FRÁ  SÉRA  MAGNÚSI  Á  HÖRGSLANDI



Magnús prestur, sem síðar var á Hörgslandi, þótti hinn gáfaðasti maður í uppvexti. Var hann því settur til mennta í Skálholtsskóla. En fyrsta veturinn, sem hann var í skóla, varð hann að allra manna aðhlægi, því að hann hafði snögglega misst námsgáfur sínar án allra orsaka. Þótti kennara hans hann ei líkur að gáfum því, sem áður var af honum látið. Var hann fyrir þessa sök hafður þar í litlu gildi.

Sigurður hét skólapiltur, sem hafður var í mestu metum fyrir framúrskarandi gáfur í þann tíma þar í skólanum. Hann hafði fengið mjög ákafa ást til stúlku nokkurrar, sem var á staðnum. En hún vildi í engan máta aðhyllast hann. Fékk honum þetta svo mikils, að hann grandaði sér sjálfur. Síðan var lík hans borið í kirkjuna, og eftir því, sem þá var siður til, hlaut einhver að vaka yfir því um nóttina. Kom það hlutfall á Magnús. Fór hann því út í kirkju um kvöldið og bjóst til að vaka. En sem þriðjungur var af nótt, sér hann, að kistan hreyfist, og þar næst rís draugurinn upp og sprettir af sér hjúpnum og skilur hann eftir, en gengur sjálfur út úr kirkjunni. Veit Magnús ei meira um hann.

Nú hugsar hann sér ráð, meðan draugsi er burtu, tekur þar nýjan færisstreng, er hann finnur, og leggur á kistubarminn, en tekur hjúpinn til sín.

En að stundu liðinni kemur draugurinn og segir: "Fáðu mér duluna mína, Mangi."

"Ekki geri ég það," segir hann, "nema þú segir mér, hvað þú varst að gera síðan í nótt, að þú fórst burtu."

"Ég var," mælti draugurinn, "að finna stúlkuna mína; ætla ég mér að njóta hennar dauður, fyrst ég gat það ei í lífinu."

Þá mælti Magnús: "Drapstu hana þá?"

"Svo má það kalla," sagði draugurinn, "og fáðu mér nú duluna mína, Mangi!"

"Ekki geri ég það, nema þú segir mér, hvernig lífga megi stúlkuna," sagði Magnús.

"Þar munu fáir til verða," mælti draugurinn, "og gildir mig því einu, þó ég segi þér það, og er sú aðferð til þess að leggja hana í sæng og hátta þar hjá henni og strjúka hana með vörmum höndum, því ég fal lífið úr henni undir annarri litlu tánni á henni sjálfri, og fáðu mér nú duluna mína, Mangi!"

"Ekki geri ég það," segir Magnús, "nema þú segir mér, hvernig því var varið, að ég missti námsgáfuna, þegar ég kom hingað í haust."

"Djöfullinn tók hana frá þér," kvað draugurinn, "svo þér skyldi ei auðnast að verða prestur."

"Seg mér ", kvað Magnús, "hvað þú áttir að verða."

"Ég átti að verða þrígiftur."

"Illa hefur þú farið með þig," mælti Magnús.

"Satt er það, Mangi," mælti draugurinn, "og fáðu mér nú duluna mína."

"Aldrei geri ég það," segir Magnús, "nema þú gefir mér nokkuð af þeim gáfum, sem þú hafðir í lífinu."

"Þorir þú þá að leggjast undir mig?" mælti draugurinn. "

Já," kvað Magnús.

Síðan lagðist hann niður og draugurinn ofan á hann og blés stroku mikilli ofan í Magnús og spurði, hvort það væri ei nóg. Hann kvað nei við. Þá blés draugurinn í annað sinn og spyr, hvort ei sé nóg komið, en Magnús neitaði og bað hann blása í þriðja sinn.

"Þá máttu vara þig," kvað draugurinn, "því þeim innblæstri fylgir ódaunn mikill, og ef þú lifir eða stenst þetta, þá muntu verða nógu margfróður."

Magnús kvaðst til hætta. Síðan blés draugurinn í þriðja sinn ofan í hann svo mikilli fýlu, að Magnús vissi ei meir af sér og vaknaði ei fyrr en á björtum degi og við það, að staðarmenn voru þar að stumra yfir honum. Hann skipar þá að hefja söng yfir líkinu og grafa síðan; var hann forsöngvari. Undruðust þá allir, hvað fögur hljóð Magnús væri búinn að fá, þar öllum þótti sem það væri rödd Sigurðar (draugsins).

Eftir það lætur hann leggja lík stúlkunnar í rúm og háttar sjálfur hjá henni og fer að öllu sem draugurinn sagði honum, uns hún lifnaði við.

Þar eftir hóf Magnús að nýju lærdóm sinn í skólanum, og var enginn jafn honum að gáfum; fannst kennurum hans gáfur hans svo líkar þeim, sem Sigurður hefði haft.

En sem hann útskrifaðist úr skóla, gekk hann að eiga þessa stúlku, sem hann lífgaði, og var það fyrsta konan hans, því hann varð þrígiftur. Síðan varð hann prestur á Hörgslandi, og hafa margar kynstrasagnir af honum sagðar verið, þar hann átti í stríði við drauga og afturgöngur alla sína ævi, en bar þó jafnan hærra hlut í þeim viðskiptum.


Það var eitt sinn á 17. öld um daga séra Magnúsar, ef til vill 1627, þá er Magnús var djákn í Þykkvabæ í Veri, að Tyrkjar komu hér við land á ekki færri 30, aðrir segja 18 skipum, sáust þeir fram undan Meðallandi; aðrir segja, að þeir hafi verið fram undan Skaftárósum; hafi þeir haldið að landi og dregið þar upp stríðsmerki.

Var þá séra Magnúsi til sagt og hann beðinn að sjá ráð til, að ekki yrði mein að þeim. Kvað hann þá kvæði það, sem enn er til og kallað er Tyrkjasvæfa, og greinir menn á um það, hvort hann hafi verið frammi í fjöru að stígspora, þegar hann var að yrkja það, eða hvort hann stóð á meðan á hurðarokunum á Kirkjubæjar- eða Þykkvabæjarklausturskirkju; er hvort tveggja jafn-líklegt og þó vissara að trúa því síðara.

En svo var kvæðið mergjað, að óðara brá svo við, að ókyrrleiki mikill kom á skip Tyrkja, svo að þau bar eða þau sigldu hvert á annað. mölvuðust og týndust, sumir segja öll, en aðrir flestöll. Telja þeir, er ekki er vert að rengja, að jafnmörg hafi skipin týnst og erindi eru í kvæðinu, og hafa þau þá ekki verið færri en 30 eða 32.



Netútgáfan - janúar 1998