Nú segir frá því, að reimt þótti verða á Eskifjarðardölum, og fór það vaxandi, og urðu svo mikil brögð að því, að ekki þótti fært nema mörgum mönnum saman og á björtum degi. Einu sinni var það, að sex menn voru samferða úr kaupstað á Eskifirði. Þeir fóru sem leið liggur út dalinn, og var nærri dagsetri. Sáu þeir þá, að dró upp biksvartan skýflóka á fjalli því, sem er fyrir norðan dalina og Skagafell er nefnt. Þessi flóki hækkaði, og sýndist þeim seinast sem mannsmynd væri, og þá heyrðu þeir kallað ógurlegri röddu, svo drundi í fjöllum beggja vegna, og sagt: "Heil, heil, systir." Þá heyrðu þeir annað kall að baki sér og svarað: "Ó, heil, heil systir." Þá litu þeir við og sáu standa annað skrípi hinum megin dalanna á fjalli því, sem Slenjudalsfjall er nefnt; heyrðu þeir þá hina fyrri segja aftur: "Hvað er títt, systir?" Þá svarar hin seinni: "Selið er gefið." Þá svarar hin fyrri: "Hverjum þá?" Þá ansar hin seinni og segir: "Fauskhöfðanum honum Jóni í Vallanesi." Þá segir hin fyrri: "Flýjum þá, flýjum systir." Þá svarar hin seinni og segir: "Hvert þá?" "Á Bláskóga," segir hin. Og eftir það hurfu þær sjónum ferðamannanna, og þá rénuðu líka reimleikar, því Tungusel hafði verið gefið séra Jóni, sem þá var prestur í Vallanesi, og hann beðinn að afstýra illvættunum; og þótti mönnum það fljótt rætast.Nú eru reimleikar voru horfnir úr Eskifjarðardölum, fór að verða vart við tröllagang á Bláskógum sunnanlands; treystust menn ekki til að fara þá leið, og lagðist sá vegur niður og hafði þó áður verið fjölfarinn.
Þegar þessu hafði fram farið í tvo eða þrjá vetur, varð það tíðinda, að Þingeyingar rugluðust í ríminu og vissu ekki um jóladag. Tóku þeir þá það ráð að senda mann suður í Skálholt þeirra erinda að fá biskupsúrskurð á þessu vandamáli. Sá hét Ólafur, er kjörinn var til þeirrar ferðar. Hann var maður öruggur og áræðinn og fór upp úr Bárðardal og suður Sprengisand og var seint á degi við Bláskóga. Ekki vildi hann þar bíða og fór fram leið sína. Og sem nær var dagsetri, sá hann, að feikilega mikil tröllkona stóð á fjalli því, sem Bláfell er nefnt og er nærri veginum. Þessi tröllkona kallaði dimmri röddu og sagði:
Þá sagði hann:
- "Ólafur muður,
- ætlarðu suður?
- Ræð ég þér það, rangkjaftur,
- að þú snúir heim aftur.
- Snýttu þér, snúinraftur,
- og snáfaðu heim aftur."
- "Sitjið þér heilar á hófi,
- Hallgerður á Bláfelli."
Þá rumdi aftur í henni:
- "Fáir kvöddu mig svo forðum,
- og farðu vel, ljúfurinn ljúfi."
Síðan segir ekki af ferðum hans, fyrr en hann kom í Skálholt, og fékk þar góða fyrirgreiðslu, og að erindinu afloknu bjóst hann burt og hinn sama veg. En þegar hann kom á Bláskóga, varð þar fyrir honum tröllkona, og sýndist honum hún ekki vera jafngógurleg því, sem hann hafði ímyndað sér. Þessi tröllkona fékk honum þá í hönd hið nafnkennda Tröllkonurím og mælti: "Hefði hann Kristur Maríuson unnið eins mikið fyrir okkur tröllin eins og þið segið hann hafi unnið fyrir ykkur mennina, þá hefðum við ekki gleymt fæðingardeginum hans." Þegar hún hafði þannig mælt, skildu þau, og bar ekki á reimleikum í Bláskógum eftir það. En Ólafur fór norður, og þótti mönnum honum hafa farist ágætlega; en kallaður var hann upp frá því Ólafur muður.
Netútgáfan - mars 1997