SAGAN  AF  SIGURÐI  KÓNGSSYNI  OG  INGIBJÖRGU  SYSTUR  HANS



Eins og tíðum gjörist réð konungur ríki í landi nokkru; hann átti drottningu og við henni tvö börn er nefndust Sigurður og Ingibjörg. Áður en börnin voru fullvaxin, en þó stálpuð nokkuð, þá dó drottning móðir þeirra. Varð konungur þar af mjög hryggur svo hann sinnti engu, heldur var einlægt að trega konu sína og var tíðum hjá legstað hennar.

Þegar þannig hafði gengið nokkra stund leiddi ráðaneyti hans honum fyrir sjónir að hann hlyti að ráða bót á hörmum sínum og kváðu það ei verða betur með öðru móti en með því að hann leitaði sér ráðahags eða sendi menn er skyldu framkvæma þetta erindi.

Féllst konungur á þetta ráð og gjörði út skip og menn. En er þeir voru komnir út á rúmsjó kom á þá óveður mikið; komust þeir þá í hafvillur og vissu ekki hvert þeir héldu og létu einungis veðrið ráða. Loksins komust þeir með öllu heilu og höldnu að landi nokkru sem þeir ekki þekktu. Gengu fyrirmennirnir á land, en létu aðra eftir vera og gæta skips.

Þeir er farið höfðu af skipi gengu nú á land upp og hugðu það ónumið vera þangað til fyrir þeim verður kot eitt. Gengu þeir þar að og vildu vita hvert þar byggju menn eður ekki. Þar fundu þeir konu eina heldur roskinlega, en rétt þokkalega.

Hún spurði þá hverjir þeir væru og hvaðan þeir kæmu. Sögðu þeir henni allt af létta og hverra erinda þeir færu. Fengu þeir þá einnig að vita hvar þeir voru að komnir. Lætur hún mikið yfir því að það hafi illa farið að þá hafi borið þar að landi þar þeir ekki gæti framkvæmt þar erindi sín.

Af því dagur var að kvöldi kominn og veður tók að versna báðu þeir þessa konu gistingar. Tók hún því fjærri í fyrstu og sagði að híbýli sín væru ekki fyrir þá sem setið hefðu í höllum konunganna, en lét þó til leiðast um síðir.

Leiddi hún þá inn og þótti þeim þar fremur vera skrautlegt en kotungalegt. Þegar lítil stund var liðin setti hún fram borð og bar fram rétti er þeim virtust konungum fullvel sæmandi.

Spurðu þeir hana er þeir sátu undir borðum hvert hún væri ein í bæ þessum; sagði hún að svo mætti heita þó hún hefði dóttur sína hjá sér sér til skemmtunar. Báðu þeir að þeir fengju að sjá hana. Konan var treg, en lét það þó eftir þeim og sótti dóttur sína.

Urðu konungsmenn þá frá sér numdir af feginleika því þeim þótti mærin svo fríð að ei gæti hjá því farið að konungi geðjaðist mjög vel að henni og hófu strax bónorð til hennar fyrir hönd konungs. Þessu tók hin aldraða sem gamni og svaraði á þá leið að það væri harla líklegt að konungi félli karlsdóttir vel í geð. Kvað hún betra fyrir þvílík kvendi að komast ekki til þvílíkrar tignar, þar ei væri annað vísara en þær konur væru vonum bráðar sviptar sæmdinni aftur.

Létu þeir hana þá skilja að þeim væri fullkomin alvara. Varð það þá eftir langa mæðu að hún lét til leiðast og hét að dóttir sín skyldi með þeim fara þó með því skilyrði þeir kæmu með hana til sín aftur ef konungi litist annan veg en þeim um fríðleik hennar og atgjörvi.

Þessu hétu þeir og sváfu af um nóttina, en að morgni beiðast þeir að mærin komi með þeim til skips. Sagði móðirin að svo skyldi vera þegar þeir væru búnir að flytja til skips reytur þær er hún hefði meðferðis. Vóru nú einnig kallaðir þeir sem við skipið höfðu dvalið því alla þurfti til að bera farangurinn, svo var hann mikill, en þegar það var búið fylgdust þær niður til sjávar og voru um eitthvað að ræða sín á milli. Gátu konungsmenn ekki komist eftir hvað það var, nema það heyrði einhver að sú aldraða kvaðst mundi senda henni steininn.

Þegar þeir voru komnir til skips sagðist gamla konan ætla hér staðar að nema, minntist síðan við dóttur sína og bað þeim öllum heilla. Að því búnu drógu þeir upp festar og létu á haf út.

Gekk þeim ferðin vel og lögðu skipi sínu ei alllangt frá borginni. Varð konungur brátt var að þeir voru komnir og gekk með sveit manna móti þeim; tók hann feginshendi móti þeim, en einkum varð hann glaður þegar hann leit brúði þá sem þeir höfðu kjörið honum til handa. Gengu þau nú öll saman inn í borgina og var þá slegið upp veislu mikilli. Gekk konungur skömmu síðar að eiga mærina og unni hann henni mikið.

Litlu eftir að hann hafði átt þessa drottningu sína varð hann að fara í annað konungsríki til að útkljá um áríðandi ríkismálefni. Hann lét því búa út skip, en áður hann legði á stað bað hann drottningu fyrir að gæta vel barna sinna og hét hún því. Síðan lagði hann á stað þegar byrjaði; gekk honum ferðin vel og komst þangað er hann hafði ákveðið.

Víkur nú sögunni frá honum og heim í ríki hans. Eftir að konungur var farinn var það einn góðan veðurdag að drottningin fór til systkinanna Sigurðar og Ingibjargar barna konungsins og bað þau að koma og ganga með sér til skemmtunar með sjávarströndinni, en þau vildu ekki fara því þau hófðu illan grun á þessari stjúpu sinni. Hún lét þá sem sér þætti fyrir og sagðist hafa vald til að skipa þeim að koma ef þau vildu ekki gjöra það fúslega. Þorðu börnin þá ekki annað en fara með henni.

Þau gengu síðan þrjú niður til sjávar; var þá í fjörunni steinn einn stór eða eitthvað er líktist steini; var hann ólíkur öðrum.

Gengu þau að steininum, þá mælti drottning: "Ljúktu þér upp" og steinninn laukst upp.

Lét hún börnin inn í hann og velti síðan ofan í sjó og fór svo heim aftur til borgar.

Börnin bæði sem voru í steininum fundu að hann lá ekki kjur, heldur leið áfram í sjónum. Leið svo nokkra stund þangað til þau fundu að hann nam staðar. Ímynduðu þau sér að þar mundu þau vera komin að landi, hvers vegna Sigurður mælti sömu orðum og drottningin þegar hann laukst upp.

Fór nú á sömu leið, að steinninn laukst upp fyrir þeim svo þau komust út. Þau gengu á land og virtist þeim sem það mundi óbyggt vera svo þau gætu þar hvergi skjól fundið, hvers vegna þau bjuggu sér til kofa einn og ætluðu að láta þar fyrirberast.

Sigurður sem heima hafði verið vanur við veiðar hafði áður en systkinin lögðu á stað með drottningu stjúpu sinni, stungið á sig pístólu og dálítið er henni til heyrði og þar að auki hníf og hljóðpípu.

Þegar þarna var komið hugði Sigurður að reyna til að skjóta dýr og fugla þeim til viðurværis, svo hann gekk á land upp, en þá varð hann þar var við bæ einn lítinn, sér samt engan mann.

Hann leggur síðan að koti þessu og fer upp á eldhússtrompinn; sér hann þar kerlingu sem er að skara eld úr hlóðunum og eys honum aftur milli fóta sér. Sér hann á háttalagi og aðferð hennar allri að hún muni blind vera, svo honum líst það ráðlegt að læðast inn og reyna hvert hann geti ekki náð eldneista hjá henni.

Þetta gjörir hann og gekk honum það greiðlega. Varð hann þá þess var að kerling mundi þarna ein vera. Því næst leggur hann á stað með eldinn til systur sinnar og biður hana fyrir alla muni að láta hann ekki deyja, en hún sem var óvön að fela eld lét hann drepast á hverri nóttu svo Sigurður mátti einlægt brúka sama ráðið til að ná eldinum.

Þarna lifðu þau nokkra daga með því að hann skaut þeim til fæðis. Einlægt var eldurinn að drepast hjá þeim, en Sigurður náði honum einlægt.

Heyrði hann þá að kerlingin stundum var að segja við sjálfa sig: "Seint koma hansvítis kögurbörnin."

Hugsaði hann að með þessu mundi hann og systir sín meint vera og varð af því æði skelfdur, en það þótti honum verst að systir hans var einlægt að biðja hann að lofa sér þangað sem hann tæki eldinn, en það vildi Sigurður fyrir hvern mun að ekki yrði því hún var svo aðhlægin að hún flissaði af hverju einu. Þó var hún þangað til að nauða við hann að hann lét það eftir henni.

Þegar þau komu að kotinu fóru þau eins og hann hafði verið vanur upp á strompinn. Var kerling þá að skara eldinn úr hlóðunum og brúkaði sömu aðferð sem fyrr. Þá gat Ingibjörg ekki að sér gert að hlæja ekki og flissaði æði mikið af þessu.

Þá segir kerlingin inni: "Hæ, hæ, þar eru þau komin."

--Verður hún svo tindilfætt út að þau geta ekki flúið undan, heldur nær hún þeim báðum og dregur inn og í hús nokkurt hvar ekki var allbjart og bindur þau þar sitt við hvern staurinn.

Þó hún gæfi þeim bæði mikið og gott að eta þá þótti þeim samt ill ævi sín því þau komust að raun um hvað við þau mundi gjört verða, þar kerling fór að taka upp á því þá þau höfðu þarna nokkra stund verið, að bíta í fingurnar á þeim og þá sagði hún: "Ekki eru þau nógu feit enn."

Þau leituðust nú við allra bragða að bera sig að losa sig; tókst það Sigurði loksins að naga í sundur bandið á annari hendinni. Gat hann þá náð upp hnífnum sínum og skar þau bæði niður.

Svínin kerlingarinnar voru vön að vera í kofa þeim sem þau voru í. Skar Sigurður tvö af þeim og fló belgi af. Fóru þau nú í belgina og létu kerlingu telja sig út með svínunum, en þegar þau voru skroppin úr klóm hennar þá hló Ingibjörg mikið dátt svo kerling varð vör við að þau voru út komin.

Hlupu þau sem fætur toguðu að gjábakka einum; heyrði kerling skóhljóðið og steðjaði þangað, en þar hún var blind steig hún fæti sínum of framarlega og hrapaði; lét hún þar líf sitt.

Eftir þetta gátu þau verið í næði, en þeim þótti verst að verða þarna einlægt að gista, Milli þess Sigurður var að veiða á daginn þá skemmti hann þeim með því að blása í hljóðpípu sína.

Einhverju sinni bar svo til að þau sáu skip fara þar nálægt landi; herti Sigurður sig þá sem mest hann mátti að blása í hljóðpípuna. Tók þá skipið stefnu að landi; varð ekki lítill fögnuður þegar þau hittu þar föður sinn; var hann á heimleiðinni aftur þaðan sem hann hafði farið áður þau voru látin í steininn. Höfðu skipverjar ekki viljað halda að landi þarna, þar þeir ímynduðu sér þar mundu óvættir einir vera, en konungur réði.

Börnin sögðu nú föður sínum allt hvað gjörst hafði og að þetta væri allt fóstru þeirra að kenna. Konungur bauð að enginn skyldi láta vita af því að börnin væru í för sinni og hélt svo heim.

Þegar hann var kominn gekk drottning á móti honum og fagnar blíðlega, en hann spyr því börnin sín komi ekki með henni, þau hafi þó ætíð verið vön að fagna sér þegar hann hafi komið að. Hún biður hann minnast ekki á það, hér hafi komið veiki í ríkið og hafi þau dáið.

Konungur lést verða hryggur, en þeir er þekktu hann sáu að hann harmaði ekki af alvöru. Hann spurði hvert búið væri að grafa þau og kvað hún svo vera. Vildi hann þá ganga til leiða þeirra, en hún reyndi til að hindra það og sagði að því líkt bætti ekki harma hans, en enginn kostur var annar en hann færi þangað svo honum voru sýndir legstaðir þeirra, en þegar hann kom þangað þá gat hann ómögulega grátið og sagði hann sér þætti það kynlegt.

Gekk það svo nokkra daga að hann fór þangað, en einlægt fór á sömu leið svo hann skipaði að láta grafa þau upp. Það vildi drottning með engu móti. Varð þó svo að vera sem konungur vildi, en þegar kisturnar voru opnaðar voru þar í rakkar, en engin börn.

Sagðist þá konungur sjá að hér væru brögð í tafli og kvaðst vilja ráða drottningu af dögum, en hún bað sér griða og kvað ekki mundi langt þess að bíða að hún andaðist, og fór svo sem hún hafði sagt.

Hún hafði beðið fyrir að Sigurður konungsson yrði látinn vaka yfir sér fyrstu nóttina eftir andlát sitt. En við hirð konungs var karl einn margfróður, að nafni Bangsemon; hann kvað það eigi ráðlegt að láta Sigurð vaka og bauðst hann til þess. Tóku allir fegins hendi móti boði því, því þá grunaði margt um drottningu.

Fyrstu nóttina þegar karlinn kom og lauk upp hurðinni þá mælti hún: "Eru fölar fætur mínar?"

Hann svarar: "Já, sem heystrá, Hettugríma."

"Komum við þá að glíma," segir hún og rauk á fætur og á karlinn, en hann stóðst fyrir henni. Sagðist hún vita að þetta væri ekki konungsson og hún væri svikin. Bað hún nú fyrir alla muni að Sigurður kæmi næstu nótt og lét karl sem svo mundi verða, en að morgni sagði hann frá því er gjörst hafði og bauðst til að vaka einlægt, og þótti það vel boðið og launa fyrir vert.

Var drottning í rauninni ekki dauð, en með fjölkynngi sinni lét sýnast sem svo væri og það vissi karlinn. Þá þótti henni sér ekki lengur mögulegt við að haldast, fór hún því þaðan í burtu og í annað konungsríki, gjörði sig þar að barni og var úti á skógi þar sem konungur var vanur að vera á dýraveiðum. Fann hann þá þessa fríðu stúlku og flutti til hallar. Varð hún óskabarn konungs og drottningar.

Þarna var þá einnig kominn Bangsemon karl og var hann ekki rétt góður við hana því þegar hún bað hann gefa sér mat lét hann hana musla upp roðarusl sem haft var þar í tunnum og voru afgangsleifar, og þegar hún var þyrst lét [hann] hana þamba blátt vatn. Vogaði hún ekki að eta mikið í konungshöllinni því þá hefði komist upp að hún var ekkert barn í rauninni.

Ætíð þegar hún fann karlinn lét hún sem hann hefði gjört sér eitthvað illt og gat svo að lokunum rægt hann að hann átti að líflátast og verða brenndur á báli.

Á leiðinni til bálsins sem var fyrir utan borgina bað karlinn að hann mætti segja ævisögu sína, en konungur vildi ekki leyfa það, kvað hann vilja tefja tímann. Þá sagði karlinn að hann skyldi líta heim til borgarinnar, en hafa ekki allan hugann á lífláti sínu.

Konungur leit við og sá að búið var að kynda bál í borginni svo honum leist að snúa heim aftur og lét karlinn koma líka, sem fekk því til vegar komið að þetta ímyndaða barn sem nú hafði kynt bálið í borginni væri látið segja ævisögu sína; kom þá upp hið sanna; og síðan sagði karlinn sína og bar allt saman.

Þá var króganum hrundið út á bálið, en stelpan reif í brjóstið á drottningu og kleip þar úr stykki. Hafði hún ætlað henni þennan dauðdaga, en gjörast sjálf drottning. Svo var hún mögnuð að hún vildi ekki brenna, en þó fór það svo að megnið brann, og ekki er getið að það sem ekki vildi brenna yrði að meini.

Finis.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - október 1998