Það er ein gömul sögn að einu sinni var bóndi sá er átti dóttir so fríða að engin fannst slík.Urðu margir til að biðja hennar, en hún neitar öllum biðlum. Var það oft að hún hvarf á kvöldum og vissi enginn hvurt hún fór.
Þar kom að faðir hennar trúlofar hana manni nokkrum og má hún nauðug með honum ganga. Fyrsta kveld veislunnar var gleði mikil og drykkja góð. Slokkna þá ljósin að skyndingu; kemur þá faðir brúðarinnar í húsið því út hafði hann gengið. Vindur hann þá upp ljósi nokkru undan síðhempu sinni. Sáu menn að brúður var af bekk hlaupin og ætlar til dyra.
Tók hún þá ógleði nokkra um tíma, en fyrir aðgjörðir föður hennar batnaði þegar frá leið og unnti hún manni sínum so mikið að hún fylgdi hönum á sjó og landi. Áttu þau mörg börn og liðu langar stundir.
Það bar til eitt kvöld að gildi nokkru að menn heyrðu þetta kveðið með sorgarróm:
- Man ég enn lundinn,
- man ég enn menjalundinn
- mest fyrir dyggðir flestar;
- engri áður né síðan
- ann ég betur en svanna.
- Man ég enn lundinn,
- man ég enn menjalundinn.
- Sá ég í gleðinni svannann bjarta,
- sýndist mér hann fullvel skarta.
- Tók ég í hönd á tiginn svanna,
- trú' ég það kynni mér enginn banna.
- Man ég enn lundinn,
- man ég enn menjalundinn.
- Hlupu á fætur höldar snjallir;
- höndla vildu þeir mig allir.
- Ég komst á bitann og beint í skuggann,
- burt þaðan og út um gluggann.
- Man ég enn lundinn,
- man ég enn menjalundinn.
- Reið ég so frá rjóðu vífi,
- reyrði sorgin fast að lífi,
- með so sáru sútarkífi
- sorgin stranga mig gjörði að fanga.
- Man ég enn lundinn,
- man ég enn menjalundinn.
- Síðan hef ég ei séð hana tróðu,
- so hefur rénað lyndi góðu,
- gengið samt um gleðinnar slóðir;
- gjörði þá angrið mig að fanga.
- Man ég enn lundinn,
- man ég enn menjalundinn.
- Frúinnar nafn er framan í hlíðum,
- fagurt skín sól með geislum blíðum
- ás og nauð með ekka stríðum;
- inna vil ég hvað heitir kvinna.
- Man ég enn lundinn,
- man ég enn menjalundinn.
- Frúinnar nafn er fossum undir,
- falist hefur um langar stundir;
- þorn og ó er í þessu bundið,
- þar með ós og lögurinn ljósi.
- Man ég enn lundinn,
- man ég enn menjalundinn.
Er það eftir konunni haft að huldumaður hefði átt vingott við sig og hefði viljað ná sér; kvæði hann nú þetta og væri víst að dauða kominn. Varð síðan ekki hans vart.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - apríl 2000