ÓVÆTTURIN  SEM  ÁSÓTTI  KONUNA



Það er sagt það hafi verið einu sinni hjón á bæ; þau höfðu eina vinnukonu. Það var altént passi hennar að fara ofan að kveikja í myrkrinu á kvöldin og hún fór altént ein til þess.

En einu sinni sem oftar fór hún fram eins og hún var vön. Svo leið langur tími að hún kom ekki inn aftur svo þeim fór að leiðast sem að inni vóru og var þá farið að hugsa um hana, en þegar að fram var komið þá lá hún sem dauð á eldhúsgólfinu.

Svo var kveikt ljós og farið að reyna til að lífga hana við, en það gekk heldur illa; samt raknaði hún við um síðir og þá var hún spurð hvurt hún hefði orðið nokkurs vör og kvað hún já við.

Hún sagðist hafa gengið fram í eldhúsið eins og hún hefði verið vön og farið að blása upp eldinn og gengið það heldur illa, en þegar hún hefði verið búin að lífga hann nokkuð við þá sagði hún að hefði verið rekið upp ógurlegt hljóð í eldhúsdyrunum. Hún kvaðst ekki hafa skeytt um það og farið að fisa í eldinn aftur, en þegar hún var búin að því dálitla stund þá fannst henni að eldhúsið skelfa.

Hún sagði það hefði gripið sig ógnahræðsla og ætlað að stökkva inn, en sér hefði fundist hún ekki geta það, en hún sagðist hafa fundið fyrir sér sleggjuna og kvaðst hafa tekið hana upp og hent henni fram í eldhúsdyrnar þar sem að henni heyrðist hljóðið vera rekið upp, en í því hún var búin að því þá var rekið upp annað hljóð langtum meira, og eftir það mundi hún ekki eftir sér.

Svo var hún hjá þessum sömu hjónum í sex ár og bar ekki neitt á þessu, en þau pössuðu það að láta hana aldrei vera eina eftir það fór að halla degi.

Einu sinni kom maður og bað hennar, en hún lofaðist hönum ekki með öðrum móti en að hann léti sig aldrei vera eina. Hann lofar því. Svo giftast þau og bar ekki neitt til tíðinda í nokkur ár er koma við þessa sögu nema hann var henni mikið góður og þægilegur.

Þau höfðu eina vinnukonu. Það bar til einu sinni að hún var ekki heima að maður kom eftir þessum fyrrnefnda bónda og bað hann í öllum bænum að koma með sér og taka konunni sinni blóð til reynslu því hún sé næstum dauð úr taki.

Hann segir hönum hann viti nú ekki hvurt hann geti það, gengur inn til konu sinnar og spyr hana hvurt hann megi fara. Hún heldur það, en biður hann í öllum bænum að koma aftur áður en fari að rökra. Hann lofar því og fer svo.

En það kemur í hana ógnarleg langsemi eftir það hann er farinn. Hún er svo að ganga út og inn eftir það að leið á daginn og vita hvurt hún sjái ekki mann sinn koma.

Svo líður dagur að hann kom ekki. Þegar fór að rökra þá kveikti hún ljós og bar til baðstofu og settist svo niður og fór að lesa í bók, en þegar hún er búin að lesa nokkra stund þá heyrir hún að skellt er hurðum fram í bænum og komið inn í baðstofuna.

Hún hugsar svo ekki um það og heldur að sé sjálfsagt maðurinn sinn og heldur áfram að lesa. Samt er hún að hlusta því það fer inn undir pallinn og er að þruska þar. Hana fer margt að gruna að það muni ekki vera maðurinn og leggur frá sér bókina og ætlar að ganga fram á pallstokkinn, en þegar hún er staðin upp þá kemur ógurleg ófreskja upp í uppgönguna og skákar sér upp á pallstokkinn.

Hún sest sem fljótast niður aftur, en þetta færir sig alla leið nær og nær henni þar til hún segir: "Jesú blessaður blóðfaðmur breiði sig út yfir mig og mína," en að þessum töluðu orðum þá hörfaði það ofan undir pallinn.

Í sömu svipum kom maðurinn og segir, þegar hann kemur inn á baðsofugólfið, hvur skrattinn þar sé. Svo kemur hann upp á pallinn og heilsar konu sinni og spyr hana hvurt hún hafi orðið nokkurs vör.

Hún segir hönum eins og var, hvað fyrir sig hefði borið, og sagði það hefði sjálfsagt verið það sama og fyrr hefði hvekkt sig. Sagan segir að hún hafi aldrei orðið vör við neitt eftir þetta. Svo er ekki sagan lengri.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - október 1999