MEIRI  MOLD,  MEIRI  MOLD



Einu sinni var prestssonur; hann var gjálífur og mikill gárungur og lét sér ekki segjast þó hann væri áminntur.

Einhverju sinni þá lík var grafið komu mikil bein upp úr garðinum. Meðal þeirra voru leggir einir mjög miklir. Strákur tók einn legginn og hafði mörg orð um að sá mundi hafa verið sterkur sem átti þenna legg, en nú af honum mikilmennskan, og fleiri hæðnisorð hafði hann frammi. Menn sögðu hann skyldi ekki vera að þessu, en hann hló að.

Nú bar ei til frásagna fram að jólum. Þá bauð prestur til jólaveislu. Allir voru komnir inn á aðfangadagskvöld og komið yfir dagsetur. Borð voru sett og vistir bornar fram; þá var barið. Mönnum varð bilt við og þorði enginn að koma út; þó gekk einn til dyra og sá engan. Sá gekk inn og sagði engan kominn. Þá var barið aftur. Nú gekk annar út og sá engan.

Sonur prests átti fóstra gamlan. Hann segir við strák: "Gakk þú út, líklega vill gesturinn finna þig. Verðirðu nokkurs var, þá tak í hönd honum þegjandi og leiddu inn."

Strákur fer út og þó með hálfum huga. Þegar hann kemur til dyra stendur úti fyrir maður mikill vexti, en hvítur af hærum. Hann tekur í hönd honum, leiðir inn og setur við borðið. Gesturinn hafði tekið fastlega í hönd piltinum svo hrollur fór um hann allan. Nú situr gesturinn við borðið og tekur ekki til matar þó honum væri boðið. Enginn talar til hans og hann til engis.

Þá segir fóstri prestssonar við hann: "Taktu nú disk og farðu út í leiði sem seinast var grafið í; láttu mold á diskinn og færðu gestinum."

Drengur gjörir þetta og þá moldin kemur tekur gesturinn að snæða. Þegar búið var af diskinum segir hann lágt: "Meiri mold, meiri mold!"

Drengur tekur diskinn og sækir aftur mold í leiðið. Gesturinn snæðir þetta nærri allt og setur svo frá sér. Þá skipar fóstri prestsonar að hann bjóði komumanni messuvín. Það gjörir pilturinn og þiggur gesturinn tvö staup; þá stendur hann upp og tekur fast í hönd drengnum og leiðir hann út.

Hann gengur út í kirkjugarð og kemur þar að litlu húsi; þar gengur hinn mikli maður inn og er þar rúm uppbúið. Þar vísar hann dreng að leggjast upp í. Hann þorir ei annað en gjöra það.

Þá segir hinn gamli maður: "Líttu nú upp fyrir þig!" Hann gjörir það og sér þar hanga nakið sverð ógurlega mikið og biturlegt, og hangir í einu hári. Oddurinn stefnir rétt á hjarta piltsins. Við þetta verður hann svo hræddur að honum liggur við ofboði. Hvergi þorir hann að hræra sig og hleypur um hann kaldur sviti allan.

Þegar hann hafði legið þar nokkra stund í þessum dauðans ótta segir hinn mikli maður: "Þú hæddir bein mín og hvað ég væri nú ómáttugur, en sjáðu nú hvað máttur þinn gjörist lítill þegar þú sér dauðans sverð hanga yfir þér. Þannig hangir það á hári yfir yður öllum og veit ekki fyrr en það nístir hjarta yðar, og hverfur þá allt heims oflæti. Minnstu þessa og hæddu ei framar hina framliðnu; vertu gætinn og bústu við því að sverð dauðans leggur hjarta þitt í gegnum þegar minnst varir."

Nú tekur hinn mikli maður í hönd piltinum, reisir hann úr rúminu og leiðir út. Þá hnígur pilturinn í óvit.

Drengsins var leitað um kvöldið og morguninn og fannst hann ekki. Þegar messa stóð hæst á jóladaginn raknaði prestssonur úr óviti og sá hvergi húsið og var hann enn í kirkjugarðinum. Hann gengur í kirkju og hlýðir messu og gengur aldrei út eins og hann hafði ávallt gjört áður. Föður hans þóttu góð skipti á orðin og eftir þetta varð sonur hans hinn mesti siðprýðismaður og hamingjusamur. Hann gleymdi aldrei nóttinni þegar hann lá undir sverðinu sem hékk yfir honum á einu hári.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - ágúst 2000