RÓSAMUNDA



Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu sér einn son og greinir ekki frá nafni hans. Hann ólst upp sem aðrir kóngssynir að honum voru kenndar allar íþróttir og reistur kastali og ekkert til sparað sem hafa þurfti enda þótti hann afbragð annara manna.

Í þessu sama ríki var höfðingi einn sem átti dóttur undur fríða; hún hét Rósamunda. Þó hún væri væn og kurteis þótti sá ókostur við hana að henni varð ekkert kennt, hvorki til munns né handa; svo var hún tornæm og ólagin; en orðlögð var hún um allt fyrir fríðleika sakir.

Kóngssonur sá hana einu sinni og varð þegar fanginn af fegurð hennar og hún ekki síður af listum hans og atgjörvi. Kóngsson kemur eftir það að máli við föður sinn og segist vilja biðja sér konu; kóngur spyr hvar hann horfi á um það mál. Kóngsson segir honum að hann vilji enga konu eiga nema Rósamundu. Faðir hans biður hann að nefna það aldrei því hún sé bæði heimsk og fákunnandi sem sögur fari af, og það sæmi ekki að velja sér þá konu fyrir drottningarefni auk þess sem hún sé af ógöfugri ættum komin en hann. Kóngsson vildi ekki deila við föður sinn um þetta, en gat þó aldrei hugsað af Rósamundu og varð eftir þetta mjög þunglyndur, fór einförum og sinnti lítið glaðværðum.

Einu sinni var hann einn á reiki út um merkur og skóga og var að hugsa um sinn hag áhyggjufullur. Kemur þá til hans lágur maður rauðskeggjaður og spyr hann því hann, kóngssonurinn, sé þar einn á reiki, og sé það ekki samboðið tign hans og verðleikum, eða hvað að honum gangi. Kóngsson sagði að hann mundi lítið bæta úr skák fyrir sér þó hann segði honum raunir sínar.

Komumaður sagði að hann vissi þó ekki nema hann gæti bætt úr því sem honum þætti; "og til þess að sýna þér að ég er ekki alls ófróður um hagi þína," segir hann, "veit ég að þú ert harmsfullur af því að þú færð ekki að eiga Rósamundu hina fríðu fyrir föður þínum vegna þess að hún er tornæm til munns og handa".

Kóngsson sagði það satt vera og bað hann í öllum bænum að hjálpa sér fyrst hann væri svo fróðlega að þessu kominn. Tók þá komumaður upp hjá sér járntein lítinn og segir að kóngsson skuli fá Rósamundu teininn og skuli hún þegar hún læri eitthvað til munnsins leggja hann á tunguna á sér, en þegar hún vilji nema eitthvert handbragð skuli hún hafa teininn milli fingranna og muni hún á svipstundu nema hvorttveggja og kunna síðan.

Kóngsson spyr hvað hann vilji hafa fyrir þetta; hinn segir að þetta sé svo lítill greiði að ekki taki því að setja upp á það enda muni hann koma til Rósamundu eftir þrjú ár og eigi hún þá að fá sér aftur teininn og segja sér hvað hann heiti; ef hún geti það muni hún muna eins eftir sem áður allt sem hún hafi lært þó hún skili sér teininum, "en ef hún getur það ekki mun ég sækja hana sjálfa með teininum að þremur árum liðnum og er hún þá mín eftir það, en nafn mitt er Rigdín-Rigdón."

Kóngsson þakkar honum mikillega þessar tillögur sínar og kveður hann síðan. Gengur hann svo heimleiðis miklu léttari í skapi og hugfestir nafn mannsins. Eftir þetta fær kóngsson því framgengt hjá föður sínum og móður að þau lofa honum að sækja Rósamundu og reyna að láta kenna henni kvenlegar listir, en með því skilyrði að ef hún geti ekkert numið skuli hann ekki hugsa á eiginorð við hana. Þetta gera þau nú statt og stöðugt og fer svo kóngsson eftir Rósamundu með fríðu föruneyti, flytur hana heim til kóngshirðar, fær henni teininn og segir henni hvernig hún skuli neyta hans.

En af fögnuðinum yfir því að hann var búinn að fá hana heim til hirðarinnar gleymir hann alveg nafni mannsins sem hann hafði hitt á skóginum. Eru nú Rósamundu fengnir kennarar og konur sem hún átti að nema af til munns og handa og þarf ekki að orðlengja það að henni var allt í augum uppi hvort sem var til bókarinnar eða handanna.

Nú leið til þess er komið var á þriðja árið og gat kóngsson ekki munað nafnið á manninum með nokkru móti; varð hann af því áhyggjufullur meir en áður ef hann yrði nú að sjá á bak unnustu sinni sem var orðin eins vel að sér og hún var fríð til. Í þessu ráðaleysi er hann einn á gangi úti á skógi og kemur fram í eitt rjóður; þar var hóll í rjóðrinu. Hann heyrir hlátra mikla og mælgi í hólnum og skilur að þar eru einhverjir að telja upp hvað margar sálir þeir hafi svikið. Nú fer að fara um kóngsson því hann ímyndar sér að það hafi líklega verið einn af þessum piltum sem hann hafi hitt á skóginum forðum. Hlustar hann nú enn til orðalags þeirra og þykist þó staddur milli heims og helju þar sem hann var kominn. Loksins beyrir hann að þessar stökur eru mæltar fram í hólnum:

"Menn sem að mig kalla ref,
marga orsök ég til þess hef:
Enga vægð öndum ég gef
út þegar skuld mína kref.

Um geng ég allt eins og ljón,
allmargra blindað hef sjón;
mein geri eg mönnum og tjón;
mitt nafn er Rigdín-Rigdón."

Þegar kóngsson heyrir nafnið í seinni vísunni kannast hann við að það er sama nafnið sem hann hafði gleymt og verið lengst hugsandi út af að undanförnu. Hann skrifar nú nafnið hjá sér og gengur heim hress í huga. Síðan lætur hann gera glerskáp svo stóran að Rósamunda gat staðið í honum og skrifa alstaðar á hann "Rigdín-Rigdón" svo ekki varð neinstaðar litið á skápinn, utan eða innan, svo að nafnið blasti ekki við.

Þegar dagurinn kom sem maðurinn hafði gert ráð fyrir að koma og sækja teininn að þremur árum liðnum lét kóngsson Rósamundu fara í skápinn og hafa hjá sér teininn og sagði henni að fá hann þeim sem til hennar kæmi og segja um leið "Rigdín-Rigdón", en ekki mætti hún fara út úr skápnum né láta sér hugfallast hvað sem fyrir kæmi, en muna eftir nafninu sem hann þess vegna hefði látið skrifa á skápinn. Eftir það fer kóngsson burt úr herberginu og læsir því.

Þegar nokkur tími var liðinn veit Rósamunda ekki fyrri til en hún sér mann koma í herbergið inn að læstum dyrum. Hann gengur rakleiðis að skápnum og biður hana að koma út úr honum. En hún lét sem hún heyrði það ekki, réttir að honum teininn og segir: "Taktu við, Rigdín-Rigdón."

Við það sökk þessi gestur niður um gólfið þar sem hann stóð, þegar hann heyrði nafn sitt.

Eftir þetta hélt kóngsson brúðkaup sitt til Rósamundu og settust þau svo að ríkjum með kóngi og drottningu föður kóngssonar. Rósamunda þótti fyrirtaksdrottning um flesta hluti; mundi hún allt það sem hún hafði numið með aðstoð teinsins þó ekki væri betri að honum nauturinn sem allir ætluðu að hefði verið kölski sjálfur.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - júní 1998