GALDRAMENN  -  EIRÍKUR  Í  VOGSÓSUM


======================




PEYSAN  FRÁ  DÍSU



Einhvern tíma bar svo við að Þórdís er kölluð var Stokkseyrar-Dísa sendi sr. Eiríki fagurbláa nærpeysu með rauðum bryddingum. Gjörði hún það til þess að reyna sig við hann.

Nú ber svo við að síra Eiríkur ætlar einn sunnudag um veturinn að ríða til kirkju og hafði mann með sér. Þegar þeir voru komnir af stað sagði prestur við meðreiðarmann sinn að hann skyldi rista utan af sér peysuna ef hann sæi sér nokkuð bregða þegar hann sæi kirkjuna.

Héldu þeir nú leiðar sinnar; gáði nú fyldgarmaðurinn vel að þegar hann eygði kirkjuna. En í því hann sá hana leit hann á prestinn; sá hann þá að hann féll af hestinum og leit eins út og hann væri að brenna, því að hann blánaði upp og þrútnaði. Maðurinn var þá ekki lengi að taka hnífinn sinn og risti utan af honum peysuna. Varð þá prestur aftur almennilegur.

En um veturinn var sr. Eiríkur að vinna og spinna gráa ull; síðan fór hann að prjóna og prjónaði nærpils. Þetta nærpils sendi hann Dísu. Henni þótti vænt um pilsið því að það var þykkt og heitt.

Einn dag þegar kafaldsbylur var með frosti fór hún í nærpilsið til þess að skýla sér með því. Seinni part dagsins fór hún út til þess að hella úr koppnum sínum. Segir ekki frá ferðum hennar.

En það er að segja frá Eiríki presti að hann sat inni í bæ um kvöldið; var þá barið knálega að dyrum. Síra Eiríkur bannaði öllum að fara út. Þá var barið aftur og fastar en hið fyrra skipti, en prestur sagði að eigi lægi á að fara til dyra. Þá var barið í þriðja sinn mjög aumlega. Stóð þá sr. Eiríkur upp og gekk til dyra.

Var þar þá komin Dísa aðframkomin af kuldanum og illviðrinu og hélt á koppnum sínum í hendinni.

Síra Eiríkur heilsaði henni mjög kompánlega og spurði hana hvernig stæði á ferðum hennar.

Hún sagði að hann mundi vita hvernig á þeim stæði, en beiddi hann fyrir alla muni að lofa sér inn svo að hún ekki dræpist þar fyrir utan. Var hún þar svo um nóttina í góðum beinleika og bundu þau það þá fastmælum að glettast hvorugt við annað.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - september 2001