan veginn orðið, fyrst að þetta hafi komið upp á.
Nú fylgir karlinn henni út. Þegar hún kemur út, sér hún standa þrjá menn á hlaðinu, og voru þeir líkari tröllum en mennskum mönnum og einn þó stærstur og ljótastur og að því skapi illilegur, svo Sigríði stóð megn ótti af.
Voru þar á hlaðinu fjórir hestar, og var einn af þeim reiðhestur Sigríðar með söðli hennar á. Síðan kemur hinn ljótasti af mönnum þessum og keyrir hana upp í söðulinn. Nú kveðja þeir karlinn með mestu virktum, einkanlega þessi eini. Sigríður kveður hann líka.
Nú ríða þeir af stað, og fer hinn ljótasti á undan, er henni virtist vera biðillinn, og ríða þeir fram fjörð og svo upp á fjöll, og veit hún nú ekkert, hvað þeir fara framast. Ekki tala þeir neitt við hana; og ekki talast þeir heldur við sín á milli; fer hana nú að syfja, svo hún riðar til í söðlinum.
Svona héldu þeir áfram, að henni virtist í þrjú dægur, uns þeir komu að einstígi síðla dags. Þá fara þeir allir af baki. Gengur þessi eini að henni og þrífur hana úr söðlinum og segir henni, stuttur í svari, að hún verði að ganga hér ofan.
Nú teyma þeir hestana, en hún gengur á eftir ofan einstígi þetta; var það svo bratt, að hún varð að styðja sig við lendina á hesti sínum, er aftastur gekk. Þegar þeir voru komnir ofan, sér hún þetta er djúpur dalur, er þeir eru komnir í, og fara þeir nú allir á bak aftur, og kastar þessi sami maður henni óþyrmilega upp í söðulinn, en talar ekkert við hana.
Þeir ríða nú fram dalinn; var hann grasi vaxinn og blóðrauður upp á fjallatinda. Á ein rann eftir dalnum. Engin sér hún þar mannaverk, en hefði hún verið í góðu skapi, þá hefði henni fundist ánægjusamur og fagur dalurinn. Þeir ríða nú þegjandi fram dalinn.
Sér hún þá mikinn hrossahóp með alla vega litum hestum og á ýmsum aldri. Þá kallar þessi eini til hennar og spyr, hvort hún vildi ekki eiga þann, er þetta ætti.
Hún segir: "Betra er yndi en auður."
Nú ríða þeir lengra. Þá sér hún uxaflokk mikinn; engu síður var hann en hestarnir, og voru nautin á ýmsum aldri. Hann kallar þá til hennar sömu orð og fyrr, en hún svarar hinu sama.
Því næst sér hún afar mikinn fjárhóp, svo furðu gegnir; sýndist henni það fleira en allt fé úr Eyjafirði, þótt komið væri í einn hóp. Hann kallar þá til hennar sömu orð, en hún svarar hinu sama.
Enn ríða þeir um stund. Þá sér hún mikinn bæ og reisulegan; sýndist henni hann vel og traustlega smíðaður. Ekki sá hún fleiri bæi. Koma þeir nú að túngarði miklum, var hlið á honum og tröð heim; túnið var slétt og vaxið ýmsum fögrum grösum.
Þeir ríða heim á hlaðið, og sér hún þar litla, en snotra kirkju, og þykir henni það meira vert en allt hitt.
Þeir fara nú af baki, og tekur hinn sami maður hana úr söðlinum og segir við hana: "Hvers viltu óska?"
Hún svarar: "Ganga í kirkju."
Hann mælti: "Þá verður þú að ganga með mér."
Tekur hann þá lykilinn upp hjá sér og lýkur upp kirkjunni og segir henni að fara inn; skuli hún koma aftur heim á hlaðið, þegar hún sé búin að vera í kirkjunni eins lengi og hún vilji. Síðan gengur hún inn í innsta sætið og sest þar niður.
En er hún hefur gjört bæn sína, sofnar hún út af, og dreymir hana þá, að bláklædd kona komi upp úr kórgólfinu. gangi fram í kórdyrnar og segi: "Þú ert þá komin hingað, Sigríður Eyjafjarðarsól. Faðir þinn hefur ekki geymt þig til ónýtis. Þessi maður hefur gift sig tveimur konum, og ég er hin seinni, og hefur hann ráðið okkur báðum bana. Kemur það til af því, að þeir eru þrír bræður og eru allir í álögum. En fyrsta kvöldið, sem hann ætlaði að hátta hjá okkur, bar hann upp fyrir okkur spurningar, en við gátum ekki svarað þeim, og því rak hann okkur í gegn. En nú veit ég, hverju við hefðum átt að svara, og vil ég því segja þér það, því vel get ég unnt þér lengri sambúðar við hann en okkur varð auðið."
Segir hún henni þá spurningarnar þrisvar og lætur hana hafa orðin eftir sér og biður hana að muna sig um að taka vel eftir þeim og muna þær, því henni megi ekki verða orðfall og verði hún að svara hverri spurningu, þegar hann sé búinn að bera hana upp, og ekki láta hugfallast, þótt henni sýnist hann vera í versta ham.
Þykist hún hafa þessi orð þrisvar eftir henni. En að því búnu hrekkur hún upp, og sýnist henni, að hún sjái á eftir konunni. Hún man orðin og hefur hún þau nú upp aftur og aftur með sjálfri sér.
Gengur hún nú út úr kirkjunni og heim á hlaðið. Þar stendur fríð stúlka í bæjardyrum. Hún heilsar Sigríði og leiðir hana inn; segist hún vera systir bræðranna, og er hún skemmtileg í tali. Hún sýnir henni nú allt uppi og niðri í bænum, og finnst henni mikið um þá reglusemi og fegurð, sem þar var á öllu; auður var þar og ákaflega mikill, en ekki sér hún fleira fólk en þá bræður og stúlkuna, systur þeirra.
Nú leið hálfur mánuður. Þá segir stúlkan henni, að nú standi til brúðkaup þeirra, og fagnar Sigríður lítt þeirri frétt. Nú kemur brúðkaupsdagurinn, og er nú búist við með mestu viðhöfn. Þar kemur prestur og nokkurt fólk annað; eru þau nú gefin saman og svo haldin veisla, og er nóg af öllu, bæði vínföngum og öðru.
En að veislunni endaðri fer hver maður sem skjótast á burt, en bræðurnir eru orðnir svíndrukknir, svo að þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð, og láta þeir nú svo illa sem verstu tröll. Hús eitt lítið var út úr baðstofunni, og héldu þeir sig þar, er þeir voru í þessum ham; eru þeir nú að svalli þessu fram á nótt.
Þá segir stúlkan til Sigríðar, að ekki dugi að fresta því að ganga til hvílu. Fylgir hún þá Sigríði í lítið afhús, er ætlað var fyrir svefnhús hjónanna og var allsnoturt, og eru þær nú báðar í döprum hug. Stúlkan segir Sigríði að hátta fyrst, hann muni koma bráðum. Sigríður háttar nú.
En þegar lítil stund er liðin, snarast þeir bræður fram og fara hver í sinn stað, en brúðguminn kemur inn og sest á rúmstokkinn hjá Sigríði, mjög illúðlegur, og ber upp fyrir henni spurningarnar, og um leið lést hann vera að þreifa eftir einhverju niður með rúmstokknum. En óðar en hann hafði sleppt spurningunum, hafði hún svarað honum hinu rétta, er konan hafði sagt henni.
En í þessu fellur hann á gólfið í ómegin og er þá orðinn hinn fríðasti maður. Eins fór með bræður hans. Kom þá fjöldi fólks að stumra yfir honum og hinum tveimur.
Nú þykir Sigríði taka að vænkast ráðið, og sýnist henni hann ganga næst þeim að fegurð, er forðum kom á gluggann á jólanóttina. Nú raknar hann við og háttar hjá henni, og er hann og bræður hans nú stilltir og viðkunnanlegir menn. Takast nú með þeim Sigríði góðar ástir.
Um morguninn, þegar hún kemur á fætur, fer hún út að skoða sig um; sér hún þá bæi og fólk beggja vegna í dalnum og nóg af körlum og konum á heimilinu. Sigríður er nú í góðu yfirlæti; hefur hún nóg af öllu og má ráða öllu, er hún vill, því maður hennar var henni mjög eftirlátur.
Að ári liðnu eignast þau eina dóttur, er Sigríður hét, í höfuð móður sinni. Þegar stúlkan óx upp, var hún eftirmynd móður sinnar að sjón og hegðun allri.
Dalbúar voru vanir að fara í kaupstað á hverju sumri allir saman og voru ekki skemur í burtu en þrjár vikur. Maður Sigríðar býður henni að fara í kaupstað sér til skemmtunar, en hún kveðst ekki vilja það, og það því síður sem hún væri nýbúin að eignast barn, er hún þyrfti að annast. Hann fer nú í kaupstað. En þegar hann kemur aftur, fær Sigríður með honum bréf frá föður sínum þess efnis, að móðir hennar sé sáluð og megi hún vitja arfs í Eyjafjörð. Hún skrifar föður sínum næsta sumar, er maður hennar fór í kaupstað, að hann skuli skipta arfi sínum nilli fátækra í Eyjafirði, því hún hafi nógan auð.
Nú er þess að geta, að á þriðja sumri, er stúlkan, dóttir Sigríðar, var þriggja ára, var það einn góðan veðurdag, að binda átti hey af engjum hjá Sigríði; þá var enginn heima nema Sigríður og barnið. Þá er barið að dyrum. Hún kemur til dyra og barnið með henni. Hún sér, að maður, fríður sýnum og tígulega búinn, stendur fyrir dyrum. og hjá honum fallegur hestur með söðli. Hann gengur til hennar, heilsar henni og biður um að drekka. Hún tekur vel kveðju hans, fer inn, sækir mjólk og færir honum. Hann drekkur og fær henni askinn. Hún fer inn og sækir í hann aftur.
En þegar hún kemur út, er hann allur á burt og barnið líka, því það hafði verið á hlaðinu á meðan að leika sér. Henni verður bilt við þetta og þykir undarlegt, að hún skuli hvergi sjá veður né reyk eftir af honum; og þykir henni hann ótrúlega fljótt horfið hafa. Hún leitar samt úti og inni og kallar á barnið, en það kom fyrir ekki.
Í þessu kemur drengur einn heim með heyferð. Hún kallar til hans og segir honum að taka ofan sáturnar í flughasti, taka einhvern fljótasta hestinn og ríða til manns síns og segja honum, að sér liggi lífið á að finna hann. Drengur gjörir þetta. Bóndi kom þegar heim, og sagði Sigríður honum frá hvarfi barnsins, og varð honum mikið um, en stillti sig þó vegna konu sinnar.
Var nú fólkið kallað frá heybindingunni. Fékk hann svo alla úr dalnum til að leita; var leitað í þrjá daga í allar áttir, og kom fyrir ekki.
Lagðist nú Sigríður í rekkju og lá nokkra stund; töldu allir hana af. Bóndi hughreysti hana sem hann kunni. Eftir missiri fór Sigríður á fætur aftur, en var þó jafnaðarlega föl og dauf. Líða nú fram tímar. Hann býður henni að fara með sér í kaupstað , en hún kvaðst ekki hafa neina ánægju af því.
Nú líða svo tólf ár, að ekkert ber til tíðinda. Þá ber það við eitt sumar, að þeir bræður búa sig í kaupstað. Þá vekur Sigríður máls á því, að sig langi til að fara fremur venju, og heldur hún það ekki vera einleikið.
Bóndi hennar verður þessu feginn og vonar, að henni muni gleymast missirinn, og tekur undir þetta. Lætur hann söðla besta hestinn sinn handa henni. Fara nú allir af stað í kaupstaðinn, og er ekki getið ferða þeirra, uns þeir koma í hann; þeir taka af nálægt kaupstaðnum, því kvöld var komið.
Um morguninn segir hann Sigríði konu sinni að koma með sér til búðar kaupmanns og sjá sig um, því þar sé margt að sjá. Segist hann hafa alla sína verslun við einn kaupmann og séu hér þó fleiri kaupmenn.
En er hann var með hana á leiðinni til búðarinnar, gjörði svo mikla skúr, að hann fór með hana inn í hús eitt. Þar sat inni kaupmaður og var að skrifa. Þau hjón heilsa honum, en hann tekur vel kveðju þeirra. Þar voru ekki fleiri í stofunni en kaupmaður.
Maður Sigríðar biður kaupmann að lofa konu sinni að sitja þar inni, meðan skúrin gangi af. Kaupmaður segir það velkomið, tekur stól og setur öðrum megin við borðið, er hann sat við, og bauð henni að sitja þar. Fjallabúi fer svo út aftur, en Sigríður situr þar eftir.
Kaupmaður sat og skrifaði. Engu orði varpaði hann á Sigríði, en það sér hún, að hann gefur henni smátt og smátt auga; þykir henni sem hún hafi séð einhvern tíma sama svipinn. Loks ávarpar kaupmaður hana og spyr, hvort hún hafi aldrei komið þar í kaupstað fyrr. Hún neitaði því. Hann kvað sér þykja undarlegt, að hún skyldi aldrei hafa komið með manni sínum, og segir, að hann sé sér alkunnugur. Hún segir, að sig hafi aldrei langað til þess og hafi sér þó staðið það til boða; en núna hafi sér dottið í hug að fara einu sinni. Hann segir, að það hafi verið vel farið, að henni hafi dottið í hug að fara núna.
Kaupmaður hættir nú að skrifa og spyr hana enn fremur, hvort þau hjón eigi ekki nein börn. Hún kvað nei við og brá lit. Hann tekur eftir því, brosir við og segist ekki trúa, að hún segi sér satt. Hún segir, að hann ráði, hverju hann trúi, en ekkert barn eigi þau nú. Hann segist þá vera ríkari en hún, því hann eigi unga stúlku, en sé þó ógiftur, og kveðst hann vilja sýna henni hana til skemmtunar.
Hann stendur þá upp og gengur í hliðarherbergi, er var út úr stofunni; er hann litla stund í burtu og kemur aftur með stúlku, er Sigríður ímyndaði sér, að væri á fimmtánda eða sextánda ári. Hún heilsar stúlkunni og sér, að hún er fríð og efnileg og mjög skrautbúin.
Kaupmaður segir, að þetta sé stúlkan, er hann hafi getið um við hana. Sigríður hefur eigi augun af stúlkunni og virðir hana vel fyrir sér. Kaupmaður sest nú niður aftur og sér, að Sigríður gjörist litverp í andliti.
Síðan spyr hann Sigríði, hvort hún sé ekki ættuð úr Eyjafirði. Hún kvað svo vera. Hann spyr, hvort hún hafi ekki verið í Möðrufelli. Hún játar því og segir, að foreldrar sínir hafi búið þar. Hann spyr, hvort hún muni ekki eftir, að hún hafi verið heima eina jólanótt. Hún segist muna það.
Hann spyr, hvort hún muni eftir því, að maður hafi talað við hana gegnum glugga. Það segist hún einnig muna.
Hann spyr, hvort hún muni, hvað þau hafi þá talast við. Hún játar því.
Hann spyr, hvort hún haldi ekki, að það sé komið fram, er maðurinn hafi síðast sagt til hennar. Að vísu segist hún halda, að það sé komið fram.
Kaupmaður segist nú ekki geta verið að dyljast lengur fyrir henni og mælti: "Ég er nú hinn sami maður, er þá talaði við þig, og meðkenni ég það nú fyrir þér, að hefðirðu þá lokið upp fyrir mér, þá hefði ég haft þig á burt með mér. En þegar mér mistókst það, kom í mig glettni, og hef ég valdið hvarfi dóttur þinnar, og eru nú tólf ár síðan, en þá var hún þriggja ára, og er þetta hún, sem hér er nú hjá mér, og hef ég farið með hana eins og dóttur mína; hef ég látið kenna henni allar kvenlegar listir og uppfrætt hana eftir efnum. En tilgangur minn með því að taka stúlkuna var að hafa ímynd þína, er ég unni svo mjög, fyrir augunum. Nú hef ég meðgengið allt fyrir þér, en nú er undir þér eða ykkur hjónunum komið, hvort mér heppnast áform mitt. Ég viðurkenni, að ég hef reitt þig til reiði, en þó vil ég biðja ykkur um stúlkuna til eignar."
Sigríður segir það satt vera, að hún hefði ekki getað uppfrætt hana eða menntað eins vel, en ekki segist hún vera einráð um gjaforðið.
Kaupmaður segist ekki bera neinn kvíðboga fyrir manni hennar, því þeir séu góðir kunningjar. Í því kemur drengur einn framan úr húsinu, og gjörir Sigríður boð með honum, að hún vilji finna mann sinn, og kemur hann að vörmu spori. Sigríður segir honum þá upp alla söguna, og verður þar mikill fagnaðarfundur.
Þá hefur kaupmaður upp bónorð sitt við bæði hjónin, því hann segir, að stúlkan sjálf sé viljug. Faðir stúlkunnar segist ekkert hafa á móti því, ef það sé vilji móður hennar, og sömuleiðis stúlkan sjálf. Gáfu þær þegar jáyrði sitt og fastnaði kaupmaður stúlkuna.
Að því búnu segir kaupmaður við hjónin, að stúlkan megi fara heim með þeim, fyrst hann sé viss um, að enginn taki hana frá sér, og megi hún vera hjá þeim þrjú ár þeim til ánægju; kveðst hann ekki vera svo bráðlátur, að hann kæri sig um að eiga hana. fyrr en hún sé orðin átján vetra.
Er þá stúlkan spurð að því, hvort hún vilji heim fara með foreldrum sínum. En hún segist ekki geta það, því hún geti ekki séð af honum einn einasta dag. Foreldrar hennar segja henni, að hún skuli ekki leggja það á sig, því þau viti, að hún elski hann fyrir alla meðferð hans á henni; segjast þau vera vel ánægð með að vita af henni þar, og hafi þau lengur verið án hennar, og varð hún kyrr.
Þegar hjónin höfðu lokið erindum sínum, héldu þau heimleiðis. Að þremur árum liðnum fór Sigríður með manni sínum aftur í kaupstað, og hélt þá kaupmaður brúðkaup sitt með mestu viðhöfn. Er ei annars getið en að kaupmaður og kona hans lifðu vel og farsællega til ellidaga.
En Sigríður fór heim með manni sínum, en fór hvert sumar eftir þetta í kaupstað að finna dóttur sína. Sigríður og maður hennar lifðu til ellidaga í dalnum. Og lúkum vér svo sögunni af Sigríði Eyjafjarðarsól.
Netútgáfan - desember 1997