ÞÚ  ÁTT  EFTIR  AР BÍTA  ÚR  NÁLINNI



Galdramaður er nefndur sem Finnur hét. Hann var svo forn og illur í skapi að allir voru hræddir við hann. Þegar hann dó vildi enginn, hvorki karl né kona, verða til þess að líkklæða hann og sauma utan um hann.

Þó varð kvenmaður einn til þess að reyna það. Komst hún ekki nema hálfa leið og varð svo vitstola.

Þá gaf önnur sig til og gaf hún sig ekki að því hvernig líkið lét.

Þegar hún var nærri búin sagði Finnur: "Þú átt eftir að bíta úr nálinni."

Hún svaraði: "Ég ætlaði að slíta en ekki bíta, bölvaður."

Sleit hún síðan nálina frá, braut hana í sundur og stakk brotunum í iljar líkinu. Er þess ekki getið hann gjörði neinum framar mein.


(Sk. G. -- eftir Páli Ólafssyni, Brúsastöðum í Vatnsdal.)


Netútgáfan - júlí 1997