HVERJUM  ODDINUM  ÞÁ,  DROTTINN  MINN



Biskup nokkur í Skálholti var mjög guðhræddur og gerði á hverju kvöldi bæn sína í dómkirkjunni. Ráðsmaður staðarins hét Oddur, og fjósastrákurinn hét sama nafni.

Biskup átti dóttur uppkomna, sem var hinn besti kvenkostur. Oddi fjósastrák lék forvitni á að vita, hvað biskup væri að erinda í kirkjunni á kvöldin. Klæddi hann sig þá í hvítan hjúp, fór út í kirkjuna á undan biskupi og setti sig í stellingar uppi á altarinu. Kom biskup að vörmu spori, en tók ekki eftir strák, því að skuggsýnt var í kirkjunni. Kraup biskup við gráturnar og fór að biðjast fyrir upphátt. Meðal annars bað hann drottin að opinbera sér, hverjum hann ætti að gifta dóttur sína. Þá svaraði strákur: "Honum Oddi."

Biskup leit upp og sá hvítklædda veru uppi á altarinu. Hélt hann, að þetta væri engill af himnum sendur, laut höfði í auðmýkt og mælti: "Hverjum Oddinum þá, drottinn minn?"

Þá svaraði strákur: "Þeim, sem kamrana mokar og kaplana hirðir."

Skiptust þeir svo ekki fleiri orðum.

Upp frá þessu fór biskup að dubba upp fjósastrákinn. Var hann settur til mennta og reyndist mjög námfús. Að loknu námi fékk hann biskupsdótturinnar og var um leið vígður til besta brauðsins í stiftinu.



(Þjóðsagnasafnið Gríma)

Netútgáfan - nóvember 2000