======================
Svo bar til að maður kom að Vogsósum og bað Eirík ljá sér hest til að ríða. Maðurinn var sakamaður og ætlaði að flýja á skip sem hann vissi að lá ferðbúið á höfn einni þar við landið.Eiríkur segist verða að reyna að hjálpa honum. "Skaltu taka þér ljósan hest sem þú finnur hérna fyrir utan túnið og ríða honum slíkt sem aftekur. Þú skalt sleppa honum í fjörunni þar sem skipið er og hirða ekki um hann framar."
Maðurinn fann hestinn, tók hann og reið ákaflega, en hesturinn hljóp því meir sem hann reið lengur og bar hann skjótt yfir. Furðaði manninn það mjög hversu hesturinn reyndist, því honum sýndist hann í fyrstunni gamallegur og heldur grannur.
Hann kom að skipinu í því sem létta skyldi akkerum. Tóku skipverjar fúslega við manninum, en hann sleppti klárnum í fjörunni og leysti út úr honum.
Þegar maðurinn var kominn út í bátinn sem flutti hann fram í skipið leit hann við til að gæta að hestinum; sá hann þá ekkert eftir af honum. En hvítan og skininn hrosshaus sá hanu liggja í fjörunni þar sem hesturinn hafði staðið.
Þóktist hann þá skilja hvernig á stóð, að Eiríkur prestur hefði hjálpað sér með konstrum sínum.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - ágúst 2001