Einhverju sinni bar svo við á Látrum í Rauðasandshrepp í Barðastrandarsýslu að smalana þar, sem voru unglingspiltur og unglingsstúlka, vöntuðu nokkrar kindur og leituðu þeirra út á Látrabjarg. Mikil þoka var á um daginn; þau fundu brátt nokkuð af kindunum og héldu með þær heim á leið, en töluðu um að koma við um leið í selinu frá Látrum sem er þar á bjarginu ef ske kynni að nokkuð af kindunum hefði slangrað þar inn.Þegar þau koma að selinu sjá þau að hurð er í hálfa gátt. Gengur þá pilturinn inn, en stúlkan beið hans á meðan í dyrunum. Gáir hann fyrst í eldhús, síðan í búr og seinast í baðstofu.
Veit þá ekki stúlkan fyrri til en pilturinn kemur fram og gengur aftur á bak. Stúlkan verður þá mjög hrædd og spyr því hann láti svona. Segir hann henni þá að engar kindur sé í selinu, en stúlku hafi hann séð og sofi hún í rúmi þar í selinu.
Hún segir hann sé að skrökva þessu til að hræða sig. Hann segir nei og segir henni að koma inn með sér, en biður hana að hafa ekki hátt.
Nú ganga þau inn hljóðlega og sjá þau þá hvar stúlka lítil vexti og fríð í andliti með bjart hár sefur í rúmi í selinu; klút hafði hún breitt ofan á kinnina á sér. Hún var á bláum vaðmálsfötum með röndótta vefjarsvuntu, í dökkum sokkum, með nýja óbrydda sauðskinnsskó með hvítum þvengjum. Ekki vissu þau hvert hún var sofandi, en heyrðu léttan andardrátt til hennar.
Biðu þau ekki boðanna og stukku út og heim og sögðu frá sögu þessari.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - febrúar 2000