Þegar vér ríðum austan um Lyngdalsheiði vestur á Þingvöll ríðum vér upp hjá Þrasaborgum. Þar koma saman lönd þeirra bæja sem liggja umhverfis að heiðinni; þar er heiðin hæst og má þaðan sjá víðs vegar um Árnessþing. Þaðan sést Þingvöllur og Þingvallavatn og Almannagjá. Er hún dimm ílits að sjá og eins og varnarveggur vestan til við Þingvöll. Hrafnagjá sést eigi héðan því sá barmurinn er hærri sem nær er. Hér er ekki óskemmtilegt að vera þegar logn er á vatninu á morgnana og fjöllin skoða sig í vatninu báðumegin eins og í skuggsjá, en ólík eru þau nú því er þau voru þá er þau kváðu undir lögsagnir frelsishetjanna á Þingvelli. Skógarnir eru horfnir úr hlíðunum og runnar á hann sandskriður. Sólin gyllir reyndar tinda þeirra enn, en vatnið minnir þá á það hvað þau hafa misst. Héðan sést líka Úlfljótsvatn sem rennur að sunnan úr Þingvallavatni, þá Álftavatn þar suður af, en Álftavatn rennur aftur í ós þann er Árnesingar kalla Sog suður í Hvítá að austanverðu við Ingólfsfell. Þá kemur Hvítá úr landnorðri og sést bera í hana hér og hvar milli holtanna. Hún kemur fram fyrir norðan Vörðufell og krækir suður fyrir Hestfjall og rennur fyrir sunnan Ingólfsfell og þar hverfur hún sjónum vorum. En þá verður oss litið upp á Ingólfshaug þar sem Ingólfur landnámsmaður á að vera heygður. Fyrir norðan oss sjáum vér Kálfatinda; þeir eru þrír sem hæst bera. Þeir rísa upp samhliða og eru víðir vellir umhverfis þá að neðan. Það eru Laugarvatnsvellir og minnumst vér þá þess er Flosi fylkti þar liði sínu áður hann reið á Þingvöll.Nú ríðum vér vestur eftir heiðinni og sjáum vér þar ei annað en gráan mosa og stöku graslaut á milli hólanna sem eru lágir og flatir hið efra, og hallar þá ávallt jafnt undan fæti þangað til vér komum vestur af heiðinni. Þar komum vér í brekku eina er Drift heitir. Hún liggur vestan og norðan í heiðinni neðan frá Kaldárhöfða sem stendur við ósinn er rennur úr Þingvallavatni í Úlfljótsvatn, og nær norður undir Laugarvatnsvöllu og má glögglega sjá hana af austanverðri Mosfellsheiði. Þessi brekka skilur Lyngdalsheiði frá Þingvallahrauni og Grímsnesið frá Þingvallasveit. Vér ríðum um brekkuna og sjáum þar húsatóftir á hægri hönd við oss. Ég ætla nú að segja samferðamönnum mínum sögukorn af tóftum þessum og skulum vér á meðan setjast niður í brekkuna og hvíla oss.
Í fyrndinni var hér selstaða; bóndinn frá Kaldárhöfða átti hér í seli. Sólveig hét dóttir hans, kvenna fríðust og vel að sér um alla hluti; hún var í selinu.
Einn morgun sat Sólveig úti undir selveggnum. Veður var hlýtt og heiðríkt loft. Brekkan var allfögur og uxu þar alls konar blóm í henni. Sólveigu fór að lengja eftir smalamanni og gekk upp á brekkuna til að vita hvort hún sæi ei til hans. En er hún kom upp í miðja brekkuna veit hún ei fyrri en maður rauðklæddur stendur við hlið hennar; hann var forkunnar fríður.
Hann yrðir á hana að fyrra bragði. "Sæl vertu fríða mey," segir hann, "ég hef séð þig á hverjum morgni og hverju kvöldi þegar þú hefur gengið á kvíarnar; ég hef gengið við hlið þína, en þú hefur eigi orðið þess vör því þú sér ekki nema það mannlega. Ég hef oft og einatt setið við hlið þína þegar þú hefur setið hér uppi í brekkunni á kvöldin. og tafið fyrir þér. Mennirnir vita ekki hvað í loftinu og í hólunum býr; það eru ekki einungis lifandi verur á yfirborði jarðarinnar, heldur og í loftinu og í miðju skauti hennar. Eða heldurðu að allur þessi geimur sé til einkis gerður af alföður? En hvar sem lífið er þar er og ástin. Hún sigrar mennina og hún sigrar þær verur sem máttkari eru en mennirnir. Hún á sér eins stað og þróast inni í hólunum eins og á yfirborði þeirra. Hún þarf ekki yl sólarinnar því hún er sjálf sól; hún þarf einungis andstæði til að lenda á."
Sólveig varð ekkert hrædd og ekki vissi hún af sér fyrri en hún lá í faðmi rauðklædda mannsins. Þá raknaði hún við eins og af draumi og ástin sem hún hafði áður gert sér einungis daufa hugmynd um hafði nú gagntekið hjarta hennar. Maðurinn hvarf og hún var ein. Henni fannst eins og sig vantaði eitthvað og söknuður þrýsti að brjósti hennar. Smalinn var kominn á kvíarnar og hafði hún eigi orðið vör við þegar hann kom.
Eftir þetta heimsótti rauðklæddi maðurinn hana oft og sat hjá henni, en engi vissi það nema hún. En svo fór að hún átti barn í selinu og sat rauðklæddi maðurinn yfir henni og fór burtu með barnið. Eins vitjaði hann hennar eftir og áður meðan hún var í selinu.
Eitt laugardagskvöld var sólin að renna til viðar og sló gullroða á jaðrana á skýjabólstrunum sem voru að hnappa sig saman í loftinu. Himinninn var þungbúinn og leit rigningarlega út og þokubeltin liðuðust um fjallatindana.
Féð var að renna heim á kvíarnar á bæ þeim sem Villingavatn heitir í Grafningi. Húsfreyja sat á bæjardyraþrepskildinum og var að lyppa og skemmta bónda sínum sem var að kurla úti á hlaðinu.
Þetta var Sólveig og bóndi hennar; þá voru liðin tólf ár frá atburði þeim sem áður er frá sagt.
"Hvernig ætla að veðrið verði á morgun, hjartað mitt?" segir Sólveig, "mér sýnist hann líta svo regnlega út."
"Það er ekki að vita," segir bóndi, "mér þykir líklegast það verði stormur á útnorðan."
"Ósköp geispa ég," segir Sólveig, "ég held það sæki einhver að mér."
"Þig er líklega farið að syfja, góðin mín," segir bóndi, "og það mun vera öll aðsóknin."
"Nei, taktu eftir," segir hún, "hér kemur einhver í kvöld."
Bóndi stendur þá upp og hættir að kurla og verður litið út í túnið og sér tvo menn koma. Hann segir: "Ég held þú ætlir að segja satt, góðin mín; þarna koma tveir menn gangandi."
Nú koma þeir í hlaðið og var annar roskinn, en annar ungur piltur og efnilegur. En undireins og Sólveig sér þá hleypur hún inn í bæinn og skilur eftir lárinn og lyppuna í dyrunum. Gestirnir báðu bónda að lofa sér að vera og fengu þeir það. Ekki lét Sólveig þá sjá sig um kvöldið.
Um morguninn fóru hjónin til kirkju og ætluðu að verða til altaris. Þau kvöddu allt fólkið með kossi og báðu það fyrirgefa sér allt er þeim hefði á orðið, eins og þá var siður til og lengi hefur haldist.
Þau fóru síðan af stað, en er þau komu út í túnið spyr bóndi Sólveigu hvert hún hafi kvatt gestina. Hún segir nei.
"Farðu þá heim aftur, elskan mín," segir hann, "og gerðu það og breyttu ekki út af gamalli venju guðhræddra manna."
"Þessa mun þig lengst iðra," segir Sólveig og fer heim grátandi.
Bóndi beið eftir henni stundarkorn þangað til honum fór að lengja eftir henni. Hann fer þá heim; finnur hann þá Sólveigu í faðmi hins eldra komumanns og voru þau bæði örend, en drengurinn stóð grátandi upp yfir þeim. Sagði hann nú bónda upp alla söguna eins og faðir hans hafði sagt honum hana.
Nú er selið í auðn og brekkan moldrunnin; féð er hætt að breiða sig um hlíðina og sjaldan kemur smalinn þar af því hann eigi þar von fjár síns, heldur til þess að ganga um í selinu og hvíla sig á selveggnum áður en hann fer upp á heiðina sem er þung fyrir fótinn af mosanum, og ef til vill að vita hvort hann verði ekki var við huldufólkið í brekkunni. En svo má hann aftur standa upp af selveggnum að hann sér það ekki. En stundum heyra menn áraglammið þegar það rær út á vatnið til að veiða silunginn, en engi sér það og er sagt að það sé æ fyrir góðum silungsföngum.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - maí 2000