AР HVERJUM  ANDSKOTANUM  ERTU  AР LEITA?



Þegar ég var á 17. árinu (ca. 1838) átti ég heima í Hvammi í Möðruvallasókn. Bóndinn þar hét Þórður Þórðarson.

Þá var það eina nýársnótt að við stúlkurnar tvær vöktum æði lengi fram eftir; þar vakti og sonur hjónanna, Þorsteinn að nafni, og var að skrifa. Var hann vakandi þegar við sofnuðum.

Eftir það fór hann að hátta og slökkti ljósið, en sofnaði ekki strax, heldur lá vakandi í rúmi sínu. Þegar lítil stund er liðin sér hann hvar ljósgeislar koma inn með hurðinni, og síðan er lokið upp. Kemur þar þá inn ókunnug kona prúðbúin með fléttað hárið.

Var hún svo fríð að hann sagði það hefði verið fallegasti kvenmaður sem hann hefði séð. Kona þessi hafði stórt og skært logandi kerti í hendi; gekk hún beint inn að hjónarúminu. Þar var himinn uppi yfir og ýmislegt á. Fer hún nú að lýsa og leita á himninum.

Var þá drengur hræddur um hún ætlaði að taka eitthvað og segir: "Að hverjum andskotanum ertu að leita?"

Gekk þá konan fremur snúðugt út.

Um morguninn sagði drengur frá þessu. Hélt hann þetta hefði verið prestkonan huldufólksins og iðraðist eftir bráðræði sínu, enda fundu og foreldrar hans að því við hann.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - janúar 2000