Snorri Jónsson afi móður minnar andaðist 1821. Móður mína dreymdi hann um vorið 1826. Þá hún var stödd í klukknaportinu framan við kirkjuna þykir henni afi sinn koma úr gröf sinni norðanvert við kirkjunni í mussu og með parruk og hattinn í hendinni, gengur að henni og segir: "Þú átt að ganga beinlínis eftir guðs orði."Þar eftir gengur hann fram eftir kirkjustéttinni, hittir þar síra Sæmund og setur upp á hann hattinn sinn, snýr síðan aftur og ofan í holu sína.
Um vorið þann 6. apríl 1822 missti hann konu sína Guðrúni. Var hún jörðuð einmitt í sama stað og hann mætti prestinum.
Um vorið 1826 - áður en móðir mín fór austur - dreymdi hana tvo drawna: Hún þóttist koma til Keflavíkur um vorið 1825 í búð Gunnarsens. Var þar ös mikil og fjölmenni og voru menn sem óðast að taka út glös á ýmsri stærð, sum full, sum hálf og í sumum rann aðeins um botninn.
Hún spurði hvar glas væri til handa sér. Henni var fengið glas mjög stórt, hér um bil sjö lóða glas. Var það fullt nema sem svaraði fingursbreidd neðan við axlirnar er tómt var.
Margir voru þar af mönnum þeim er hún þekkti, en miklu fleiri óþekktir. Einn af þeim sem hún þekkti var Eiríkur Þórðarson, Nikulássonar í Hlíð, Jónssonar á Núpstað, Bjarnasonar. Í glasi hans rann aðeins um botninn. Eiríkur andaðist um haustið.
Um vorið 1826 eitt kvöld er móðir mín var nýlögzt út af er sagt á glugga þeim er yfir henni var: "Þeim er sýndur heimsbrestur!"
Hún vissi ekki annað - og veit ekki enn nú þann dag í dag - en hún væri alvakandi. Þetta bar að litlu áður en síra Sæmundur fór í sjóinn. - Hinn draumurinn er þannig:
Móðir mín þóttist stödd að Gróf í Mýrdal; var þar ærið hár viðarköstur á hlaðinu, svo hár að hún var stödd í forsælu undir honum. Hún vissi að sér mundi vera atlað að bera nokkuð af honum "heim"; batt sér því af honum byrði. En hún var svo þung að hun streittist við og örmagnaðist að bera hana, en vaknaði áður en hún var komin heim.
Fyrir austan Eystri-Sólheima er hraunbelti og hraunhnúkur hár í því norðanverðu er Háihnúkur heitir. Í hrauni þessu eru hraungjótir nokkrar og djúpar. Hraunið liggur milli Fells og Sólheima.
Árið áður - eða um veturinn - áður foreldrar mínir fluttust hingað að Steinum dreymdi móður mína það hún væri stödd í hrauni þessu framanverðu, í gröf myrkri og ærið djúpri. Leitaðist hún við að komast upp úr henni, en gat einkis kostar; þenkti með sér að þetta mundi vera Völundarhúsið þar eð hún rataði ekki út né komst úr henni; tekur því - í þeirri óyndisró er á henni var orðin - ofan í versið þetta og söng fyrir munni sér: "Völundarhús mannsævin er" í 38. hugvekjusálmi, 6. versi.
Þar eftir var hún komin úr gryfjunni, án þess hún vissi hvenær eða hvernig, á flatir þær er liggja framan undan nefndum hnúk. Þóktu henni þær þá svo fagrar og yndislegar fram yfir það sem henni gat skilizt að væri, og undi hún sér þar svo vel.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - júní 2001