Eitt sinn bjó bóndi á Kleif í Fljótsdal sem Páll hét, að auknafni hinn sterki. Eitt haust kom hann til kirkju að Valþjófsstað á Mikilsmessu. Bændur sem þá vóru við kirkju fréttu hann hversu hann hefði heyjað í sumar.Páll mælti: "Svona bærilega. Ég lauk við í gærkvöldi að slá kragann kringum grenið mitt" - svo nefndi hann bæinn - "en aðaltúnið er enn óslegið."
Þeir hlógu nú að þessu, en Páll gaf sig ekki að slíku.
Eitt sumar fór Páll í kaupstað á Djúpavog; þá var Kín þar kaupmaður. Páll biður hann um mjöltunnu vel mælda.
"Viltú ekki tvær?" segir kaupmaður.
"Það má vel vera," segir hinn; "því ég hefi oft lagt annað eins á hann Bleik minn!"
Síðan tekur hann móti tunnunum og leggur sína hvorumegin á Bleik. En er hann kemur skammt inn fyrir kaupstaðinn þá hryggbrotnar Bleikur af ofþunga þessum og um leið brotnar önnur tunnan. Hyggur þá Páll að og sér að sandur er í tunnum báðum.
Af þessu reiðist hann og fer út í kaupstað aftur, tekur þar heila júgfertu og lemur utan búðirnar svo brothljóðar í þeim, en gluggarnir brotna.
Kín verður nú lafhræddur og biður Pál hætta þessu; - "og skal ég," segir hann "borga þér þetta gabb."
Lét hinn sér þetta vel líka. Og enn mælti Kín: "Þú er maður býsna styrkur; fyrst að láta til klakks sandtunnurnar, svo að berja búðirnar utan með slíku stórtré sem þetta er. Skal ég og að sumri um þetta leyti reyna krafta þína ef þú hefur þá hug til að koma hingað."
Páll lést hvergi mundi renna þó slíkir menn sem hann stæði á vegi sínum og koma kvaðst hann að sumri aftur óhræddur. Við þetta skildu þeir og leið svo að næsta sumri að Páll ferðast enn á Berufjörð.
Og sem hann kemur á næstu bæi fréttir hann að kaupmaður hefur fengið blámann úr Austur-Indíum inn á skipinu. Er honum sagt hann sé hafður í virki og nær sem hann komi eigi að slá honum lausum móti Páli. En hann kveðst muni freista til að sjá þenna þræl, og áður hann fer fær hann sér hjá bónda mjóan kaðal og sívefur honum um hægri hönd sér allt upp að öxl; heldur svo búinn af stað.
Og sem hann kemur á plássið er blámaðurinn látinn laus og hleypur hann móti Páli með gapandi ginið, en Páll veður móti honum með hníf í hægri hendinni sem hann áður vafði og rekur hana allt að öxl ofan í blámanninn, rekur um leið hnífinn út um kviðinn og ristir svo fram úr honum.
En sem Kín sér fall blámannsins hleypur hann inn í búðina og læsir að sér dyrunum, en Páll þrífur trédrumb og skýtur á hurðina svo hún fór í mola; hleypur inn og sér að Kín situr fölur af ótta í sæti sínu. Þá mælti Páll:
- "Fínum týni eg fata lit,
- firna undur harðna.
- Kín í þínu sæti sit
- synda hundur þarna."
Er þá mælt að kaupmaður hafi blíðkað Pál með fégjöfum og þeir skilið að svo búnu, en andlitsmynd blámannsins var sett á kamarshurðina á Djúpavog og er mælt hún hafi sést þar allt að skömmum tíma.
En af Páli er það að segja að eftir þetta hreystiverk þótti honum sér fá fangbrögð ofvaxin, en draugurinn Flugandi var þá að ráfa um Fljótsdal hvervetna illur viðureignar.
Eina nótt á hausti er barið á dyr á Kleif og gengur Páll til hurðar, lýkur upp og sér engan kominn og svipar sér síðan út fyrir dyrnar og skyggnist um. Getur hann þá litið hvar Flugandi kemur og ráðast þeir þegar saman og eru að glíma alla þá nótt fram undir dag. Sést enn í dag dældin í túninu á Kleif þar sem þeir glímdu. En um síðir yfirvann hann drauginn. Sagði Páll svo síðar frá að slíka aflraun hefði hann aldrei fyrr í komið. En frá þeim tíma hefur enginn orðið var við Fluganda.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - mars 2001