Þegar Stefán bóndi Stefánsson flutti að Kleifum á Selströnd var sauðfé hans flutt sjóveg að Hafnarhólmi og þangað leitaði það helst.Þá bjuggu að Hafnarhólmi bændur tveir, Jón Jónsson og Ólafur Hafliðason. Áttu þeir börn. Jón átti son þann er Guðmundur hét, skilgóður maður. Það var vandi þeirra bænda að láta reka fé Stefáns honum til greiða heim þegar því varð við komið.
Eitt sinn kom þar féð. Kvaddi þá Jón Guðmund son sinn til með yngri börnum að reka sauðina til Kleifa. Ólafur bóndi átti dóttir þá er Guðlaug heitir; hún var fimm eða sex ára og sem börnum er títt biður hún leyfa sér að fara með hinum börnunum, hvað hún líka fékk. En þar hún var yngst barnanna varð hún á eftir lítið eitt og gætti Guðmundur þess fyrstur barnanna.
Fór hann þá til baka og gengur þar til hann sér hvar Lauga litla hleypur og eltir konu nokkra sem Guðmundi sýndist fyrst lík móðir stúlkunnar. Kallar hann þá til hennar og biður hætta að tæla barnið. Leiðin lá yfir gil nokkurt og það sá Guðmundur að konan tók undir hendur barnsins og lyfti því yfir gilið. Skerpir hann þá róminn og biður konuna sleppa. Í því bili dettur hann flatur, en þegar hann rís við aftur var kelling horfin.
Kona þessi var soleiðis klædd sem nú segir: í blárri peysu með rönd oná svuntu, bar þó rauðlitan dökkvan klút í breiða gjörð um höfuð, hvítlitan klút um herðar og brjóst, fagurhærð og fallega vaxin. So sagði stúlkan að kona þessi hefði tælt sig á lyklum og þar við hangandi skrautlegri sylgju.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - apríl 2000