Einhver nafnkenndastur draugur á Norðurlandi var Mývatns- Skotta á sinni tíð, og eiga Mývetningar margar sögur af afreksverkum hennar. Frá uppruna hennar er svo sagt, að galdramaður nokkur hafi eitt sinn búið á Grímsstöðum við Mývatn og hafi hann átt illt útistandandi við mann einn yfir í Köldukinn.Á laugardaginn fyrir páska eða hvítasunnu kom flökkustúlka að Grímsstöðum. Bóndi tók vel við henni og fylgdi henni í eldhús: kona hans var þá að færa hangiket upp í trog. Bóndi þrífur langlegg úr troginu, réttir að stúlkunni og segir henni að éta. Stúlku-auminginn tekur feginshendi móti ketinu og étur með góðri lyst. Þegar hún var mett orðin, býðst bóndi til að fylgja henni til næsta bæjar.
En þegar þau koma að á þeirri, sem rennur milli bæjanna, tekur hann stúlkuna, kastar henni í ána og heldur í fætur hennar, meðan hún er að kafna. Stúlkan hafði, eins og þá var títt, skautskuplu á höfði, og snaraðist skuplan á hnakkann, meðan hann hélt henni í kafinu. Þegar hann þóttist viss um, að stúlkan væri dauð, dró hann hana úr kafinu og upp á bakkann, magnaði hana síðan með fjölkynngi sinni og sendi hana svo til að drepa manninn, sem hann þóttist eiga vanhefnt við.
Þegar draugur þessi sást á ferð síðan, dinglaði skuplan á hnakka hennar, og er þaðan dregið Skottu-nafnið. Skotta fór sendiförina og vann það, sem fyrir hana var lagt, kom aftur og sagði bónda, að hún hefði banað manninum, og spurði, hvað nú skyldi vinna. Bóndi sagði henni, að hún skyldi fylgja ættarskömminni, og það gjörði hún og vann margt til meins ættingjum þess, sem hún drap fyrst. Hún hélt til við Mývatn, því þar voru niðjar manns þessa.
Í mæli var það, að hún hefði valdið raunum Illuga Helgasonar, þess er orti Ambálesrímur, því bæði gat hann stundum ekkert kveðið tímum saman fyrir ásókn hennar og missti konur sínar voveiflega og varð sjálfur geðveikur og vesall á seinustu árum sínum, og var allt þetta kennt Skottu. Í mansöngum fyrir Ambálesrímum minnist Illugi á böl sitt, og er þar þessi vísa ein í:
- Er eg svo merkjum ánauðanna undir staddur
- og einhverri á óstund fæddur,
- að yndi trautt má vera gæddur.
Víða fór Skotta um byggðir, og var það sagt, að hún fylgdi Mývetningum, og þóttust margir sjá hana, sem skyggnir voru, á undan komu þeirra, en sumum barst hún í drauma.
Frá því hefur verið sagt, að kerling ein, sem fóstraði barn, sat uppi um nótt í rúmi sínu, en barnið nam ekki af hljóðum; kerlingu þótti þetta venjubrigði, og kom henni þá í hug, að barnið mundi sjá eitthvað óhreint. Fer hún því að litast um og sér, hvar Skotta situr á auðu rúmbóli yfir í baðstofuenda; rær hún sér þar og er að skæla sig framan í barnið; en kerling gat séð þetta, af því glaða tunglsljós var í baðstofunni.
Beið kerling þá ekki boðanna, leggur barnið í rúmið, en tekur kolluna sína og ætlar að fæla með því drauginn. Þegar Skotta sér tiltæki kerlingar, stekkur hún ofan, en kerling sendir kolluna með öllu, sem í var, á hæla henni; heyrir hún þá, að Skotta segir: "Það mátti ekki minna kosta."
Netútgáfan - nóvember 1997